Meðferð við endurmeini á sama stað eða sama svæði

Margar áhrifaríkar meðferðir eru til við brjóstakrabbameini sem tekur sig upp á sama stað eða á sama svæði.

Staðbundin meðferð felst í skurðaðgerð og geislameðferð. Meðferð sem hefur áhrif á allan líkamann felst í meðferð með krabbameinslyfjum, móthormónalyfjum og marksæknum lyfjum eins og Herceptin® (trastuzumab). Lestu (á ensku) um próf sem getur hjálpað þér að sjá hvaða meðferðir eru taldar þær réttu fyrir þig.

Hvaða meðferð þú ferð í ræðst af mörgum sömu þáttunum og skiptu sköpum þegar þú greindist í fyrsta sinn. Hvaða meðferðir reynast áhrifaríkastar má segja að ráðist, að hluta, af því hvar krabbameinið tók sig upp og af einkennum þess.

Krabbameinið tekur sig upp í brjóstinu

Nákvæm myndgreining er grundvallaratriði til að unnt sé að átta sig á hvaða meðferðarleiðir eru færar. Þótt þú hafir þegar farið í margvíslegar myndatökur í því skyni að fá krabbameinsgreininguna staðfesta, gætir þú þurft að fara í frekari brjóstamyndatöku, segulómskoðun, tölvusneiðmyndir, ómskoðun o.s.frv. og gerist þess þörf, fá röntgenmynd af lungum.

Hafi krabbameinið tekið sig upp nærri staðnum þar sem fleygskurðurinn var gerður á sínum tíma og engin merki um sjúkdóminn annars staðar, má búast við að líkur þínar séu harla góðar.

Hafi krabbameinið tekið sig upp sem lítill hnútur í brjóstinu þarftu hugsanlega aðeins á staðbundinni meðferð að halda. Þess háttar meðferð skilar góðum árangri hjá 8 af hverjum 10 konum með brjóstakrabbamein sem aðeins hefur tekið sig upp í brjóstinu.

Hafi upprunaleg meðferð falist í fleygskurði og geislameðferð, felst viðtekin meðferð við krabbameini sem tekur sig upp, í því að fjarlægja allt brjóstið (brjóstnámi).  Annar fleygskurður með eftirfarandi geislameðferð er því aðeins möguleiki að þú hafir ekki farið í geislameðferð áður og líkur á að krabbameinið dreifi sér séu mjög litlar. Hér eru fáein dæmi sem gætu hvert og eitt talist uppörvandi:

 • Brjóstakrabbameinið hefur aðeins tekið sig upp á þeim stað þar sem það birtist fyrst.

 • Krabbameinsæxlið er í mesta lagi fjórir sentímetrar að þvermáli og unnt að fjarlægja það með hreinum skurðbrúnum.

 • Krabbameinið sem hefur tekið sig upp er staðbundið - ekki ífarandi (DCIS [ductal carcinoma in situ]).

 • Langur tími er liðinn frá því þú fórst síðast í meðferð þar til nú er krabbameinið hefur tekið sig upp.

 • Krabbameinið virðist ekki vera mjög ágengt og hefur ekki sáð sér í aðlæga eitla. 

Hafir þú þegar farið í fleygskurð og geislameðferð á eftir, gætir þú tekið þátt í klínískri rannsókn (á ensku) sem felst í að geisla hluta brjóstsins í stað þess að taka það allt (brjóstnáms). *Þetta á að sjálfsögðu aðeins við um bandarískar konur.

Séu önnur einkenni krabbameinsins ekki jafn uppörvandi, kann læknir þinn að mæla með einhvers konar meðferð sem hefur áhrif á allan líkamann. Tilgangur slíkrar meðferðar er að losna við allar krabbameinsfrumur sem kunna að leynast annars staðar en í brjóstinu. Kynntu þér hvaða meðferðir eru um að ræða sem hafa áhrif á allan líkamann.

Krabbamein tekur sig upp í brjóstvegg

Krabbamein kann að taka sig upp á þeim stað þar sem brjóstið var áður. Hugsanlega byrjarðu á að fara í skurðaðgerð til að láta fjarlægja æxlið. Hins vegar er sjaldan mælt með skurðaðgerð ef þú ert með:

 • Mörg æxli  á víð og dreif,

 • rauð útbrot sem benda til að krabbameinið dreifi sér um hörundið (bólgukrabbamein í brjósti).

Komi krabbamein upp aftur í brjósti sem hefur verið endurgert, kann læknir þinn að mæla með að flipinn eða brjóstapúðinn verði fjarlægður.  

Þegar þú hefur náð þér eftir skurðaðgerðina er geislameðferð  yfirleitt næsta meðferð hafir þú ekki áður farið í hana. Hafir þú einhvern tíma farið í geislameðferð áður, er engu að síður hugsanlegt að gefa viðbótargeisla í litlum mæli. Sé það gert aukast líkur á að með viðbótargeislun finnir þú fyrir töluvert meiri aukaverkunum en áður, þar á meðal:  

 • útbrot sem ekki hverfa,

 •  aukin hætta á rifbeinsbroti,

 • örmyndun og stirðleiki í vöðvum.

Til að draga úr aukaverkunum sem geta orðið þegar geislun er endurtekin, kann læknir þinn að gera breytingar á meðferðinni. Hann gæti meðal annars breytt: 

 • geislamagni í hverjum skammti,

 • hve oft geislarnir eru gefnir,

 • stærð þess svæðis sem er geislað. 

Hafir þú ekki farið í geislameðferð áður verða aukaverkanirnar ekki eins miklar. Líklegt er að húðin roðni eins og við sólbruna, verði sár, herpist eða klæi í hana, flagni síðan jafnvel eða vessi úr henni. Læknir þinn kann að mæla með að þú berir á húðina krem sem gæti forðað þér frá, dregið úr eða slegið á  húðvandamálin. Þar á meðal eru:  

 • aloe vera,

 • A & D áburður,

 • 1% hydrocortisone,

 • sterakrem gegn lyfseðli eins og t.d. betamethasone.

Ef aukaverkanir á húð og mjúka vefi versna eftir því sem líður á meðferðina gæti læknir þinn eða hjúkrunarfræðingur mælt með einhverju ennþá sterkara fyrir þig. 

Þú finnur ef til vill einnig fyrir verkjastingjum í bringunni eða stirðleika sem hægt er að laga með paracetamol eða bólgueyðandi lyfjum. Hjá konum með ígrædda brjóstapúða getur geislameðferð valdið því að hörð skel úr örvef myndast umhverfis brjóstapúðann. Þannig skel getur valdið verkjum og afmyndað brjóstið.

Þegar krabbamein tekur sig upp í brjóstkassa er hugsanlegt að mælt verði með meðferðum sem hafa áhrif á allan líkamann  svo sem krabbameinslyfjum, móthormónalyfjum eða marksæknum lyfjum . Hjá um það bil helmingi kvenna sem fá endurmein í brjóstkassa dreifa krabbameinsfrumurnar sér út fyrir bringusvæðið fyrr eða síðar. Lyf sem hafa áhrif á allan líkamann geta stuðlað að því að losna við þær frumur. 

Hins vegar þarftu kannski ekki á krabbameinslyfjameðferð að halda ef ALLT á við þig sem hér er talið upp:

 • Þú ert komin úr barneign.

 • Þú ert aðeins með eitt lítið æxli í bringunni sem unnt er að fjarlægja.

 • Krabbameinið hefur tekið sig upp áratug eða meira eftir að þú fórst í meðferð við brjóstakrabbameini.

Hvaða meðferði verður mælt með ræðst af þeim meðferðum sem þú hefur áður farið í. Stundum tekur krabbamein sig upp á meðan tekin eru móthormónalyf. Við þær aðstæður mælir læknirinn að líkindum með að skipt verði um tegund móthormónalyfs. Móthormónameðferðin varð þess ekki valdandi að krabbameinið tók sig upp, heldur hefur lyfið verið tekið svo lengi að það er hætt að hafa tilætluð áhrif á krabbameinsfrumur. Hins vegar gæti annað móthormónalyf gert sitt gagn.

Endurmein á sama svæði

Taki brjóstakrabbamein sig upp í eitlum nálægt brjóstinu er viðbúið að þú þurfir bæði á staðbundinni meðferð að halda og meðferð sem hefur áhrif á allan líkamann.

Í staðbundinni meðferð getur falist skurðaðgerð í því skyni að nema brott eitla sem krabbamein er í og oft einnig geislameðferð. Meðferð sem hefur áhrif á allan líkamann gæti falist í krabbameinslyfjameðferð, marksækinni meðferð með trastuzumab (Herceptin®), móthormónalyfjum (and-estrogeni) og marksæknum lyfjum.

ÞB