Vandamál sem þarf að meðhöndla staðbundið og strax

Hugsanlega sýnirðu merki eða einkenni þess að krabbameinið hafi dreift sér og valdi eða muni valda vandamálum sem þarf að ráða bót á umsvifalaust. Læknir þinn mun íhuga hvort til greina komi að grípa til staðbundinnar meðferðar í því skyni að minnka einkenninn og koma böndum á sjúkdóminn á þessum ákveðna stað. Hér á eftir er stuttlega sagt frá þeim stöðum sem líklegt er að meinvörp brjóstakrabbameins finnist í og þarf að taka á tafarlaust.

Þrýstingur á mænuna af völdum krabbameins. Þá þrýstir krabbameinsæxli á mænuna eða setur hana í klemmu. Í mænuninni sem er varin af hrygglengjunni liggja taugaþræðir frá heila út um líkamann. Krabbamein í vexti við hrygginn getur sett klemmu á mænuna sem skaðar taugar og getur valdið bakverkjum, máttleysi og jafnvel lömun, auk þess sem hægðir og þvaglát kann að breytast. Sjaldgæft er að krabbamein skemmi taugar með því að vaxa umhverfis mænuna (í stað hrygglengjunnar).

Meðferð þarf að hefjast fljótt til að forðast viðvarandi taugaskemmdir. Til að draga úr bólgu umhverfis meinið er byrjað á að gefa stera, ýmist í pilluformi eða með sprautu. Algengasta steralyfið er Decadron® (efnafræðiheiti: dexamethasone). Síðan er geislaðmeðferð beitt til að drepa krabbameinsfrumur á staðnum. Fyrir kemur að skurðmeðferð reynist nauðsynleg til að létta þrýstingnum af mænunni.

Fjarmeinvörp brjóstakrabbameins í heila sem valda einkennum þarf einnig að meðhöndla án tafar. Læknirinn mun fyrsta af öllu gefa fyrirmæli um steralyf og síðan eftirfarandi meðferð svo sem skurðaðgerð, krabbameinslyfjameðferð og/eða geislameðferð.

  • Læknir þinn kann að grípa til skurðmeðferðar til að fjarlægja lítinn krabbameinsblett sem skýtur upp kollinum löngu eftir að þú greindist fyrst með brjóstakrabbamein, sé æxlið að finna á stað þar sem óhætt er að skera. Skurðaðgerð gæti einnig reynst nauðsynleg ef stakt meinvarp sem veldur alvarlegum þrýstingi á heilann bregst ekki við öðrum meðferðum. Finnist hins vegar mörg meinvörp krabbameins í heilanum er skurðmeðferð yfirleitt ekki góður kostur. Fyrir kemur að settur er inn leggur (lítil slanga) til að beina uppsöfnuðum vökva í og umhverfis heilann í burtu.

  • Þegar krabbameinsfrumur komast inn í vökvann sem umlykur heilann og mænuna, getur krabbamein tekið að vaxa í stökum taugum. Það getur orðið til þess að tilfinning eða hreyfing skerðist í vissum hlutum líkamans. Einkenni kunna að lagast þegar gefnir eru sterar. Læknirinn mun hinsvegar einnig vilja að krabbameinslyfjum  sé sprautað beint í vökvann sem umlykur taugarnar (intrathecal chemotherapy). Þessi tegund krabbameinslyfjameðferðar kann að fækka krabbameinsfrumum í mænuvökva þannig að ólíklegra verði að þær valdi frekari skaða. Hins vegar er ólíklegt að þessi meðferð geti lagað þær skemmdir sem krabbameinið hefur þegar valdið.

  • Geislameðferð er beint að öllum heilanum og ákveðnum taugum. Sjaldan er henni beint að allri mænunni. Geislun á of stórt svæði myndi fækka um of mikilvægum frumum sem hafa það hlutverk að vinna bug á sýkingum og gæti því tafið fyrir því að krabbameinslyfjameðferð geti hafist eða haldið áfram.

Blæðingarkvilla má laga með geislum. Stundum fer að blæða út frá krabbameini sem vex í hörundinu á eða nærri brjóstinu eða út frá æxli í öndunarvegi til lungnanna. Þess háttar blæðing getur svarað geislameðferð fljótt og vel.

Krabbamein í beinum fótleggja, mjaðma eða handleggja getur veiklað og eyðilagt uppbyggingu þeirra og styrk. Beinunum er því hættara við að brotna jafnvel þótt ekki komi til meiðsli eða hnjask.

Hafi bein í fót- eða handleggjum veiklast alvarlega og þeim hætt við brotum hvenær sem er, gæti bæklunarkurðlæknir mælt með því að komið verði fyrir málmteini á veiklaða svæðinu. Það styrkir beinið og dregur úr hættu á beinbroti. Hafi berandi bein þegar brotnað, eins og mjaðmarbein eða leggur, er yfirleitt einhverju styrkjandi komið fyrir með skurðaðgerð sem getur veitt stuðning við beinið. Síðan er svæðið geislað. Geislameðferðin mun eyða krabbameinsfrumunum þannig að beinið nái að gróa. Bein ná ekki að vaxa og styrkjast hjálparlaust ef krabbameinsfrumur eru til staðar.

Sértu með fjarmeinvörp í beinum geta beinstyrkjandi lyf  komið í veg fyrir að beinin brotni og dregið úr verkjum. Hugsanlega ávísar læknir þinn á lyf sem heitir Aredia® (efnafræðiheiti: pamidronate disodium) eða Zometa® (efnafræðiheiti: zolendroic acid). Bæði lyfin eru gefin í æð í handlegg og látin dropa. Það tekur um það bil korter að fá skammt af zometa og um það bil tvær klukkustundir að fá gefinn skammt af aredia. Þessi lyf geta:

  • slegið á beinverki,

  • gert beinin sterkari,

  • minnka líkur á beinbroti af völdum meinvarpa,

  • draga úr myndun nýrra fjarmeinvarpa í beinum

  • minnkað kalkmagn í blóð þar sem það er of hátt.

Ein rannsókn hefur sýnt að zometa virkar eins vell og aredia. Hins vegar kann læknir þinn að hafa meiri reynslu af Aredia® þar sem Zometa® er nýrra lyf. 

Bæði þessi lyf eru talin tengjast sjaldgæfri aukaverkun sem kallast beindrep í kjálka  og getur það valdið vandamálum hjá fólki sem er í einhvers konar tannmeðferð. Þurfir þú að leita tannlæknis vegna einhverra vandamála þarftu að muna að láta tannlækninn vita að þú sért að fá þessi lyf. Tannlæknirinn þarf einnig að þekkja til þeirra atriða sem þarf að taka sérstakt tillit til í þínu tilfelli.

Með tímanum kunna aredia og/eða zometa að draga úr starfsemi nýrnanna, en þær breytingar ganga til baka. Sértu að fá þessi lyf mun læknir þinn láta fylgjast oft og reglulega með því hvernig nýrun starfa.

Nýtt lyf sem er tekið inn í pilluformi, Bonefos® (efnafræðiheiti: clodronate) hefur einnig reynst vel. Í einni rannsókn (á ensku) kom í ljós að með því að taka það lyf í tvö ár jókst beinþéttni í mjöðmum og hrygg.

Hjá sumum konum þróast dreifð fjarmeinvörp sem valda verkjum og svara ekki meðferð með krabbameinslyfjum. Ekki er auðvelt að meðhöndla slík meinvörp með venjulegum geislum vegna þess að þau eru dreifð um of stórt svæði. Unnt er að beita annars konar geislameðferð til að minnka svæðin sem valda verkjunum og eru á víð og dreif. Það er gert með því að sprauta geislavirku strontium-89 í æð í eitt skipti. Beinmyndandi fumur og krabbameinsfrumur í beininu taka upp geislunina sem þessi efni senda frá sér. Yfirleitt dregur þessi meðferð úr verkjum en eins og meðferð með krabbameinslyfjum getur hún haft í för með sér aukna sýkingarhættu, blóðleysi (skort á rauðum blóðkornum) og blæðingarkvilla.

Blóðkalsíumhækkun kallast það þegar of mikið af kalki finnst í blóðinu. Meinvörpin geta valdið þessu beint eða áhrif meinvarpa á beinið eru orsökin. Blóðkalsíumhækkun getur einnig verið aukaverkun meðferðar með krabbameinslyfjum. Of mikið kalk í blóði getur valdið alvarlegum heilsufarsvanda og þarf að meðhöndla tafarlaust með því að:

  • gefa vökva,

  • gefa önnur lyf, háð því hver orsökin er og hve mikið kalk mælist í blóðinu,

  • gefa Aredia® eða Zometa® sem koma í veg fyrir að kalk berist úr beinum í blóðrás.

Vökvasöfnun í brjósthimnu (umhverfis lungun) er ekki hið sama og vökvasöfnun í lungunum sjálfum sem verður við hjartveiki eða lungnabólgu. Vökvi í brjósthimnu getur komið í veg fyrir að lungun þenjist eðlilega út og gerir það erfitt að anda. Læknir getur fjarlægt vökva með því að stinga nál milli rifja og draga út vökva. Þessi aðgerð kallast "brjósholsástunga". Nálin fer ekki inn í lungun. Haldi vökvi áfram að safnast fyrir getur skurðlæknir komið fyrir leiðslu/legg inn í rýmið sem leiðir út vökva jafnharðan.

Til að koma í veg fyrir að vökvi safnist aftur fyrir á sama stað, kann læknir þinn að setja inn ertandi efni (dauðhreinsað talkúm eða sýkadrepandi) í brjóstholið. Það verður til þess að örvefur myndast og heldur lungunum föstum við bringuna þannig að ekkert rými er fyrir vökva. Þegar gripið er til aðgerðar sem þessarar (brjósthimnufestingar) er nauðsynlegt að dveljast á sjúkrahúsi í nokkra daga. Þetta getur verið þó nokkuð óþægilegt og stundum jafnvel sárt. Sterk verkjalyf geta hins vegar dregið mikið úr verkjum og gert það auðveldara að anda. Gakktu úr skugga um að læknir þinn hafi pantað verkjalyf þannig að þau séu tiltæk ef og þegar þú þarft á þeim að halda. Takist aðgerðin vel muntu eiga töluvert auðveldara með að anda og áhrifin vara lengi, þannig að líklega er það þess virði að finna tímabundið fyrir verkjunum.

Lifrarverkir stafa af æxli sem vex inni í lifrinni og nær til yfirborðs hennar. Verkinn er best að meðhöndla með krabbameinslyfjum og halda verkjum í skefjum með verkjalyfjum. Komi í ljós að krabbameinslyf eða verkjalyf hafi ekki tilætluð áhrif getur reynst gagnlegt að geisla lifrina til að draga úr verkjum.

ÞB