Aðgangur að sjúkraskrám
Að fylgjast með því hvar sjúkraskrár eru niður komnar er mikilvægur liður í því að fást við alvarlegan sjúkdóm. Þegar um er að ræða sjúkdóm eins og brjóstakrabbamein getur það skipt sköpum að öll gögn liggi fyrir. Allir sem hafa skoðað þig eða meðhöndlað eiga að fá niðurstöður úr öllum rannsóknum eða aðgerðum sem þú hefur farið og skrá í þína sjúkraskrá. Það er mikilvægt er að geta borið saman gamlar og nýjar niðurstöður til að setja saman árangursríka meðferðaráætlun. Hér á eftir fara nokkur mikilvæg atriði sem gott er að hafa í huga:
-
Samkvæmt íslenskum lögum átt þú rétt á að fá að sjá allar sjúkraskrár þínar, hvort heldur er í heild eða að hluta. Á vef Landlæknis getur þú aflað þér frekari upplýsinga um sjúkraskrár, hvar þær eru geymdar og hverjir hafa aðgang að þeim. Enginn annar en þú getur heimilað að sjúkrarskrár séu afhentar öðrum, hvort sem einstaklingar eða opinberir aðilar eiga í hlut.
-
Allar nýjar myndir skyldi bera saman við eldri myndir. Bæði nýjar og gamlar myndir ber að varðveita á sama stað. Flytjir þú þig frá einni stöð eða sjúkrahúsi til annars, þarftu að ganga úr skugga um að myndirnar fylgi þér. Í Bandaríkjunum varðveita sjúklingar stundum sjálfir sínar eigin brjóstamyndir heima (þ.e.a.s. afrit af þeim – því frummyndirnar eru varðveitt á spítalanum eða í leitarstöð), en það tíðkast ekki hérlendis.
-
Viljir þú fá álit annars læknis (eða þess þriðja) á fyrirhugaðri meðferð, brjóstamyndum eða öðrum rannsóknum, þarf læknirinn sem þú leitar til að fara yfir sjúkrasögu þína, skýrslur og sjúkraskrár. Þú getur einnig heimilað að gögn séu send á milli heilbrigðisstofnana.
-
Enginn er betur til þess fallinn en þú að fylgja málinu eftir. Fáðu að vita hvernig og hvenær sjúkragögn um þig fara á milli heilbrigðisstofnana. Gakktu úr skugga um að ekkert vanti. Þú gætir þurft að sýna ákveðni og gefa ekkert eftir, jafnvel þótt það sé ekki vani þinn. Gerðu það sem gera þarf. Ekki hafa áhyggjur af því hvað einhverjum kann að finnast um þig.
-
Engum er jafn annt um velferð þína og þér. Þeir tímar eru liðnir þegar fólki var sagt hvað það ætti að gera og hvað því væri fyrir bestu og það hlýddi þegjandi og hljóðalaust.