Hópleit, greining/sérskoðun, eftirlit

Ummæli læknis

„Við hópleit er reynt að finna sjúkdóminn áður en einkenna verður vart. Það er algengur misskilningur í sambandi við brjóstakrabbamein að allt sé í lagi svo framarlega sem líðanin er góð, enginn hnútur finnst og engin eru dæmi um brjóstakrabbamein í fjölskyldunni. Sannleikurinn er sá að stór hluti kvenna sem greinast með brjóstakrabbamein er ekki með neinn þekktan áhættuþátt. Því er hópleit afar mikilvæg öllum konum.”


—Susan Orel, M.D.

Hópleit: Við hópleit að brjóstakrabbameini (t.d. með brjóstamyndatöku) skoða læknar heilbrigðar konur, án einkenna, til að kanna hvort einhver snemmbúin merki um sjúkdóminn sé að finna. Markmiðið er að greina meinið snemma á meðan það er einkennalaust svo auðveldara verði að meðhöndla sjúkdóminn.

 Helstu leiðir til þess að finna brjóstakrabbamein eru:

*Tvennt hið síðarnefnda er framkvæmt hér á landi í sömu heimsókn á Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands. Kona sem býr utan höfuðborgarsvæðis getur ýmist beðið eftir heimsókn Leitarstöðvar Krabbameinsfélags Íslands á heimaslóðir eða leitað læknis sem gæti ákveðið að senda hana í brjóstamyndatöku. Konum á aldrinum 40-69 ára býðst að koma í brjóstamyndatöku á tveggja ára fresti í skipulega hópleit hjá krabbameinsfélaginu. Sjá nánar á http://www.krabb.is.

Brjóstamyndataka er notuð til að leita að brjóstakrabbameini, en hún er einnig notuð til að greina brjóstakrabbamein þegar það finnst.

Greining - Sérskoðun: Brjóstamyndataka sem notuð er til greiningar (“klínísk”) er örlítið frábrugðin leitarmyndatöku vegna þess að við hana er það svæði sérstaklega myndað sem þykir grunsamlegt þannig að læknir fái nákvæmlega þær myndir sem hann þarfnast til að meta ástandið. Í þeim tilvikum er ómskoðun oftast líka beitt hér á landi og fínnálarsýni tekin. Markmiðið er að fá staðfest hvort um krabbamein er að ræða. Sé svo, er nauðsynlegt að kanna hvort það hafi dreift sér. Þá koma til fleiri rannsóknir sem sagt er frá hér á eftir.

Eftirlit: Þegar brjóstakrabbamein hefur greinst eru hugsanlega einnig gerðar margvíslegar rannsóknir til að fylgjast með framvindu sjúkdómsins og hvernig og hvort lyf og meðferðir virka. Sömuleiðis er fylgst með hvort sjúkdómurinn tekur sig upp aftur.


Hér er yfirlit yfir mismuninn á hópleit og greiningu við brjóstamyndatöku:

Við hópleit

 • Vanaleg forskrift.

 • Hér á landi á tveggja ára fresti eins og víða. Árlega í BNA.

 • Einkennalaus (engin merki um krabbamein).

 • Dæmi um brjóstakrabbamein í fjölskyldunni.

 • Belgmein í brjóstum.

Við greiningu (sérskoðun)

 • Vandamálamiðuð aðferð.

 • Eftir þörfum.

 • Einkenni: verkur í brjósti eða eymsli; hnútur eða þétting; útferð úr geirvörtu.

 • Hefur áður greinst með krabbamein.

 • Fyrri myndatökur hafa sýnt eitthvað óeðlilegt eða það fundist við læknisskoðun.

 • Brjóstapúðar (til stækkunar).

 • Áður hefur verið tekið sýni úr brjósti eða það verið skorið.

Brjóstaskoðun hjá lækni

Brjóstaskoðun með þreifingu hjá lækni getur orðið til þess að það finnst hnútur sem konan hefur ekki tekið eftir þegar hún skoðaði brjóstin sjálf. Flesta hnúta finna konur að vísu sjálfar, en sumt sem er grunsamlegt í brjóstinu getur reynst mjög erfitt að finna og aðeins á færi þeirra að átta sig á því sem reynsluna hafa. Hnútur, þétting, þrymill, óregluleg lögun – breytingar á brjóstunum sem þú tekur ef til vill ekki eftir eða telur vera „eðlilegar” – allt þetta getur læknir fundið sem er vanur að skoða brjóst. Rannsóknir sýna að það eykur líkur á að krabbamein finnist snemma að skoða brjóstin sjálf ÁSAMT ÞVÍ að láta lækni skoða brjóstin reglulega. Í 20% tilvika þreifast brjóstakrabbameinæxli við læknisskoðun sem ekki koma fram á brjóstamynd.

Konur sem eru í meðferð við brjóstakrabbamein eru skoðaðar reglulega af krabbameinslækni sínum. Sömuleiðis eftir að meðferð lýkur. Algengt er að læknir skoði konuna á 3 til 4 mánaða fresti og síðan líði lengra á milli þar til um eitt ár líður á milli þess að hún fer í skoðun. Þetta á aðeins við meðan engra einkenna verður vart.

*Mælt er með að allar konur læri sjálfskoðun brjósta og stundi hana reglulega frá 25 ára aldri og láti lækni þreifa brjóstin á þriggja ára fresti sem hluta af almennri heilsugæslu, þ.e.a.s. sé konan einkennalaus.

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB