Tilraunalyf

*Tilraunir með krabbameinslyf eru ekki gerðar hér á landi.

Þrátt fyrir öll þau mismunandi lyf sem sýnt er að virki á fjarmeinvörp brjóstakrabbameins, er mögulegt að krabbameinið dreifi sér. Sé það svo, er hugsanlegt að þú viljir eiga þess kost að fá tilraunalyf. Þannig lyf hefur ekki verið fullprófað á þeirri tegund brjóstakrabbameins sem þú ert með. Með þáttöku kvenna er verið að prófa talsverðan fjölda lyfja:

  • Bólusetningarlyf við brjóstakrabbameini kann að hjálpa líkamanum að ráðast á og deyða krabbameinsfrumur.

  • Sum lyf loka fyrir áhrif ákveðinna prótína sem kallast vaxtarhvatar og ýta undir vöxt brjóstakrabbameinsfrumna. Í rannsókn á lyfinu Iressa  (efnafræðiheiti: ZD1839) kom fram að það stöðvaði framrás sjúkdómsins hjá 13% kvenna með fjarmeinvörp brjóstakrabbameins í að minnsta kosti sex mánuði. Iressa vinnur gegn vaxtarþáttum þekjufrumna (epithelial growth factor).

  • Nokkur krabbameinslyf sem eru viðtekin í meðferð við annars konar krabbameinum hafa enn ekki verið reynd í sambandi við brjóstakrabbamein.

Rannsóknir á tilraunlyfjum kallast "klínískar rannsóknir". Lesa má meira um þær (á ensku) hér.

Þér verða ekki gefin tilraunalyf án þinnar vitundar. Til að taka þátt í klínískri rannsókn á tilraunalyfi þarftu að hafa lesið, skilið og skrifað undir skjal til staðfestingar á samþykki þínu. 

Yfirleitt er skjalið sem skrifa þarf undir 12-16 blaðsíður á lengd. Þú þarft ekki að ákveða hvort þú vilt taka þátt í rannsókn meðan á heimsókn hjá lækninum stendur. Reyndar er það svo að læknar kjósa helst að sjúklingar hugsi sig vel um áður en þeir ákveða hvort þeir vilja taka þátt og veita skriflegt samþykki.

Í klínískum rannsóknum á krabbameinslyfjum er konum með fjarmeinvörp yfirleitt ekki gefnar lyfleysur (sykurpillur) til samanburðar. Með öðrum orðum fá allir sem taka þátt í tilrauninni lyfið. Líta má á klíníska tilraun sem tækifæri til að fá fram nýrra og hugsanlega betra lyf sem annars hefði ekki orðið til.

 

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB