Rannsóknir meðan á meðferð stendur

Með blóðkornatalningu er fylgst með fjölda ónæmisfrumna sem verja líkamann. Til að skoða súrefnisflutning er mældur fjöldi rauðra blóðkorna, blóðrauði og blóðkornahlutfall. Einnig er hægt að telja blóðflögur en þær segja til um storknunareiginleika blóðsins. Við krabbameinsmeðferð, blóðmissi og langvarandi veikindi getur dregið úr öllum þessum mikilvægu gildum blóðs.

Meðferð með krabbameinslyfjum getur dregið verulega úr magni ónæmisfrumna í líkamanum. Sömu áhrif getur staðbundin geislameðferð haft þótt í minna mæli sé. Þess vegna er fjöldi þessara frumna athugaður í hvert skipti sem ný umferð með krabbameinslyfjum hefst til að ganga úr skugga um að líkaminn muni þola næsta skammt.

Blóðhagur er hugsanlega einnig kannaður meðan á geislameðferð stendur – einkum þegar stórt svæði er geislað eða þú ert enn í meðferð með krabbameinslyfjum. Þegar eitthvert gildi blóðhags lækkar um of er hægt að gefa hinar mismunandi tegundir blóðfrumna. Einnig geta vaxtahvatar eins og Procrit® eða Epogen® aukið fjölda rauðra blóðkorna og Neumega® getur fjölgað blóðflögum. Hafi ónæmisfrumum (hvítum blóðkornum) fækkað verulega, geta vaxtahvatar eins og Neupogen® fjölgað þeim.


Efnagreining blóðs

Greining á efnasamböndum blóðs gerir það kleift að meta starfsemi lifrar með því að mæla magn ensíma (sérstakra prótína sem taka þátt í lífsnauðsynlegum efnaskiptum) og gallrauða (efnis sem tekur þátt í að brjóta niður fitu). Magn annarra efna skiptir líka máli, þ.á m. eru kalíum, klór og þvagefni (köfnunarefnissamband) sem gefa mynd af ástandi lifrar og nýrna meðan á meðferð stendur og að henni lokinni. Kalkmagn í blóði gefur vísbendingu um ástand beina og nýrna. Mæling á blóðsykri skiptir máli fyrir sykursjúka og þá sem taka stera eða fá þá gefna í æð.

ÞB