Aðferðir og áhætta við brjóstamyndatökur
Röntgenmynd á filmu
Ummæli læknis
„Ekki hugsa of mikið um óþægindin meðan á myndatökunni stendur. Sé brjóstið ekki flatt út, gæti krabbamein farið fram hjá okkur. Vitir þú að brjóstin eru viðkvæmari á einum tíma en öðrum í tíðahringnum, reyndu þá að bóka tíma þegar brjóstin eru síður viðkvæm. Að þurfa að þola fárra mínútna óþægindi ætti aldrei að koma í veg fyrir að þú farir í brjóstamyndatöku.”
—Susan Greenstein Orel, M.D.
Brjóstamyndataka á filmu felur í sér minnstu mögulega geislun. Á leitarstöð er sérþjálfað fólk sem sér um myndatökurnar. Plastplata með ávölum brúnum heldur brjóstinu föstu meðan mynd er tekin. Síðan tekur sérstök myndavél tvær myndir af hvoru brjósti frá mismunandi hornum. Flestum konum finnst myndatakan óþægileg, en sumum beinlínis sársaukafull. Það er þó mikilvægt að þrýsta brjóstinu saman til að fletja það út svo að það verði sem þynnst. Röntgengeislarnir þurfa að komast í gegnum eins fá lög af brjóstvef og nokkur kostur er. Myndgæði og örugg greining eru háð því að unnt sé að þrýsta brjóstinu vel saman.
Hafir þú farið í brjóstaaðgerð af einhverjum ástæðum, t.d. þegar sýni var tekið með skurðaðgerð (skurðsýni) eða farið í brjóstaminnkun, þarf röntgenlæknir að vita hvar örin eru staðsett, komi til þess að greina þurfi örvef frá annars konar afbrigðileika í brjóstvefnum.
Að minnsta kosti einn röntgenlæknir les úr myndunum. Skoði tveir slíkir myndirnar eru líkur á að yfirsjást eitthvað um 10-15% minni en ella. Sums staðar er það regla að brjóstamyndir séu skoðaðar tvisvar. *Hérlendis er það regla að brjóstamyndir séu skoðaðar tvisvar, a.m.k. í hópleit, verði því við komið.
Hægt er að fá nákvæmari lestur með því að nota bendiforrit sem byggist á stafrænni tækni – (CAD= Computer-Aided Detection). Tölvan finnur svæðin sem eru þéttari í sér en önnur. Læknir skoðar þau nánar og ákveður hvort ástæða er til að kanna þau betur. *Sjáist eitthvað óeðlilegt á röntgenmynd verður þú hugsanlega send beint í ómskoðun eða fínnálarástungu. Einstaka sinnum þarf að grípa til skurðsýnistöku til að fá örugga greiningu.
Stafræn brjóstamyndataka
Sömu aðferð er beitt við stafræna brjóstamyndatöku og við brjóstamyndatökur á filmu. Eini munurinn er sá að annað hvort skráist myndin beint í tölvu eða geislanæm plata er lesin í skanna og upplýsingarnar (myndin) færð þaðan inn í tölvu. Fer það eftir tækjabúnaði. Unnt er að stækka myndina eða taka út einstök svæði og skoða betur. Finnist grunsamlegt svæði, getur læknir skoðað það nánar með aðstoð tölvunnar. Eins og sakir standa er það sem kemur fram með stafrænni myndatöku ekki jafn skýrt og það sem tekið er á filmu, tæknin er dýrari og ekki jafn útbreidd í hinum stóra heimi. Því er þó spáð að í framtíðinni muni stafræn myndataka verða sífellt algengari en nú er.
Áhætta við brjóstamyndatökur
Við nútíma brjóstamyndatökur er aðeins notað örlítið geislamagn – jafnvel minna en við venjulegar röntgenmyndir af lungum.
ÞB