Óhefðbundnar og heildrænar meðferðir

Mörgum konum og ástvinum þeirra finnst óhefðbundnar meðferðir einkar aðlaðandi. Þannig meðferðir virðast náttúrlegri, vægari, meira styrkjandi og með færri aukaverkunum en flestar hefðbundnar læknismeðferðir. Auk þess hafa margir orðið fyrir sárum vonbrigðum með þær hefðbundnu læknismeðferðir sem reyndar voru vegna þess að þær dugðu ekki til að koma í veg fyrir að krabbameinið tæki sig upp.               

Þegar þú leitar nýrra meðferða leitarðu hugsanlega einhvers sem hefur það að markmiði að heila alla manneskjuna fremur en að lækna krabbameinið eitt og sér. Mörgum konum sem hafa farið í gegnum margvíslegar rannsóknir og meðferðir við krabbameini finnst að læknar, þótt góðir séu og standi sig vel í hefðbundnum krabbameinslækningum, hafi  hvorki tíma né færni til að mæta andlegum og tilfinningalegum þörfum þeirra. 

Heildræn eða óhefðbundin meðferð  kann að breyta miklu í sambandi við meðferð og tilfinningar þínar fyrir vellíðan og veikindum. Með þessum meðferðum er litið á huga, anda og líkama sem óaðskiljanlega þætti í lækningu og góðri líðan. Þegar hugur, andi og líkami starfa ekki í takt getur það einnig átt sinn þátt í sjúkdómum.

Með óhefðbundnum meðferðum er reynt að stuðla að heilsu og vellíðan með ýmsum meðulum. Þar á meðal eru:

  • Jurtir,

  • nálastungur,

  • nudd,

  • sjónsköpun,

  • dáleiðsla,

  • hugleiðsla/slökun,

  • jóga,

  • vítamín og

  • smáskammtalækningar.

Engar vísindalegar sannanir liggja fyrir því að einhver þessara óhefðbundnu meðferða ráði bug á brjóstakrabbameini. Hins vegar eru vísindamenn nú að rannsaka sumar þeirra til að kanna hvort þær stuðli að bata af krabbameini og afturbata af afleiðingum hefðbundinna læknismeðferða við krabbameini. Rannsóknir hafa sýnt að með slökun og nálastungum má lina verki. Og þótt hefðbundnar meðferðir auki ef til vill ekki við ævilengdina, geta þær aukið LÍFSGÆÐIN, hafi brjóstakrabbamein tekið sig upp eða dreift sér.

Til eru þeir læknar hallast að því að tengja saman óhefðbundna og hefðbundna meðferð og styrkja þannig árangur hvorrar um sig. Orðið "samþætt meðferð" má nota um slíka nálgun.

Stundum er talað um alternatíva meðferð. Það þýðir ekki að slík meðferð eigi að koma "í staðinn fyrir" krabbameinsmeðferðina sem þú ert í.  

Nokkur mikilvæg atriði sem rétt er að hafa í huga áður en þú prófar óhefðbundið lyf

Þú skalt láta lækninn þinn vita um öll óhefðbundin lyf sem þú tekur inn eða hyggst taka inn. Læknirinn þarf að vera vakandi fyrir samspili lyfjanna sem þú færð í tengslum við krabbameinsmeðferðina og óhefðbundnu lyfjanna. Sum óhefðbundin lyf geta reynst óæskilega eða skaðleg þegar þau eru tekin inn á sama tíma og viðtekin lyf til meðferðar við brjóstakrabbameini. Sem dæmi má nefna:

  • Sértu með krabbamein í beinum, geta kalktöflur hækkað kalkmagn í blóði um of.

  • C-vítamín töflur geta gert aukaverkanir af krabbameinslyfinu methotrexate verri en ella. 

  • Séu teknar inn járntöflur kann það að gera að verkum að of mikið járn finnst í líkamanum. Það er óráðlegt fyrir fólk sem fær gefið blóð.

Margir læknar sem menntast hafa í bandarískum læknaskólum þekkja ekki  þau óhefðbundnu lyf sem þú tekur eða hefur hug á að taka. Það þýðir ekki endilega að læknir þinn sé "ósáttur" við áhuga þinn á óhefðbundnum lyfjum eða sé þeim mótfallinn. Það getur þú aðeins vitað með því að ræða við hann.

 ÞB