FISH og IHC
FISH - Staðbundin þáttapörun
FISH eru upphafsstafir í orðunum Fluorescence In Situ Hybridization og er rannsókn sem kortleggur erfðaefnin í frumum fólks. Svona rannsókn má nota til að sjá fyrir sér ákveðna arfbera og arfberahópa (gen). FISH-rannsókn er gerð á brjóstakrabbameinsvef sem fjarlægður hefur verið með skurðsýnistöku til að kanna hvort frumurnar hafa aukeintök af HER2 arfberanum. Því fleiri eintök af HER2 arfbera sem finnast þeim mun fleiri HER2 viðtakar eru á frumunum. HER2 viðtakarnir taka við boðum sem örva vöxt brjóstakrabbameinsfrumna.
Niðurstöður úr FISH rannsókn geta verið “jákvæðar” (of mörg eintök) eða “neikvæðar” (eðlilegur fjöldi eintaka). Jákvæðar niðurstöður benda til að líklegt sé að lyfið trastuzumab (Herceptin®) hafi áhrif á krabbameinið en með því er komið í veg fyrir að HER2 viðtakar nemi vaxtaboð.
Almennt má segja að þessi aðferð sé ekki eins útbreidd og IHC rannsóknin við leit að HER2, en hún er engu að síður talin áreiðanlegri en IHC. Oft er gripið til þess að framkvæma fyrst IHC próf og séu niðurstöðurnar ekki eindregnar, láta fara fram FISH rannsókn. Mælt er með að FISH rannsókn sé gerð á vef sem varðveittur hefur verið í vaxi eða kemískum efnum en ekki á nýjum eða frystum vef.
IHC - Mótefnalitun vefja
IHC er skammtöfun úr enska orðinu ImmunoHistoChemistry sem þýtt hefur verið sem mótefnalitun vefja. (Aðferðin felst í að greina vaka í vefjasneiðum með notkun ensímtengdra mótefna og litlausra hvarfefna sem falla út og mynda lit í návist ensímsins.)
IHC rannsókn er notuð til að leiða í ljós hvort of mikið af HER2-viðökum og/eða hormónaviðtökum er að finna á yfirborði krabbameinsfrumna. Þær upplýsingar skipta sköpum þegar ákveðið er hvernig meðferð skuli beitt.
Mæling á HER2 með IHC
IHC er það próf sem oftast er notað til að kanna hvort í æxli finnist of mikið af HER2 viðtökum á yfirborði krabbameinsfrumna. Séu viðtakar of margir berast of mög vaxtarboð til frumunnar. Lyfið trastuzumab (Herceptin®) verkar þannig að það lokar á viðtakana og kemur í veg fyrir að vaxtarboð berist krabbameinsfrumum. Niðurstöður úr IHC rannsókn geta verið á bilinu 0 til 1+ og er meinið þá HER2 neikvætt, en á bilinu 2+ til 3+ telst meinið HER2-jákvætt.
Fólk með HER2-jákvætt krabbamein bregst yfirleitt vel við herseptíni. Ekki er talið að lyfið geri gagn ef niðurstaða rannsóknar er á bilinu 0-1+ á IHC skala.
Í þeim tilfellum þar sem niðurstaða úr IHC rannsókn er 1+ eða 2+ má hugsa sér að framkvæma FISH-rannsókn til að fá áreiðanlegar niðurstöður til ganga þannig úr skugga um hvort Herceptin® geti gert gagn eða ekki.
IHC rannsóknin er áreiðanlegust þegar hún er gerð á nýju eða frystu vefjarsýni en er talin óáreiðanleg þegar rannsakaður er vefur sem varðveittur hefur verið í vaxi eða kemískum efnum.
Mæling á hormónaviðtökum með IHC
Flestar rannsóknarstofur notast við mótefnalitun vefja til að gera hormónaviðtaka á frumum í vefjarsýni úr brjóstakrabbameini sýnilega . Séu hormónaviðtakar fyrir hendi, felur það í sér að vöxtur krabbameinsfrumna örvast af völdum kvenhormónsins estrógen og/eða prógesterón. Gera má ráð fyrir að andhormónalyf eins og tamoxifen og aromatase-hemlar virki á krabbameinið, en þau lyf loka fyrir áhrif estrógens eða minnka estrógenmagn líkamans. Ekki eru alls staðar í heiminum notaðar sömu aðferðir til að greina niðurstöður og þær kunna að vera settar fram á mismunandi hátt:
-
Sem prósentutala sem segir hve margar frumur af 100 litast og eru því hormónaviðtaka-jákvæðar. Sjá má tölur frá 0 (engin fruma finnst með hormónaviðtaka) eða 100% (hormónaviðtakar á þeim öllum).
-
Einhverja tölu á bilinu 0 til 3. Núll táknar þá að engir hormónaviðtakar eru fyrir hendi, 1 að fjöldi þeirra sé lítill, 2 að fjöldinn sé miðlungsmikill og 3 að hann sé mikill.
-
Á svokölluðum Allred skala sem er nefndur eftir lækninum sem fann hann upp. Með þessari mælingaraðferð er athugað hve mörg prósent frumna finnast sem eru hormónaviðtaka-jákvæðar, en einnig er kannað hve greinilega viðtakarnir sjást eftir litun (styrkleikinn). Út frá þessum tveimur þáttum eru niðurstöðurnar settar fram á bilinu 0 til 8. Því hærri sem talan er, þeim mun fleiri viðtakar fundust og því auðveldara var að greina þá í sýninu.
-
Orðin „jákvætt" eða „neikvætt".
Gæta þarf þess að mæla fjölda viðtaka bæði fyrir estrógen og prógesterón.
Í þeim tilfellum þar sem niðurstaðan er sett fram með því að nota aðeins orðin „jákvætt" eða „neikvætt" er rétt að biðja um nánari upplýsingar, prósentutölu eða aðra tölu sem talar skýrara máli.
Rannsóknir sýna að hversu lág sem talan kann að vera, gæti andhormónameðferð komið að gagni. Til að útiloka slíka meðferð þarf niðurstaðan að vera núll, sem sagt engar frumur með hormónaviðtökum. Sé í meinafræðiskýrslu sagt að hormónastaða sé „óþekkt" getur það þýtt eitt af þrennu:
-
Rannsóknin var ekki gerð eða ekki lokið við hana.
-
Vefjarsýnið sem barst rannsóknarstofunni var of lítið til að hægt væri að fá áreiðanlega niðurstöðu.
-
Fáir estrógen- eða prógesterón-viðtakar voru fyrir hendi.
Sú hormónaviðtakar ekki fyrir hendi, ekki hægt að mæla þá eða greina, telst krabbameinið hormónaviðtaka-neikvætt.
Sé niðurstaðan neikvæð, biddu þá um greinargóða skýringu á því hvers vegna meinið er talið hormónaviðtaka-neikvætt. Kannski geturðu beðið um að tekið sé annað sýni úr æxlinu og það rannsakað aftur.
ÞB