Leit að brjóstakrabbameini


Til að fylgjast vel með brjóstum og ástandi þeirra eru til margs konar rannsóknaraðferðir og mismunandi tæki. Ekki virðist skipta máli hvort brjóst eru heilbrigð eða með krabbamein, rannsóknir á brjóstum reyna oftast svolítið á taugarnar. Þær eru hins vegar ómissandi liður í að:

  • Finna brjóstakrabbamein á byrjunarstigi þegar auðveldast er að lækna það.

  • Gera læknum þínum kleift að velja þá meðferð sem best er í þínu tilfelli.

  • Fylgjast með því hvort meðferð ber tilætlaðan árangur og heilsu þinni að meðferð lokinni.

Segja má að rannsóknir skiptist í tvennt. Annars vegar er hópleit  ( til dæmis brjóstamyndataka á tveggja ára fresti) þar sem leitað er að merkjum um sjúkdóminn hjá einkennalausum konum; þess konar krabbameinsleit ætti að vera sjálfsagður þáttur í heilsugæslu hverrar heilbrigðrar konu. Hins vegar eru rannsóknir sem miða að því að fá nákvæma greiningu (eins og segulómun, blóðsýni, beinaskann) þegar grunur leikur á að brjóstakrabbamein sé fyrir hendi eða það hefur fundist. Þetta er einnig nefnt sérskoðun.

Í þessum hluta er fræðsla um allar þessar rannsóknir. Hægt er skoða myndir sem teknar eru með mismunandi tækni: brjóstamyndatöku, ómskoðun, segulómun og sneiðmyndatöku.

*Ýmsu er öðruvísi háttað hér á landi en í Bandaríkjunum og hefur þurft að staðfæra ýmislegt í þessum hluta. Baldur F. Sigfússon, fyrrverandi yfirlæknir röntgendeildar Krabbameinsfélags Íslands, las góðfúslega efnið yfir og kom með ábendingar þannig að upplýsingarnar væru í sem mestu samræmi við það sem tíðkast hérlendis.

*Málsgreinar merktar stjörnu er innskot þýðanda.

  ÞB