Brjóstamyndataka

Ummæli læknis

„Brjóstamyndataka er afar mikilvægur liður í því að greina brjóstakrabbamein. Áður fyrr greindum við brjóstakrabbamein fyrst þegar kona kom með hnút í brjóstinu. Nú orðið finna myndgreiningarlæknar yfirleitt brjóstakrabbamein snemma, áður en sjúklingurinn fer að finna hnút/a með þreifingu, þeir eru smærri og miklu sjaldnar sem meinið hefur dreift sér í eitla."

—Susan Orel, M.D.

Þegar kemur að því að greina, meta og fylgjast með konum sem fengið hafa brjóstakrabbamein eru röntgenmyndir af brjóstum trúlega mikilvægasta tæki lækna. Að röntgenmynda brjóst er örugg og áreiðanleg leitaraðferð. Tæknin hefur verið notuð í rúm fjörutíu ár.

Brjóstamyndataka kemur ekki í veg fyrir brjóstakrabbamein en hún getur bjargað lífi kvenna með því að sýna krabbameinsæxli á byrjunarstigi eða eins fljótt og auðið er. Sem dæmi má nefna að brjóstamyndataka hefur minnkað líkur á að deyja úr brjóstakrabbameini um 35% hjá konum sem komnar eru yfir fimmtugt. Einnig benda rannsóknir til að konur milli fertugs og fimmtugs geti minnkað líkur á að deyja úr brjóstakrabbameini um 25-35%.

*Þessar tölur eru teknar beint af bandaríska vefnum. Hérlendar niðurstöður sjúklinga-viðmiðarannsóknar (e.: case-control study)  allt frá árinu 2007  bentu til 35-40% lægri dánartölu úr brjóstakrabbameini meðal kvenna sem hafa komið í hópleit miðað við hinar. Er þetta svipað og aðrar rannsóknir af þessum toga hafa sýnt.

Leiðandi sérfræðingar við National Cancer Institute, American Cancer Society og American College of Radiology, allt saman stórar og virtar krabbameins- og geislalækningastofnanir í Bandaríkjunum, mæla nú með því að konur sem komnar eru yfir fertugt fari í brjóstamyndatöku árlega.

Röntgenmyndir af brjóstum eru ekki óskeikular. Venjulegur brjóstvefur getur hulið krabbameinsæxli þannig að það sjáist ekki á mynd. Þetta er s.k. fölsk neikvæðni; niðurstaða myndatökunnar er neikvæð (enginn sjúkdómur) en hún er röng. Á brjóstamyndum kann einnig að koma fram eitthvað sem lítur út eins og krabbameinsæxli en reynist vera eðlilegur vefur. Þetta ranga „hættumerki” er á læknamáli kallað „falskt jákvætt tilvik” (jákvæður=sjúkdómur fyrir hendi). Til að sjá við þessum skekkjum þarf fleira að koma til en brjóstamyndataka. Konur þurfa líka að æfa sig í að skoða brjóstin sjálfar, (sjálfskoðun brjósta), og fara reglulega í brjóstamyndatöku. Í sumum tilvikum reynist nauðsynlegt að fá annars konar myndir af brjóstunum, með ómskoðun eða segulómskoðun.

*Brjóstamyndataka sem gerð er að beiðni læknis vegna einkenna sem hann hefur fundið við skoðun er kölluð greiningarmyndataka (eða “klínísk”) til aðgreiningar frá venjulegri brjóstamyndatöku hjá einkennalausum konum (hópleit).

Fjögur atriði sem þú þarft að vita um brjóstamyndir

1. Þær geta bjargað lífi þínu. Að greina brjóstakrabbamein snemma í hópleit getur dregið úr líkum á að deyja úr sjúkdómnum um 25-30% eða meira. Konur ættu að byrja að fara reglulega í brjóstamyndatöku um fertugt og fyrr ef þær eru í sérstökum áhættuhópi.

2. Vertu ósmeyk. Þetta tekur fljótt af. Myndatakan tekur um 5-10 mínútur og óþægindi eru ekki mikil. Aðferðin er örugg: Þú verður aðeins fyrir örlítilli geislavirkni meðan á myndatökunni stendur.

3. Æskilegar aðferðir

  • Sértu með þétt brjóst eða yngri en fimmtug er æskilegt að fá stafræna brjóstamynd.

  • Eldri brjóstamyndir þarf að bera saman við nýjar myndir.

  • Fleiri en einn röntgenlæknir þurfa að skoða myndirnar.

  • Skoðun brjóstamynda með bendiforriti (CAD) er æskileg því að með því er auðveldara að finna grunsamleg svæði. 

  • Hafi þér verið vísað á leitarstöð af lækni þarf hann að láta fylgja með nákvæma lýsingu á því sem hann vill láta skoða (t.d. áþreifanlegur hnútur í brjósti utan- og ofanverðu, ganga þarf úr skugga um hvers eðlis hann er.)

  • Niðurstöður þarf að bera saman við niðurstöður úr öðrum rannsóknum sem þú kannt að hafa farið í, t.d. ómskoðun eða segulómskoðun (MRI).

  • Segðu lækni þínum frá þeim tilfellum brjóstakrabbameins og annars krabbameins sem fundist hafa bæði í móður- og föðurætt þinni.

4. „Þetta er öflugasta krabbameinsleitartækið okkar. Engu að síður er það staðreynd að um 15-20% krabbameinstilfella koma ekki fram á röntgenmyndum og greinast ekki með þessari tækni. (*Gildir í hópleit og miðað við að öll krabbamein greinist innan árs.) Rétt er og unnt að styðjast við fleiri mikilvægar aðferðir - skoða brjóstin sjálf, láta lækni þreifa þau, ómskoða og segulómskoða (MRI) - en engin þeirra getur komið í stað brjóstamyndatöku."

—Marisa Weiss, M.D.

Hvenær er rétt að fara í brjóstamyndatöku?

Séu líkur þínar á að fá brjóstakrabbamein miklar, margar konur í ættinni hafa greinst með brjóstakrabbamein eða krabbamein í eggjastokkum eða þú einhvern tíma farið í geislameðferð á bringu, er mælt með því að þú byrjir að fara reglulega í brjóstamyndatöku fyrr (við þrítugsaldur). Það er þó eitthvað sem þú þarft að ræða við lækni þinn.


*Málsgreinar merktar stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB