PET greining
Til fróðleiks um jáeindaskanna, gjöf Íslenskrar erfðagreiningar, sem verður tekinn í notkun á Íslandi (LSH) 2017
PET eru upphafsstafirnir í orðunum "Positron Emission Tomography" Positron er kölluð jáeind á íslensku. Hún er öreind sem hefur sömu eiginleika og rafeind en gagnstæða rafhleðslu og létteindatölu – andeind rafeindar.
PET greining (Positron Emission Tomography) er ein nýjasta leitartæknin sem völ er á við greiningu brjóstakrabbameins. Örlitlu magni af geislavirku efni í sykurupplausn er sprautað í æð. Virkar eða hraðvaxandi frumur (sem oft eru vísbending um krabbameinsvöxt) binda við sig geislavirka efnið. Það gerir röntgenlæknum kleift að finna svæði þar sem frumur eru grunsamlega starfsamar og geta bent til krabbameinsvaxtar. Þegar læknar vita hvar ber að leita er gripið til annarra leitaraðferða til að fá frekari greiningu. Ein aðferðin er að sameina PET greiningu og greiningu með tölvusneiðmynd (CAT) og sú sem nær alltaf er notuð í þeim tilraunum sem nú standa yfir.
Snemmbúnar niðurstöður úr PET-myndgreiningu á konum með brjóstakrabbamein veita mikilvæga möguleika, meðal annars þá að geta metið:
-
Hvort krabbamein hefur sáð sér í eitla.
-
Hvort krabbamein hefur dreift sér til annarra líkamshluta og þá hvert (meinvörp).
-
Hvort dreift brjóstakrabbamein svarar meðferð.
Annað er óheppilegra. PET-tæknin felur í sér takmarkaða möguleika á að greina smávaxin æxli. PET myndgreiningartæki er einnig óvíða að finna á greiningarstöðvum og myndgreiningin er dýr og flókin og krefst óvenjumikillar sérfræðiþekkingar.
PET myndgreining getur reynst gagnleg þegar rannsaka þarf hvort meinvörp eru fyrir hendi og hversu útbreidd þau eru. Einnig getur hún komið að gagni við að fylgjast með því hvernig sjúklingur bregst við meðferð. PET myndgreining er einkum gagnleg þegar meta þarf ástand eitla. Prófaðu að bera saman þessar myndir sem teknar eru með PET myndgreiningartæki:
|
Eðlileg PET-mynd. Á myndinni visa örvarnar ofan frá og niður úr hægra megin á: Eðlilegt hjarta, eðlilegt vinstra nýra, eðlilega þvagblöðru. Vinstra megin á mynd vísar örin á eðlilegt hægra nýra. |
|
PET mynd sem sýnir óeðlilega eitla. |
|
PET mynd af konu með brjóstakrabbamein sem hefur sáð sér í bein. |
Dr. Amy Lansman við National Medical Imaging í Philadelphia eru þökkuð afnot af myndum þessum.
ÞB