Mismunandi krabbameinslyf

Kannski ertu að fara í meðferð við fjarmeinvörpum brjóstakrabbameins í fyrsta sinn eða kemur nú í fjórða sinn eða jafnvel meira. Til allrar hamingju er um ýmsa kosti að velja sem gefa góða svörun. Því er sá möguleiki alltaf fyrir hendi að þú bregðist vel við nýju lyfi. Þótt þú hafir ekki brugðist vel við einni tegund krabbameinslyfs þarf það ekki að þýða að þér geti ekki vegnað betur með annarri tegund. Hér á eftir fer stutt yfirlit yfir þau lyf sem tiltæk eru. Viljir þú kynna þér þetta betur, skaltu fara í kaflann þar sem fjallað er um krabbameinslyfjameðferð.

Meðferð með einu krabbameinslyfi

Læknar mæla oft með því að aðeins sé gefið eitt krabbameinslyf í einu áður en farið er að gefa fleiri en eitt lyf saman. Það er vegna þess að töluvert gagn er hægt að hafa af einu lyfi með minni aukaverkunum.

Sé ákveðið að gefa þér aðeins eitt lyf, gæti það verið:

  • Taxane-lyf: Taxotere® (efnafræðiheiti: docetaxel), Taxol® (efnafræðiheiti: paclitaxel) eða Abraxane® (efnafræðiheiti: albumin-bundið paclitaxel - *Abraxane® er ekki skráð hér á landi),

  • Adriamycin® (efnafræðiheiti: doxorubicin) eða svipað lyf svo sem Doxil® (efnafræðiheiti: doxorubicin),

  • Xeloda® (efnafræðiheiti: capecitabine),

  • Navelbine® (efnafræðiheiti: vinorelbine) eða

  • Gemzar® (efnafræðiheiti: gemcitabine).

Hér eru nokkur atriði sem hafa þarf í huga þegar ákveðið er hvert þessara lyfja er heppilegast:

  • Æxli minnkar eða hverfur alveg hjá fleiri konum þegar gefið er Taxotere®, Taxol® eða Abraxane® heldur en þegar gefið er Adriamycin®. Svörun við taxane-lyfjum er að meðaltali um 30% og sveiflast frá 15% upp í 60%. Þessum lyfjum fylgir einnig minni ógleði, uppköst og munnsár en Adriamycin®.

  • Sumum konum getur þó reynst árangursríkt að gefa Adriamycin® á meðan taxane-lyfin virka ekki. Lestu um rannsókn (á ensku) og árangur þess að nota þessi krabbameinslyf ásamt Herceptin® þegar í hlut eiga konur með HER2-jákvætt krabbamein.

  • Önnur ný stór rannsókn  sýnir að áhrifaríkara er að meðhöndla meinvörp brjóstakrabbameins með Taxotere® en Taxol®. Hins vegar fylgdu meiri aukaverkanir taxotere. 

  • Nýlegar niðurstöður gefa til kynna að Abraxane® sé árangursríkara en Taxol® og hafi minni aukaverkanir í för með sér. Tveimur rannsóknum er nýlega lokið sem sýna að Abraxane® sem er gefið vikulega í smáum skömmtum sé einnig áhrifaríkt og hafi í för með sér færri aukaverkanir. Verið er að rannsaka árangur þess að gefa saman lyfin tvö Abraxane® og Herceptin®.

  • Þegar lyfin Taxotere® eða Taxol® eru gefin vikulega í tiltölulega smáum skömmtum eru þau mjög áhrifarík og hafa færri aukaverkanir (eins og slæman blóðhag, hármissi og taugakvilla) í för með sér en þegar þau eru gefin á þriggja vikna fresti. Abraxane® er gefið á þriggja vikna fresti og ekki nauðsynlegt að gefa stera á undan.

  • Navelbine® og Gemzar® má nota hvort heldur er til að halda æxlisvexti og einkennum í skefjum án of mikilla aukaverkana (þar á meðal er minni hármissir). Svörun er á bilinu 20%-40% og varir árangurinn í um það bil átta mánuði ef honum er fyrir að fara á annað borð.

Samþætting krabbameinslyfja

Þegar gefin eru fleiri en eitt krabbameinslyf í einu býr áhrifaríkasta blandan yfir mörgum kostum:

  • Hún ræðst á allar hinar mismunandi tegundir krabbameinsfrumna sem krabbameinið er samsett úr (í krabbameini eru mismunandi tegundir frumna sem að bregðast ef til vill á ólíkan hátt við einu ákveðnu krabbameinslyfi).

  • Lyfin vinna vel saman með hámarksárangri og lágmarks aukaverkunum.

  • Hún ruglar krabbameinsfrumur í ríminu þannig að þeim tekst ekki að finna út hvernig þær geta varist viðkomandi krabbameinslyfjablöndu (þróað ónæmi fyrir henni).

  • Hefur ekki í för með sér meiri aukaverkanir en svo að unnt er að sætta sig við þær. 

Hafir þú aldrei farið í krabbameinslyfjameðferð áður er líklegt að krabbameinslæknir þinn byrji á að reyna lyfjablöndur sem hafa margsannað gildi sitt með svörun á bilinu 35% til 60%:

  • AT—Adriamycin® (efnafræðiheiti: doxorubicin) og Taxotere® (efnafræðiheiti: docetaxel).

  • AC ± T—Adriamycin® ásamt cyclophosphamide, með eða án Taxol® (efnafræðiheiti: paclitaxel) eða Taxotere®.

  • CMF—cyclophosphamide, methotrexate og fluorouracil ("5-FU" eða 5-fluorouracil).

  • CEF—cyclophosphamide, epirubicin (svipað Adriamycin®) og fluorouracil.

  • FAC—fluorouracil, Adriamycin® og cyclophosphamide.

  • TAC—Taxotere®, Adriamycin® og Sendoxan® (efnafræðiheiti: cyclophosphamide).

  • CAF—cyclophosphamide, Adriamycin® og fluorouracil.

  • GET—Gemzar® (efnafræðiheiti: gemcitabine), epirubin og Taxol®.

Ef krabbameinið þróast áfram

Haldi krabbameinið áfram að vaxa á meðan þér er gefið Adriamycin®, hafðu þá þessar nýlegu niðurstöður í huga þegar næsta meðferð er valin (grein á ensku):

  • Taxotere® virðist skila betri árangri við meðhöndlun fjarmeinvarpa brjóstakrabbameins en Taxol®.

  • Auðveldara er að þola Abraxane® en Taxol® (grein á ensku) vegna þess að ekki þarf að gefa steralyf á undan.

  • Með annarri rannsókn var sýnt fram á að Taxotere® ásamt Xeloda® skilaði betri árangri en Taxotere® eitt og sér.

  • Gemzar® ásamt Taxol® virkaði betur en Taxol® eitt og sér, var niðurstaða einnar rannsóknar.

Reynist krabbameinið þolið gagnvart bæði Adriamycin® og taxane-lyfjunum, munu flestir læknar mæla næst með einhverju af eftirtöldum lyfjum, í hvaða röð sem vera skal: 

  • Xeloda® (efnafræðiheiti: capecitabine),

  • Navelbine® (efnafræðiheiti: vinorelbine),

  • Gemzar® (efnafræðiheiti: gemcitabine)

  • CMF—cyclophosphamide, methotrexate og fluorouracil ("5-FU" or 5-fluorouracil).

  • Ixempra® (efnafræðiheiti: ixabepilone) var samþykkt af FDA (Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna) í október 2007 til meðhöndlunar á krabbameini sem er þolið gagnvart anthracycline-lyfjum, taxane-lyfjunum (Taxotere®, Taxol® og Abraxane®) og Xeloda®. Ixempra má einnig gefa ásamt Xeloda®.

Virki ekkert af þessu, er mögulegt að gefa saman Mitomycin® (efnafræðiheiti: mutamycin) og vincristine (tegundarheiti: Oncovin®, Vincasar PES®, Vincrex®).

ÞB