Aðgangur að niðurstöðum rannsókna

Sértu eitthvað lík öðrum, viltu helst fá niðurstöðurnar strax. Þegar um bráðatilfelli er að ræða eða sjúklingur er á leið í lyfjameðferð fást niðurstöður yfirleitt fljótt. Þegar hins vegar læknir biður um rannsókn sem ekki hefur bráðaforgang er það starfsfólk á rannsóknarstofu eða röntgendeild (myndgreiningadeild)sem ákveður í hvaða röð rannsóknir eru gerðar. Ólíklegt er að læknir þinn viti hvenær þær verða gerðar eða hvenær niðurstaðna er að vænta fyrr en hann hefur þær á borðinu hjá sér (eða í tölvunni) einhverjum dögum síðar. Á sama tíma gætir þú haldið að læknirinn sé kominn með niðurstöðurnar í hendur án þess að hafa samband við þig.

Að fá niðurstöður tafarlaust

Í Bandaríkjunum hafa leitarstöðvar þar sem teknar eru brjóstamyndir sínar eigin reglur um hvernig skuli láta vita af niðurstöðum, hvort sem þær eru góðar eða slæmar. Sums staðar er fólki sagt frá niðurstöðunum strax og ekkert dregið undan, annars staðar fær fólk ekkert að vita hversu fast sem það sækir það. Oft er hægt að fá niðurstöður af brjóstamyndatöku samstundis sé röntgenlæknir á staðnum. 

 • Hér á landi er ekki um neitt að velja. Hins vegar er óhætt að fullyrða að Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands, þangað sem konur eru sendar í brjóstamyndatöku – eða fara að eigin frumkvæði í hópleit – er afar góð stöð með færu starfsfólki, enda er þar leitað að krabbameini, góðkynja æxlum og öðrum breytingum alla daga. Því má gera ráð fyrir að sækir þú það fast að fá að vita um niðurstöðurnar áður en þú gengur út af stöðinni, verði komið til móts við þig svo framarlega sem röntgenlæknir er við.

 • Spyrðu spurninga.
  Þegar um klíníska myndatöku er að ræða - þ.e. vegna einkenna - áttu skilyrðislaust að fá tafarlausar niðurstöðu, óháð því hver bað um brjóstamyndatökuna, hver framkvæmir hana eða les úr henni. Hið sama á við sértu kölluð inn til frekari myndatöku eða rannsóknar. Biddu um að fá að tala við röntgenlækninn sem les úr myndunum. Þú átt ekki að þurfa að fara heim ringluð og áhyggjufull. Hvaða rannsóknir sem þú ferð í, skaltu vera viss um að læknar þínir og heilsugæslufólk fái sent afrit af röntgenskýrslunni. Þegar þú bókar þig í myndatökuna, skrifaðu þá nafn þeirra efst á blaðið sem þú færð til að fylla út og skilaboð þess efnis að hverjum og einum sé sent eintak af skýrslunni sem gerð verður að rannsókn lokinni.

Á meðan beðið er eftir niðurstöðum

 • Gerðu ráð fyrir að þetta taki sinn tíma.
  Ekki er hægt að fá fram eða tilkynna um allar niðurstöður tafarlaust. Oft eru upplýsingarnar sem fást takmarkaðar og gefa ekki skýra mynd án þess að fyrir liggi þekking á sjúkrasögu þinni og niðurstöðum læknisskoðunar. Tveir læknar hið minnsta þurfa að ræða þær upplýsingar með hliðsjón af niðurstöðum rannsókna til að geta túlkað þær af nákvæmni. Það tekur sinn tíma. Venjulega er ekki hægt að hlífa neinum við þeirri bið, hversu erfið sem hún kann að reynast. Reiknaðu með að úr flestum rannsóknum taki um tvo til þrjá daga eða lengur að fá niðurstöður. 
  Sumir læknar hafa það fyrir reglu að kalla sjúklinga til sín á stofu til að fá niðurstöður, hvort sem þær eru góðar eða slæmar. Þá þýða boð um að koma við á stofunni ekki endilega einhvern örlagadóm. 

 • Láttu lækni þinn vita hver, hvað, hvenær, hvar og hvernig.
  Til að hraða ferlinu skaltu hringja í lækni þinn þegar þú ert búin að fara í rannsókn. Skildu eftir nákvæm skilaboð sem tilgreina hvers vegna þú hringir. Láttu fylgja með hvaða rannsókn var gerð, hvar hún var gerð og hvar hægt er að ná í þig. Skildu eftir öll hugsanleg símanúmer og láttu vita hvenær er best að ná í þig og hversu seint að kvöldi er óhætt að hringja til þín. Þá getur læknirinn haft samband við þig og látið þér í té upplýsingarnar sem þú bíður eftir um leið og þær berast honum. Þú gætir líka viljað tilgreina nákvæmlega hvaða upplýsingum má koma til þín í gegnum þriðja aðila, sértu ekki viðlátin og einhver annar svarar. Eða, ef enginn er til að svara í síma, gera það ljóst hvaða upplýsingar er óhætt að lesa inn á símsvara.

 • Ákveddu tímann.
  Hlífðu sjálfri þér við streitu og taugatrekkjandi bið eftir símtali. Ákveddu tíma fyrir símtalið. Þú getur til dæmis sagt að í lagi sé að hringja á milli klukkan eitt og þrjú. Vertu einnig búin að ganga frá því að þú munir hringja aftur hafir þú ekki heyrt í lækninum þegar klukkan er orðin þrjú. Þú vilt ekki þurfa að sitja og bíða endalaust, auk þess sem þú gætir viljað hafa einhvern hjá þér þegar símtalið berst – til vonar og vara. Venjulega er lítið mál að taka við niðurstöðum og auðvelt að ræða þær í síma. Fyrir getur þó komið að þær séu flóknar og stundum óhagstæðar.

 • Taktu það fram að þú viljir fá að vita um niðurstöðurnar – líka þegar allt er í lagi
  Hugsanlega getur læknir þinn ekki haft samband við þig strax. Hún eða hann nær kannski ekki sambandi við röntgenlækninn sem les úr myndunum eða við rannsóknarstofuna þar sem meinagreiningin fer fram. Víða er þess krafist að sami röntgenlæknir og sá sem staðfesti niðurstöðu leitarinnar komi niðurstöðum milliliðalaust til læknisins sem vísaði sjúklingi í brjóstamyndatöku til að koma í veg fyrir að upplýsingar misfarist. Það getur reynst þrautin þyngri að koma því sambandi á. Læknar eru afar uppteknir og oft ekki viðlátnir á þeirri stundu sem hringt er þannig að upplýsingar geta legið fyrir óafgreiddar.
  Sýni brjóstamyndin þín ekkert grunsamlegt, kann læknir þinn hugsanlega að setja skýrsluna í sjúkraskrána þína án þess að hafa samband við þig. Hann gerir einfaldlega ráð fyrir að þú eigir ekki von á símtali nema eitthvað sé að. “Ekki ganga út frá því að engar fréttir séu góðar fréttir,” segir sérfræðingurinn Marie Savard, “engar fréttir eru einfaldlega engar fréttir.” Gerðu lækni þínum ljóst að þú viljir fá að heyra allar niðurstöður úr öllum rannsóknum. 

 Fylgstu með

Gakktu úr skugga um að sá af læknum þínum sem mun taka á málinu fái niðurstöður úr öllum rannsóknum sem þú ferð í (hvort sem niðurstöðurnar eru jákvæðar eða neikvæðar). Einstaka sinnum kemur fyrir að niðurstöður glatast og enginn gerir sér grein fyrir því. Því er það góð regla að fylgjast sjálf með að allt komist til skila.

 ÞB