Verkjameðferð

Með margs kyns meðferðum má draga úr verkjum sem fylgja fjarmeinvörpum brjóstakrabbameins. Hver þeirra gæti reynst áhrifaríkust er að sumu leyti háð því hvert og hve mikið krabbameinið hefur dreift sér. Oftast er besta leiðin til að draga úr verkjum sú að minnka æxlið sem veldur þeim. Ýmsum meðferðum má beita í þessu skyni og þar á meðal eru:

 • Geislameðferð,

 • krabbameinslyfjameðferð

 • andhormónameðferð (and-östrogenmeðferð),

 • marksækinni meðferð (eins og t.d. með trastuzumab (Herceptin®).

Þar til þær taka að virka eða ekki reynist unnt að veita þær með tilætluðum árangri, eru til margs konar verkjastillandi lyf, þar á meðal:

 • aspirín,

 • paracetamol (tegundarheiti: paratabs og paratabs retard),

 • NSAID-lyf, steralaus, bólgueyðandi lyf, eins og ibuprofen (tegundarheiti: Ibúfen®) og

 • ópíumlyf (ópíóíð), sterkari tegundir verkjastillandi lyfja svo sem hydrocodone, oxycodone, morfín, hýdrómorfón og fentanýl. Læknir þinn kann einnig að gefa þér svokölluð stoðlyf sem styrkja áhrif bæði ópíumlyfja og sterafrírra bólgueyðandi lyfja.

Áður fyrr var yfirleitt ávísað á lyf í flokknum COX-2s (Celebrex® [efnafræðiheiti: celecoxib], Vioxx® [efnafræðiheiti: rofecoxib] og Bextra® [efnafræðiheiti: valdecoxib]) þegar aukaverkanir af því að taka inn sterafrí bólgueyðandi lyf urðu of óþægilegar. Lyf þessi valda ekki blóðþynningu og fara betur í maga. Hinsvegar sýndu nýlegar rannsóknir á  COX-2 lyfjunum að hætta á hjartabilun og heilablóðfalli jókst og lyfin Vioxx og Bextra voru tekin af markaði. Lyfið Celebrex® er enn á markaði og unnið er að frekari rannsóknum á nokkrum nýjum COX-2 lyfjum*. Telji læknir þinn að einhver áhætta geti falist í því að þú takir inn COX-2 lyf mun hann ekki ávísa þeim fyrir þig, jafnvel þótt þú biðjir um þau.

Margir hafa af áhyggjur af því að ánetjast verkjalyfjum. Aðrir hafa áhyggjur af því að taki þeir inn verkjalyf, hafi þeir ekkert að grípa til "þegar verkirnir verða verulega slæmir". Hvort tveggja getur komið í veg fyrir að fólk taki inn verkjalyf. Hættan á því að verða "fíkinn" í verkjalyf er afar lítil. Rétt er og unnt að skipta út verkjalyfjum ef verkir versna.  

Með því að hafa stjórn á verkjum verður auðveldara að ráða við krabbamein og meðferð við því, biða eftir læknum og niðurstöðum rannsókna og lifa með fjölskyldu og vinum.  

Mörg ópíumlyf hafa í för með sér aukaverkanir, þeirra á meðal:

Sumum verkjalyfjum getur einnig fylgt munnþurrkur, þvagteppa og hæg öndun. Þú átt ekki að þurfa að þjást af aukaverkunum þótt þú fáir verkjastillandi lyf. Hjá margs konar aukaverkunum er unnt að komast eða þær má lina með viðeigandi meðferð. Þar að auki kann líkaminn að aðlaga sig mörgum þessara aukaverkana með tímanum.

Með óhefðbundinna meðferða við verkjum má telja:

 • Nálastungur og punktanudd,

 • sjónsköpun,

 • hugleiðslu,

 • tónlist,

 • dáleiðslu,

 • lífssvörun (biofeedback),

 • nudd,

 • jóga, tai chi eða pilates og

 • andleg heilun (þar á meðal reiki—andleg heilun sem felst í að nota "lífsorku").

Til eru margar læknisfræðilegar lausnir á verkjum af völdum brjóstakrabbameins.  Takist lækni þínum ekki að ná fram viðunandi árangri með þeim aðferðum eða meðulum sem hann þekkir til, gætir þú beðið hann að vísa þér á sérfræðing í verkjameðferð.

Nokkrir staðir líkamans eru algengt "kjörlendi" fyrir verki af völdum fjarmeinvarpa brjóstakrabbameins. Hér á eftir er því lýst hvernig takast má á við þá.

Beinverkir

Hafir þú umtalsverða beinverki á einum eða tveimur tilteknum stöðum er besta meðferðin oft sú að fara í geislameðferð   Með geislameðferð má fá töluvert mikla eða algjöra lausn frá verkjum hjá 85% fólks. Yfirleitt enidst árangurinn lengi.

Komi verkur fram víðsvegar í beinum er best að meðhöndla hann með ópíumlyfjum eða bólgueyðandi verkjalyfjum. Krabbameinslyfjameðferð, móthormónameðfer og marksækin meðferð ("targeted therapy") geta skilað mjög góðum árangri í að eyða krabbameinsfrumum víðvegar um beinin. Geislameferð má beita á eitt eða örfáa staði sem valda mestu verkjunum. Einnig má beita innri geislun með strontium-89 ef fjarmeinvörp eru víða og valda verkjum. Beinverki má einnig lina með beinstyrkjandi lyfinu  Zometa® (efnafræðiheit: zoledronic acid) eða Aredia® (efnafræðiheiti: pamidronate disodium).

Stundum getur það hjálpað að koma í veg fyrir að verkjasvæðið geti hreyfst. Til dæmis má hafa hönd í fatla þar til lokið er geislameðferð á öxl þar sem meinfjarvörp hafa fundist. Sumir þurfa að fara í  bæklunaraðgerð til að koma í veg fyrir eða lagfæra sársaukafull beinbrot af völdum krabbameinsins.

Taugaverkir og höfuðverkur

Brjóstakrabbamein getur valdið taugaverkjum með því að vaxa umhverfis, meðfram eða inn í taugar. Það getur einnig vaxið inn í eða þrýst á heila eða mænu. Krabbamein sem hefur dreift sér í eitla umhverfis taugar getur einnig valdið verkjum í hand- og fótleggjum. 

Taugaverkur getur einnig stafað af krabbameinslyfjum. Krabbameinslyfjameðferð með taxane-lyfjum  getur valdið töluverðum verkjum í höndum og fótum. Krabbameinslyfjameðferð með Xeloda® (efnafræðiheiti: capecitabine) veldur roða, bólgum, breytingu á nöglum og óþægindum í höndum og fótum. 

Taugaverk af völdum krabbameinsvaxtar er hugsanlega best að meðhöndla með fleiri en einni meðferð. Þá má byrja á því að gefa stera til að draga eitthvað úr bólgum og þrýstingi á taugavef. Síðan yrði geislameðferð beitt til að minnka eða fjarlægja krabbameinið sem þrýstir á taugarnar.

Sértu með verk á einum ákveðnum stað sem er vægur en þrálátur, kann læknir þinn að mæla með að þú gangir með lítið tæki sem örvar taugar með rafboðum. tækið gefur frá sér titring á lágum straumi. Titringurinn getur truflað eða komið í veg fyrir að taugaboð berist frá verkjasvæðinu til heilans.  

Með ýmsum aðgerðum sem framkvæmdar eru af sérfræðingum í verkjameðferð má loka á eða deyfa sársaukafull taugaboð. Morfíngjöf með sprautu í mænu ásamt bupivicaine og/eða clonidine er einkar áhrifarík. Einnig kann sjúkraþjálfun með þar til gerðum æfinum að draga úr taugaverkjum.

Vöðvaverkir

Þeir sem þjást af verkjum frá fjarmeinvörpum í beinum eða taugaverkjum eiga á hættu að ofreyna aðra vöðva til að "komast framhjá" verkjunum. Ofreynir þú bakvöðva, reyndu þá að fá algjöra hvíld með því að vera rúmliggjandi í nokkra daga og taka inn sterafrí bólgueyðandi lyfi undir eftirliti læknis. Þú getur einnig reynt:

 • Vöðvaslakandi lyf,

 • nudd,

 • hita- eða kuldabakstra á hörundið (eftir því hvert vandamálið er og ástandi blóðrásar),

 • að styrkja vöðvana með æfingum og undir eftirliti,

 • léttar jógaæfingar þar sem púðar eru notaðir til að styðjast við,

 • nálastungur.

Þú kannt að vera með vöðvaverki um allan líkamans sem framkalla aðra verki og þreytu. Meðferð felst þá í að gefa þríhringlaga þunglyndislyf (TCA=Tricyclic Antidepressants), vöðvaslakandi lyf og nudd. Nálastungur kunna einnig að hjálpa. 

Vöðvinn sem tengir öxl við bringu getur orðið stífur eftir geislameðferð. Regluleg sjúkraþjálfun og æfingar fyrir þetta svæði geta styrkt og teygt á vöðvanum og hið sama á við um jóga. 

Kviðverkir

Verkir og þemba í kviðnum (maganum) geta stafað frá hægðatregðu. Verkurinn, hreyfingarleysið sem fylgir honum og lyf til að lina verkina getur allt stuðlað að hægðatregðu. Verkur í miðjum maganum getur stafað af bólgnum eitlum sem vaxa inn í eða þrýsta á líffæri og taugar. Verkur hægra megin í kviðnum ofanverðum getur verið afleiðing krabbameins í lifrinni sem teygir á henni.

Geislameðferð getur lagað verk á einum eða tveimur stöðum ef fjarmeinvörp er ekki að finna annars staðar. Sé svæðið of stórt er geislameðferð yfirleitt ekki gefin þar sem aukaverkanir kunna að verða of miklar.

Þú kannt að vera með mörg æxli víðs vegar um líkamann sem framkalla verki. Til að lina verkina eða losa þig við þá kann læknir þinn að mæla með að þú fáir ópíumlyf (ópíóíða) sem unnt er að gefa ýmist með því að láta dropa í æð, með því að koma fyrir lyfjadælu undir húð eða með forðaplástri á húðina.   

*Þetta eru svokallaðar 3ja stigs rannsóknir þar sem borinn er saman árangur hjá fólki sem fær nýja lyfið við árangur af viðteknum lyfjum. Þá er t.d. athugað í hvorum hópnum — tilraunhópnum eða samanburðarhópnum — fólk lifir lengur með færri aukaverkunum. Yfirleitt komast rannsóknir ekki á 3ja stig fyrr en meðferð virðist virka á stigum 1 og 2. Þriðja stigs rannsóknir geta náð til mörg hundruð einstaklinga.

 

*Málsgreinar merktar stjörnu eru innskot þýðanda.

ÞB