Þegar brjóstakrabbamein tekur sig upp
Ef einkenni þín eða niðurstöður rannsókna benda til að krabbameinið hafi tekið sig upp er líklegt að þú óttist framtíðina. Það er mikilvægt að fá hjálp við að takast á við óttann við að krabbameinið taki sig upp og reyna ekki að bíta á jaxlinn og berjast áfram einn. Einnig er við því að búast að á þér brenni margar erfiðar spurningar: „Hvernig gat þetta gerst þegar ég hef lagt svo hart að mér til að gera allt rétt? Ég fór að öllum fyrirmælum læknanna. Ég borðaði rétt og hreyfði mig reglulega, jafnvel þegar mig langaði mest til að sleppa því."
Það er vissulega erfitt að skilja þetta. Það á ekki síst við ef upprunalega krabbameinið var bara í brjóstinu, röntgenmyndir af lungum, blóðsýni og beinaskann sýndi að allt væri eðlilegt og skurðlæknirinn fullyrti við þig að hann hefði „náð öllu".
Það er við þessar aðstæður sem takmarkanir krabbameinsleitar koma best í ljós. Með leit er hægt að greina krabbameinsæxli sem eru hálfur til einn sentímetri og þar yfir. En það er ekki unnt að greina nokkrar stakar krabbameinsfrumur sem hafa hópað sig saman. Krabbameinsfrumur sem tókst að lifa af fyrstu meðferðina geta vaxið og dreift sér. Að lokum verður krabbameinsæxlið nógu stórt til að koma fram á á röntgenmynd, þreyfast eða valda einkennum.
Um tuttugu prósent allra kvenna sem greinast með krabbamein í brjóstinu eingöngu, fá það síðar annars staðar. Hættan á að krabbamein dreifi sér er að mestu háð því hversu stórt æxlið var og fjölda eitla sem það hafði borist í.
Þessari kreppu fylgir oft reiði: reiði yfir meðferðunum sem þú fórst í og reiði út í læknanna sem tókst ekki að lækna þig, reiði við sjálfa þig fyrir að sigrast ekki á sjúkdómnum og reiði við líkama þinn fyrir að bregðast þér enn á ný.
„Kannski hefði ég átt að láta taka af mér brjóstið." „Af hverju hætti ég að taka inn tamoxifen?" „Hvers vegna beið ég svona lengi eftir að ég fann fyrir þessum hnút?" Svona spurningar hjálpa þér ekkert. En það er heldur ekki auðvelt að láta ógert að spyrja þeirra. Þú ert að reyna að fá botn í eitthvað sem enginn botn er í, varpa sökinni á eitthvað eða einhvern þar sem enga sök er að finna.
Það besta sem þú getur gert er að minna sjálfa þig á að endurkoma krabbameins er ekki dauðadómur. Hverjar sem aðstæður þínar eru, er alltaf hægt að gera mikið til að hjálpa þér. Brjóstakrabbamein sem tekur sig upp í brjósti eða aðliggjandi eitlum má meðhöndla með ljómandi árangri. Sjúkdóm sem hefur dreift sér í aðra líkamshluta er hægt að meðhöndla þannig að honum sé haldið niðri um langan tíma, oft í mörg ár.
Hafðu líka hugfast að reynsla þín af brjóstakrabbameini sem tekur sig upp eða dreifðu krabbameini verður ekki sú sama og kvenna sem voru í þeim sporum fyrir einhverjum árum. Árangur meðferðar er sífellt að aukast. Ný lyf við krabbameini sem hefur tekið sig upp hafa aukið lífslíkurnar. Og nýju lyfin eiga eftir að auka lífslíkur og lengja ævina á komandi árum.
Hvernig sjúkdómurinn mun að líkindum þróast er háð því:
-
Hvar brjóstakrabbameinið tók sig upp og hve útbreitt það er,
-
"einkennum" brjóstakrabbameinsins sem hefur tekið sig upp,
-
hve langt er síðan þú varst síðast í meðferð við brjóstakrabbameini,
-
í hvaða krabbameinsmeðferðir þú hefur þegar farið,
-
aðrir sjúkdómar og heilsufar þitt almennt.
Öll þessi atriði þarf að skoða vandlega og yfirvega. Að því loknu getið þið læknir þinn ávkeðið til hvaða ráða verður gripið í þetta sinn.
ÞB