Möguleikar á meðferð með Herceptin®

Trastuzumab (Herceptin®) er eitt af fyrstu marksæknu lyfjunum (ónæmislyfjunum) sem notuð voru til að meðhöndla brjóstakrabbamein. Það dregur úr eða stöðvar alveg vöxt frumna sem eru með of mikið af prótíni sem kallast HER2 — en lætur eðlilegar frumur að mestu í friði. Um það bil eitt af hverjum fjórum brjóstakrabbameinum er "HER2 jákvætt"— þ.e. framleiðir of mikið af þessu ákveðna prótíni.

Herseptín virkar öðru vísi en venjuleg krabbameinslyf. Þegar krabbameinslyf eyða krabbameinsfrumum, geta þau einnig skaðað heilbrigðar frumur sem skipta sér ört. Því hafa hefðbundin krabbameinslyf í för með sér fleiri aukaverkanir en herseptín. Ólíkt þeim er Herceptin® markvissara lyf — og dregur aðeins úr eða stöðvar vöxt frumna með of marga HER2 viðtaka.

Herseptín virkar því aðeins að krabbameinið sé HER2 jákvætt. Til að komast því hvort líklegt sé að Herceptin® gagnist þér, þarf læknir þinn að láta framkvæma ákveðna rannsókn til að kanna hvort líklegt sé að krabbameinið sem þú ert með svari meðferð með Herceptin®.

Herceptin® er gefið í æð einu sinni í viku eða þriðju hverja viku. Unnt er að gefa lyfið eitt og sér eða ásamt öðrum krabbameinslyfjum eða móthormónalyfjum. Rannsóknir benda til að Herceptin® gefi betri raun þegar það er gefið ásamt krabbameinslyfjum eins og:  

  • Paclitaxel (Taxol®),

  • Paclitaxel og carboplatin (Taxol® og Paraplatin®),

  • Vinorelbine (Navelbine®).

Verið er að prófa að gefa herseptín ásamt eftirfarandi krabbameinslyfjum:

  • Abraxane® (albumin-háð paclitaxel),

  • Abraxane® og Gemzar® (gemcitabine),

  • Taxotere® (docetaxel),

  • CMF (cyclophosphamide, methotrexate og fluorouracil),

  • Gemzar® (gemcitabine),

  • Xeloda® (capecitabine).

Engin af þessum samsetningum inniheldur krabbameinslyfið Adriamycin® (doxorubicin). Er það vegna þess að hættan á hjartabilun verður of mikil þegar herseptín er gefið með þannig krabbameinslyfi. Ein rannsókn leiddi í ljós að hætta á hjartabilun var miklu minni þegar Herceptin® var gefið ásamt Taxol® en þegar það var gefið samhliða Adriamycin­®.

Liðið geta nokkrir mánuðir áður en framfara verður vart með herseptíni. Hins vegar bendir ein rannsókn til að unnt sé að hafa gagn af því að fá herseptín jafnvel þótt brjóstakrabbameinið virðist fara versnandi á meðan lyfið er gefið.  

Aukaverkanir herseptíns eru yfirleitt vægar. Það veldur EKKI hármissi, ógleði eða aukinni sýkingarhættu. 

Í stöku tilfellum (1% til 5% kvenna) getur herseptín valdið:

  • Skemmdum á hjartavöðvanum og hefur þá áhrif á hæfni hjartans til að dæla blóði (gerist fremur ef Adriamycin® er gefið  samtímis eða hefur verið gefið einhvern tíma áður),

  • ofnæmisviðbrögðum,

  • vökvasöfnun í lungum.

Í sárafáum tilfellum veldur herseptín einkennum sem líkjast helst einkennum inflúensu en það dregur úr þeim við hverja lyfjagjöf. 

Sumar konur finna fyrir verk þar sem krabbameinið vex. Verknum er lýst sem "sviða" og finnst yfirleitt meðan á lyfjagjöfinni stendur eða fáeinum stundum eftir lyfjagjöf. Konur sem ekki finna fyrir þannig verk þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að lyfið virki ekki. 

Aflaðu þér eins mikilla upplýsinga og þér er unnt um lyfið Herceptin®.

 ÞB