Mismunandi andhormónalyf

Þó nokkur ný og áhrifarík andhormónalyf haf nýlega bæst við þau sem fyrir voru. Þessi lyf hindra hormóninn estrógen í að örva vöxt brjóstakrabbameinsfrumna. Hvert þeirra á þá að reyna fyrst? Hvaða kostur er bestur fyrir þig fer eftir því hvernig þú hefur brugðist við andhormónameðferð fram að þessu og hvort þú ert enn í barneign (hefur blæðingar reglulega).

Hafi krabbameinið haldið áfram að vaxa eða versnað á sama tíma og tókst inn ákveðna tegund af andhormónalyfi, gæti læknir þinn ákveðið að skipta yfir í annars konar andhormónameðferð. Hafi hins vegar liðið meira en tvö ár frá því að þú tókst inn andhormónalyf og brjóstakrabbameinið hefur tekið sig upp aftur, er hugsanlegt að þú bregðist engu að síður vel við fyrsta lyfinu sem þú fékkst. Til að átta þig á hvaða möguleikar eru fyrir hendi skaltu lesa þann hluta sem á við þig í því sem hér fer á eftir.

Möguleikar þeirra sem eru í barneign

Farir þú enn á túr í hverjum mánuði er um þó nokkur andhormónalyf að velja:

  • Tamoxifen eða

  • meðferð sem kemur í veg fyrir að eggjastokkarnir framleiði estrogen eða

  • tamoxifen ÁSAMT því að stöðva starfsemi eggjastokka eða

  • lyfið Megace® (efnafræðiheit: megestrol) eða

  • Halotestin® (efnafræðiheiti: fluoxymesterone).

Tamoxifen er það lyf sem yfirleitt er valið fyrst með eftirfarandi meðferð í því skyni að stöðva framleiðslu estrogens í eggjastokkum:

  • Brottnám eggjastokka með skurðaðgerð eða

  • geislameðferð til að stöðva starfsemi eggjastokka eða

  • lyfin Zoladex® (efnafræðiheiti: goserelin acetate), Lupron® (efnafræðiheiti: leuprolide) eða Trelstar® (efnafræðiheiti: triptorelin) sem er sprautað undir húð.

Aflaðu þér eins mikilla upplýsinga um þessa kosti og þú getur þannig að þú getir rætt þá við lækni þinn.

Andhormónalyf sem aðeins eru notuð í stöku tilfellum eru lyfin Megace® og Halotestin®:

  • Megace® er andhormónalyf sem líkir eftir prógesteróni. Það er yfirleitt árangursminna en tamoxifen og veldur þembu og þyngdaraukningu. Engu að síður kann það að koma sumum konum að miklu gagni.

  • Halotestin er karlhormón sem er ekki eins áhrifaríkur og tamoxifen og megace. Lyfið veldur hárvexti í andliti og fleiri kralmannseiginleikum. Þótt aukaverkanirnar séu ónotalegar, getur Halotestin® reynst sumum konum mjög vel því það eykur fjölda rauðra blóðkorna. 

Konur á barneignaaldri sem hafa farið í meðferð til að stöðva starfsemi eggjastokka eða farið í snemmbúin tíðahvörf sem aukaverkun af meðferð með krabbameinslyfjum eiga um aðra kosti að velja. Þær geta notað andhormónalyf sem aðeins eru ætluð konum komnum úr barneign. Þar á meað eru lyfin:

  • Arimidex® (efnafræðiheiti: anastrozole), Femara® (efnafræðiheiti:letrozole) og Aromasin® (efnafræðiheiti: exemestane) og

  • Faslodex® (efnafræðiheiti: fulvestrant).

Möguleikar þeirra sem komnar eru úr barneign

Það gerist oft að meðferð við brjóstakrabbameini stöðvar tíðahringinn um stundarsakir. Hafir þú ekki haft blæðir í einhverja mánuði eftir að meðferð lauk, er hugsanlegt að þú teljir að þú sért komin úr barneign fyrir fullt og allt. Það þarf þó ekki að vera. Læknir þinn getur látið rannsaka hvort þú ert í raun og veru komin yfir tíðahvörf. Sé svo, eru möguleikarnir á andhormónalyfjum töluvert fleiri:

  • Arimidex® (efnafræðiheiti: anastrozole),

  • Femara® (efnafræðiheiti: letrozole),

  • Aromasin® (efnafræðiheiti: exemestane),

  • tamoxifen (hafir þér aldrei verið gefið það áður),

  • Faslodex®, (efnafræðiheiti: fulvestrant), (ERD-lyf)

  • Fareston® (efnafræðiheiti: toremifene) sem er náskylt tamoxifeni,

  • Megace® (efnafræðiheiti: megestrol),

  • Halotestin® (efnafræðiheiti: fluoxymesterone) eða

  • einhver samsetning ofangreindra lyfja.

Öll þessi lyf eru tekin inn í töfluformi einu sinni á dag nema Faslodex® sem er sprautað undir húð einu sinni í mánuði.

Gott getur verið að hafa úr svo mörgu að velja, en á hverju er best að byrja?

Í meira en 20 ár var tamoxifen besta lyfið sem kostur var á. Nýlegar rannsóknir hafa hins vegar sýnt að konum sem komnar eru úr barneign virka aromatase-hemlar betur en tamoxifen. "Betur" þýðir að þau sýna betri árangur með minni aukaverkunum. Standir þú frammi fyrir því að vera með fjarmeinvörp brjóstakrabbameins með hormónaviðtökum (ER+ eða PR+ hormóna-jákvætt) er trúlega best að byrja á að reyna einhvern þessara þriggja aromatase-hemla: 

Árangur þessara þriggja tegunda aromatase-hemla hefur ekki verið borinn saman innbyrðis, þannig að ekki er vitað hvort eitt lyf er betra en annað. Það fer þá eftir meðmælum læknisíns þíns hverju þeirra þú velur að byrja á, hvaða lyf þú hefur þegar fengið og hve vel þú þolir eitt lyf í samanburði við önnur.

Tamoxifen kann enn að vera góður kostur á eftir Femara®, Arimidex® eða Aromasin®. Virki það ekki, gæti Faslodex® verið næstbesti kosturinn. Læknar hafa minni reynslu af faslodex en í einni rannsókn  sýndu niðurstöðurnar að það reyndist jafn árangursríkt og Arimidex® þegar það var gefið konum komnum úr barneign sem tamoxifen virkaði ekki lengur á.

Að gefa saman tamoxifen og Arimidex® felur ekki í sér ávinning til viðbótar og kann að hafa fleiri aukaverkanir í för með sér. Verið er að rannsaka árangur þess að gefa Arimidex® ásamt Faslodex® en niðurstöður liggja ekki fyrir.

Hvenær er rétt að skipta um lyf

Sértu með fjarmeinvörp brjóstakrabbameins og gengur vel með ákveðnu andhormónalyfi skaltu halda þig við það eins lengi og það virkar vel og aukaverkanirnar ekki meiri en svo að þú getur sætt þig við þær. Hægt er að ná ljómandi árangri með andhormónalyfjum með tiltölulega vægum aukaverkunum, Taki krabbameinið sig hins vegar upp, æxli fer að stækka eða meinið dreifir sér á meðan þú ert að taka inn ákveðið lyf, er rétt að hætta með það. Krabbameinsfrumur kunna að hafa komið sér upp þoli gagnvart lyfinu og leið til að vaxa þrátt fyrir lyfið. Þær kunna jafnvel að hafa lært að nærast á lyfinu. Þegar þannig hátter getur það jafnvel hjálpað að hætta einfaldlega að taka inn lyfið og "svelta" krabbameinið á þann hátt.

Krabbameinslæknir þinn mun að líkindum einnig mæla með að þú reynir eitthvert annað andhormónalyf. Flestar konur með fjarmeinvörp brjóstakrabbameins nota mismunandi andhormónalyf á löngum tíma - yfirleitt eitt lyf í einu. Best er að halda sig við það sem virkar og skipta ekki um lyf fyrr en krabbameinið ágerist.

Aukaverkanir andhormónalyfja

Öll andhormónalyf geta valdið ertiviðbragði skömmu eftir að byrjað er að taka þau. Verkir versna eða kalkmagn eykst í blóði þegar krabbamein bregst við því að fá ekki það sem það þarfnast sér til viðgangs. Þótt svona ertiviðbragð sé óþægilegt er það þó merki um að meðferðin virki. Um það bil tvær af hverjum 10 konum finna fyrir þessu og er verkjum þá haldið í skefjum með verkjalyfjum. Einkenna verður yfirleitt vart fyrsta mánuðinn eftir að meðferð hefst og þau hverfa innan tveggja mánaða.

Andhormónalyf geta einnig valdið einkennum í ætt við tíðahvarfaeinkenni. Þar á meðal eru:

  • Hitakóf,

  • þurrkur í leggöngum,

  • óþægindi við samfarir og

  • geðsveiflur.

Unnt er að takast á við tíðahvarfaeinkenni með ýmsu móti, hvort heldur er með lyfjum eða með því að breyta lifnaðarháttum.

Aromatase-hemlar, lyf og skurðmeðferð sem tekur fyrir starfsemi eggjastokka eru meðferðir sem allar tengjast vægri beinþynningu meðan á meðferð stendur. Beinstyrk má fylgjast með fyrir meðferð og meðan á henni stendur, eftir þörfum. Einnig er unnt að fá beinstyrkjandi lyf  til að vernda beinin og byggja upp bein.

Fyrir kemur, en er þó sjaldgæft, að tamoxifen er talið orsaka blóðtappa og krabbamein í legi eða legslímhúð. Rannsóknir sýna þó að fyrir flestar konur vega kostir meðferðarinnar mun þyngra en þessi áhætta. 

Næstu skref

Að því kann að koma — mánuðum eða jafnvel eftir mörg — að krabbameinið sækir fram þrátt fyrir andhormónameðferð. Á þeim tímamótum kann þér að vera boðin meðferð með krabbameinslyfjum. Sumar konur halda áfram með andhormónalyfin og bæta krabbameinslyfjunum við. Aðrar hætta að taka inn andhormóna þegar þær byrja að fá krabbameinslyf. Herceptin®, eitt og sér eða ásamt krabbameinslyfjum, eða ný lyf sem ekki eru komin á markað, kunna einnig að vera kostur í stöðunni.

Hafðu hugfast að vísindamenn eru stöðugt að rannsaka og leita að áhrifaríkum lyfjum með færri aukaverkunum sem kunna að verða tiltæk fyrr en varir.

Það kunna að líða fáeinir mánuðir áður en þú ferð að finna fyrir verkun andhormónalyfsins.  Séu viðtakar fyrir estrogen eða prógesterón á krabbameinsfrumum fjarmeinvarpa brjóstakrabbameins má yfirleitt búast við góðum árangri af andhormónalyfjum (and-estrogenlyfjum) Almennt má segja að því fleiri móttakar sem eru fyrir hendi, þeim mun betri árangri má búast við:

  • Séu bæði viðtakar fyrir estrogen og prógesterón fyrir hendi eru líkur að að andhormónalyf virki vel um 70%.

  • Ef einungis estrógenviðtakar eru fyrir hendi eða einungis viðtakar prógesteróns, eru líkurnar á góðri virkni um 33%.

  • Sé ekki vitað hvort hormónaviðtakar eru fyrir hendi eru engu að síður 10% líkur á framför.

Líkur á góðum viðbrögðum aukast einnig við að vera í eldri kantinum og sömuleiðis ef liðið hafa að minnsta kosti tvö ár frá því að þú greindist fyrst þangað til brjóstakrabbameinið tók sig upp.

ÞB