Brjóstamyndataka eftir mismunandi aðgerðir

Hafi brjóstið verið endurgert eftir brjóstnám með þínum eigin líkamsvef, er brjóstamyndataka að líkindum ekki vænleg til árangurs. Það er vegna þess að í rauninni er enginn brjóstvefur fyrir hendi. Við ákveðnar aðstæður kann þó að vera að læknir mæli með brjóstamyndatöku eftir þess háttar aðgerð:

  • Séu miklar líkur á að meinið taki sig upp aftur á sama stað.

  • Sé venjuleg læknisskoðun erfið í framkvæmd.

  • Hafi orðið vart einhvers sem vekur spurningar eða grunsemdir.

Stundum má greina brjóstakrabbamein sem tekur sig upp á ný með þessari aðferð hjá konum sem hafa fengið nýtt brjóst með TRAM-flipa aðgerð (flutningi á kviðvef).

Einnig getur reynst snúið að lesa úr brjóstamynd hafir þú farið í stóran fleygskurð sem síðan var fylgt eftir með því að búa til nýtt brjóst úr eigin vef. Látir þú hins vegar taka brjóstamynd eftir að áhrif krabbameinsmeðferðar hafa dofnað til að hafa til viðmiðunar, gæti reynst auðveldara að lesa úr brjóstamyndum síðar meir.

Nánar um þetta:

Brjóstamyndataka eftir fleygskurð

Hafir þú farið í fleygskurð (þar sem æxlið er fjarlægt ásamt rönd af heilbrigðum vef) og síðan í geislameðferð, máttu búast við að brjóstið verði röntgenmyndað að liðnu hálfu ári frá lokum meðferðar. Geislameðferð getur valdið breytingum á brjóstvef og hörundi. Þessi brjóstamynd verður notuð sem viðmiðun og allar seinni tíma brjóstamyndir bornar saman við hana. Hafir þú látið laga brjóstið með eigin vef eftir fleygskurð, mun læknir þinn vilja fá mynd af brjóstinu til viðmiðunar þegar vefurinn er gróinn. Þannig mynd gagnast einnig við túlkun á seinni tíma brjóstamyndum.

Hálfu ári síðar skaltu reikna með að fara í venjubundna árlega brjóstamyndatöku af báðum brjóstum. Upp frá því mun árleg brjóstamyndataka látin duga. Til er þó í dæminu að læknir þinn vilji áfram fá mynd af brjóstinu sem var meðhöndlað við brjóstakrabbameini á hálfs árs fresti næstu árin. Ræddu við lækni þinn um hvað er heppilegast fyrir þig.

Brjóstamyndataka eftir brjóstnám

Í brjóstnámi felst að allt brjóstið er fjarlægt. Eftir það er óþarft að mynda þá hlið því að allur brjóstvefur hefur verið fjarlægður. Þú heldur áfram að fara í brjóstamyndatöku árlega með hitt brjóstið (nema bæði brjóstin hafi verið tekin). Leit að brjóstakrabbameini í hinu brjóstinu er afar mikilvæg vegna þess að hafir þú greinst með brjóstakrabbamein í öðru brjóstinu aukast líkur á brjóstakrabbameini í hinu.

Mælt er með brjóstamyndatöku hafir þú farið í sérstaka tegund brjóstnáms þar sem geirvartan er látin haldast ásamt brjósthúð og örlitlum brjóstvef undir henni. Það réttlætir áframhaldandi leit með brjóstamyndatöku.

Brjóstamyndataka eftir að nýtt brjóst hefur verið byggt upp

Hafi verið græddur í þig púði með saltvatns- eða sílíkonfyllingu eftir að allt brjóstið hefur verið tekið (brjóstnám), er tilgangslaust að taka brjóstamynd þeim megin. Brjóstvefur hefur allur verið fjarlægður og ígrædda brjóstið skyggir á aðliggjandi vefi. Hafi brjóst verið byggt upp að nýju eftir brjóstnám er spurning hvort þú þarft að fara í brjóstamyndatöku á nýja brjóstinu. Yfirleitt er það talið óþarft nema þú hafir farið í aðgerð þar sem húð og geirvarta eru ekki tekin.

  • Hafir þú fengið grædd í þig gervibrjóst með salt- eða sílikonfyllingu er óþarfi að mynda það. Brjóstavefur er ekki fyrir hendi og ígræddu brjóstin skyggja á aðliggjandi vefi. Engu að síður getur þú sjálf eða læknir þinn skoðað brjóstsvæðið vandlega.

  • Almennt er talið að konur sem láta byggja upp brjóst með eigin vef þurfi ekki að láta röntgenmynda það. Ástæðan er sú sama, þ.e. að brjóstvefur er ekki fyrir hendi. Framkvæma þarf reglulega skoðun á brjóstinu með þreifingu. Við ákveðnar aðstæður kann læknir að mæla með brjóstamyndatöku eftir að nýtt brjóst hefur verið búið til á þennan hátt:

Venjulega reynast áþreifanlegir hnútar eða kalkhópar í aðfluttum vef sem koma fram á röntgenmynd, góðkynja og stafa af dauðum fitufrumum. Slíkar frumur kalka og mynda hnúta fljótlega eftir skurðaðgerð. Ólíkt krabbameinsæxlum stækka þeir yfirleitt ekki og minnka jafnvel með tímanum.

Segulómskoðun (MRI) er að líkindum áhrifaríkari leið til að leita krabbameins hjá konum sem hafa látið búa til nýtt brjóst og með miklar líkur á að meinið taki sig upp.

ÞB