Röntgenmyndir af lungum og beinaskann
Röntgenmyndir eru teknar af brjóstkassa kvenna sem hafa greinst með eða kunna að greinast með brjóstakrabbamein í því skyni að kanna þann veika möguleika að krabbamein hafi sáð sér til lungna. Sams konar myndataka fer einnig fram til að skoða ástand hjarta og lungna áður en sjúklingur fer í svæfingu eða meðferð með krabbameinslyfjum. Hjá konum með meinvörp krabbameins í lungum eru röntgenmyndir notaðar til að fylgjast með hvaða áhrif krabbameinsmeðferð hefur á sjúkdóminn.
Meðan á meðferð við brjóstakrabbameini stendur er stuðst við röntgenmyndir við eftirfarandi aðstæður:
-
Hjá manneskju með brjóstakrabbamein sem hefur sáð sér í lungu til að fylgjast árangri af meðferð.
-
Hjá fólki sem fær hita meðan á meðferð með krabbameinslyfjum stendur til að kanna hvort það er með lungnabólgu.
-
Fari manneskja að finna fyrir mæði sem ekki hefur áður verið fyrir hendi fyrstu mánuðina eftir geislameðferð, hvort sem henni fylgir hósti eða ekki. Við þær aðstæður kann læknir að ákveða að lungun séu röntgenmynduð til að kanna hvort geislameðferðin hefur valdið bólgu í lungum.
Beinaskann
Beinaskann, einnig nefnt sindurritun, er myndgreiningaraðferð sem notuð er til að kanna hvort brjóstakrabbamein hefur borist í bein. Læknir þinn kann að fara fram á beinaskann:
-
Við fyrstu greiningu til að ganga úr skugga um að beinin séu heilbrigð og til þess einnig að fá fram „grunnmynd" sem hægt er að bera saman við síðar meir ef á þarf að halda.
-
Verði vart þrálátan verk í beinum eða liðamótum á meðan á meðferð stendur eða eftir að henni líkur, svo og ef blóðsýni benda til þess að brjóstakrabbamein kunni að hafa borist í bein.
Byrjað er á að sprauta geislavirku efni í æð sem beinmyndandi frumur líkamans taka í sig á næstu klukkustundum. Bíða þarf 2-4 klst. þar til unnt er að skanna beinin. Geislaskammturinn er mjög lítill og felur ekki í sér meiri hættu en venjuleg röntgenmynd.
Beinmyndandi frumur er aðallega að finna í þeim svæðum líkamans sem hafa orðið fyrir skemmdum vegna sjúkdóma – þar sem frumur eru önnum kafnar við að búa til nýtt bein til að „stoppa í götin”. Með því að nota sérstaka myndavél geta læknar komið auga á svæði þar sem mikil starfsemi frumna á sér stað (sem er algengt bæði þar sem krabbamein er fyrir hendi og liðagigt) með því að greina gammageisla frá efninu sem var sprautað í líkamann. Þessi svæði birtast sem dökkir blettir á filmu. Hvaða hluti beina sem vera skal getur hafa orðið fyrir skemmdum af völdum krabbameins, en mikið af þeim breytingum sem sjást á myndum eru ekki af völdum krabbameins.
Þegar um liðagigt eða slitgigt er að ræða birtist geislavirka efnið á yfirborði liðamótabeina, ekki inni í beininu. Stundum getur reynst erfitt að greina liðagigt frá krabbameini – einkum í hrygg. Það er vegna þess hve hryggurinn er gerður úr mörgum smáum beinum og hryggjarliðum. Af þeim sökum getur reynst nauðsynlegt að rannsaka nánar breytingar sem vart verður í hrygg.
Beinaskann er notað til að rannsaka viðvarandi og vaxandi verki í beinum hjá konum með ífarandi brjóstakrabbamein. Þótt engra einkenna hafi orðið vart er beinaskann hugsanlega liður í fyrstu greiningu til að athuga hvort allt sé í lagi með beinin og fá fram myndir sem hægt er að nota til viðmiðunar síðar meir.
Engin ástæða er til að láta skanna bein reglulega hafi engra einkenna orðið vart. Rannsóknin er kostnaðarsöm og tímafrek og rannsóknir hafa sýnt að það eykur hvorki lífsgæði né lífslíkur að fara í hana. Finnir þú hins vegar fyrir stöðugum verk í baki eða fótleggjum, getur það stappað í þig stálinu að fá beinin skönnuð og gengið úr skugga um að engar breytingar sjáist þegar gamlar myndir eru bornar saman við nýjar. Bakverkur hrjáir marga, en hjá þeim sem einhvern tíma hefur greinst með brjóstakrabbamein getur hann valdið miklum kvíða.
Skönnun beina er óþörf hafi kona greinst með setmein eingöngu (ekki ífarandi brjóstakrabbamein)
Nauðsynlegt er að vita að beinaskann í því skyni að kanna hvort meinvörp í beinum eru fyrir hendi er ekki sama og beinþéttnimæling. Með henni er mæld þéttni beina og hætta á beinþynningu (DXA-myndgreining er algengust).
ÞB