Hvað sýna brjóstamyndir?

Ummæli læknis

„Við mælum með því að konur sem hættir til að fá belgmein (vökvablöðrur) í brjóstin, fari reglulega í brjóstamyndatöku. Sýni myndirnar einhverjar breytingar er bætt við ómskoðun til að ganga úr skugga um að á ferðinni sé belgmein. Þótt þú hafir áður fengið vökvablöðrur í brjóstin, skaltu ekki gera ráð fyrir því að nýtt þykkildi sé saklaust belgmein. Láttu þar til bæran lækni skoða þig og soga út vökvann úr blöðrunni eða farðu í ómskoðun til að ganga úr skugga um hvað þarna er á ferð.”

—Susan Greenstein Orel, M.D.

Venjuleg brjóstamyndataka felur í sér að teknar eru a.m.k. tvær myndir af hvoru brjósti frá tveimur mismunandi sjónarhornum. Þótt við þreifingu hafi aðeins fundist hnútur í öðru brjóstinu eru teknar myndir af báðum brjóstum. Það er gert til þess að unnt sé að bera saman myndir af brjóstunum og ganga úr skugga um að allt sé í lagi með þau bæði. Hafir þú komið í brjóstamyndatöku áður, ber læknir nýjar myndir saman við þær eldri til að athuga hvort einhverjar breytingar hafi átt sér stað. 

mammogram_top_d[2]

Stækka mynd

Brjóstamyndir sem sýna engin frávik.


Þótt meginmarkmiðið sé að leita að hugsanlegu krabbameini kann læknir að rekast á aðrar þéttingar eða breytingar í brjóstinu sem rétt þykir að kanna nánar. Þar á meðal eru:

  • Kalkhópar
    Hópar örsmárra kalkagna – á stærð við saltkorn – í mjúkum vef brjóstsins geta endrum og sinnum bent til krabbameins á byrjunarstigi. Yfirleitt finnast kalkhópar ekki við þreifingu en þeir sjást á brjóstamyndum. Fer það eftir því hvernig kalkanirnar hafa raðað sér saman, lögun þeirra, stærð og fjölda hvort læknir vill láta gera fleiri rannsóknir. Stórar kalkanir benda yfirleitt ekki til krabbameins. Hópar lítilla kalkana eru taldir stafa af óvenju mikilli starfsemi brjóstafrumna. Yfirleitt er um að ræða góðkynja frumuvöxt (óskyldan krabbameini), en stundum kunna hópar lítilla kalkana að finnast í brjóstakrabbamein á byrjunarstigi.

  • Belgmein
    Ólíkt krabbameinsæxlum sem eru heil í gegn eru belgmein í brjóstum full af vökva (vökvablöðrur). Belgmein eru mjög algeng og sjaldnast taldin benda til krabbameins. Ómskoðun er besta aðferðin til að greina belgmein frá æxlum vegna þess að hljóðbylgjur fara rakleitt í gegnum vökvafylltar blöðrurnar. Þéttir vefjahnútar endurvarpa hins vegar bylgjunum að mismiklu leyti.

  • Netjukirtilæxli (fibroadenoma)
    Netjukirtilæxli eru hreyfanlegir og þéttir hnútar, myndaðir af eðlilegum brjóstfrumum. Þótt þau séu góðkynja geta þau átt það til að stækka. Allir þéttir hnúðar sem fara stækkandi eru venjulega fjarlægðir til að ganga úr skugga um að þeir séu ekki illkynja. Netjukirtilæxli er algengasta tegund hnúta í brjóstum, einkum hjá ungum konum.

    ÞB