Blóðsýni
Margvíslegar rannsóknir á blóðsýni geta gefið vísbendingar um heilsufar mismunandi líffæra og kerfa í líkamanum. Sumir læknar biðja um athugun á æxlisvísum til að fylgjast með hugsanlegri krabbameinsmyndun í líkamanum. Sé krabbamein fyrir hendi, framleiða krabbameinsfrumur yfirleitt sérstakt prótín sem greinist í blóði og hægt er að líta á sem vísbendingu um sjúkdóminn.
Blóðmælingar
Fyrir og meðan á meðferð við brjóstakrabbameini stendur er fylgst með blóðhagnum með því að taka blóðsýni. Sýni eru rannsökuð til að athuga hvort í blóðinu sé eðlilegt magn mismunandi blóðfrumna. Bæði krabbameinið sjálft og meðferðir við því, svo sem með krabbameinslyfjum eða geislum, kunna að draga úr magni mikilvægra blóðfrumna sem líkaminn þarfnast til að starfa eðlilega.
Venjulega er eftirfarandi rannsakað:
-
Hvítu blóðkornin, en hlutverk þeirra er að verja líkamann gegn utanaðkomandi „innrás" og sem slík hluti af ónæmiskerfinu. Sértu lág í hvítum blóðkornum, er meiri hætta á sýkingum en ella.
-
Rauðu blóðkornin sem flytja súrefni um líkamann. Auk þess að telja rauð blóðkorn er jafnfram kannað hve mikið er af blóðrauða, sem er járnríkt prótín í rauðum blóðkornum sem flytur súrefni frá lungum um líkamann. (Mælist blóðrauðinn lágur, getur það haft í för með sér það sem venjulega kallast blóðleysi.) Með annarri rannsókn eru athuguð svokölluð blóðkornaskil sem er mæling á hlutföllum rauðra blóðkorna í heildarblóðmagni.
-
Blóðflögur sem eru frumur sem hjálpa blóðinu að storkna og koma í veg fyrir blæðingu.
Áður en meðferð hefst eru blóðkornamælingar notaðar til að ákveða hvort um einhver önnur veikindi sé að ræða, eins og t.d. blóðleysi, sem þarf að byrja á að huga að. Óeðlilegur blóðhagur getur einnig bent til þess að krabbamein hafi dreifst í merg.
Meðan á meðferð með krabbameinslyfjum stendur er blóðið rannsakað fyrir hverja lyfjagjöf (við upphaf hvers lyfjahrings). Krabbameinslyf geta dregið mjög úr þeim fjölda blóðkorna sem líkaminn þarf á að halda. Geislameðferð getur haft sömu áhrif þó í minna mæli sé. Vera kann ástæða til að fylgjast með blóðhag meðan á geislameðferð stendur, einkum ef stórt svæði er geislað eða meðferð með krabbameinslyfjum er nýlokið eða stendur ennþá yfir. Sé blóðkornatalan of lág, getur læknir gefið lyf sem kallast vaxtarþættir til að örva vöxt ákveðinna tegunda blóðfrumna. Dæmi um vaxtarþætti eru:
-
Epoetin alfa (Procrit®, Epogen®) eða darbepoetin alfa (Aranesp®) sem fjölga rauðum blóðkornum.
-
Oprelvekin (Neumega®) sem fjölgar blóðflögum.
-
Filgrastim (Neupogen®) sem eykur fjölda hvítra blóðkorna.
Einnig má bæta blóðhag með því að gefa heilbrigt blóð sem inniheldur það sem líkaminn þarfnast.
Að meðferð lokinni eru blóðsýni tekin til að leita að merkjum um endurkomu sjúkdómsins og til að fylgjast með hugsanlegum aukaverkunum lyfja. Fylgst er með fjölda hvítra blóðkorna (ónæmisfrumna) og blóðflaga þar til þær hafa náð eðlilegu marki. Hugsanlega biður læknir þinn um blóðsýni endrum og sinnum og fer það eftir því hvers konar meðferð þú varst í og líðan þinni.
Efnagreining blóðs
Í blóðsýni má mæla magn ákveðinna efna í blóðinu sem geta gefið lækni þínum til kynna hvort ýmis líffæri séu heilbrigð og starfi eðilega að lokinni meðferð eða ekki. Unnt er að fá mælingu á:
-
Magni lifrarensíma (sérstök prótín sem taka þátt í mikilvægum efnaskiptum) og gallrauða (efni sem brýtur niður fitu) til að kanna lifrarstarfsemina.
-
Magni kalíums, klóríðs og karbamíðs (þvagefnis) sem segir til um ástand lifrar og nýrna á meðan á meðferð stendur og að henni lokinni.
-
Magni kalks sem segir til um heilbrigði beina og nýrna.
-
Magni blóðsykurs sem skiptir miklu máli fyrir fólk með sykursýki og þá sem eru á steralyfjum í því skyni að draga úr bólgum, verkjum og öðrum einkennum sýkingar.
Óeðlilegar niðurstöður kunna að benda til þess að brjóstakrabbamein hafi dreift sér í bein eða lifur. Við þær aðstæður biður læknir um myndgreiningu eins og beinaskann eða CT skann til að afla frekari niðurstaðna.
Æxlisvísar
Læknir þinn kann að biðja um blóðrannsókn í leit að æxlisvísum sem vísbendingum um krabbameinsvirkni í líkamanum. Þegar krabbamein er fyrir hendi framleiðir það oft ákveðið prótín sem finnst í blóðinu og nefnast æxlisvísar. Þannig rannsókn kann hugsanlega að vera gerð áður en til meðferðar kemur til að greina brjóstakrabbameinið og komast að því hvort það hefur dreift sér um líkamann; meðan á meðferð stendur má nota slíkar rannsóknir til að kanna hvort lyf virka á krabbameinsfrumur og að lokinni meðferð til að fylgjast með hvort krabbameinið kunni að hafa tekið sig upp aftur.
Dæmi um æxlisvísa sem leitað er að:
-
CA 15,3 til að finna brjóstakrabbamein og krabbamein í eggjastokkum.
-
TRU-QUAANT og CA 27,29 eru önnur dæmi um prótín sem talin eru tengjast brjóstakrabbameini.
-
CA 125 getur bent til krabbameins í eggjastokkum eða að krabbamein í eggjastokkum eða brjóstum sé að taka sig upp.
-
CEA (mótefnavaki krabbameins á fósturstigi: carcinoembryonic antigen) er vísbending um ristilkrabbamein, lungnakrabbamein eða krabbamein í lifur. Æxlisvísinn CEA má styðjast við til að greina hvort krabbamein hefur sáð sér til annarra hluta líkamans.
Sumir læknar treysta á æxlisvísa í því skyni að greina fyrstu merki um að sjúkdómurinn ágerist eða sé að taka sig upp á ný, í þeirri von að hægt sé að finna staðbundið og læknanlegt mein. Finnist vaxandi magn æxlisvísa við blóðrannsókn, gæti læknirinn ákveðið að fylgjast reglulega með þeim til að meta viðbrögð þín við meðferð með krabbameinslyfjum.
Æxlisvísar sem benda til brjóstakrabbameins hafa takmarkað gildi gagnstætt því sem gerist með leit í blóði að mótefnavaka krabbameins í blöðruhálskirtli (PSA=Prostate Specific Antigen) sem talinn er áreiðanlegri. Niðurstaða sem sýnir eðlilegt magn æxlisvísa þarf ekki að þýða að krabbamein sé ekki fyrir hendi. Á sama hátt þarf aukið magn ekki að þýða að sjúkdómurinn fari versnandi eða sé að taka sig upp. Þótt stuðningur geti verið að því að fá þessar upplýsingar meðan á greiningu stendur hefur notkun æxlisvísa í því skyni að finna meinvörp ekki skilað sér í lengri líftíma kvenna með brjóstakrabbamein. Síðan er rétt að hafa ekki aðeins í huga þann kvíða sem það getur valdið þegar æxlisvísar finnast í blóði í óeðlilega miklu magni heldur einnig þann fjölda rannsókna sem kann að reynast nauðsynlegur til að komast að orsökinni.
ÞB