Segulómun (MRI)

Segulómun (MRI=Magnetic Resonance Imaging) er öflug greiningaraðferð sem byggist á segulsviði en ekki geislum til að fá fram myndir af líkamanum.

Hvernig segulómskoðun fer fram

Áreiðanlegasta segulómunartæknin byggist á notkun sérstakrar „brjóstaspólu”. Meðan á segulómun stendur liggur konan kyrr og flyst í gegnum þröngan sílvalning um leið og tækið býr til myndir af líkamanum. Fyrir þær sem þjást af innilokunarkennd getur reynst erfitt að vera lokuð inni í tækinu upp undir klukkutíma. Til eru opin segulómunartæki til að losna við þetta vandamál, og stundum eru gefin væg róandi lyf. *Eigi aðeins að mynda brjóstin, tekur myndatakan mun skemmri tíma en ella.

Krabbameinsleit með segulómskoðun

Gildi segulómskoðunar við leit að brjóstakrabbameini er ekki óumdeilt. Sumir læknar telja að hún geti greint brjóstakrabbamein frá venjulegum kirtilvef í brjóstum betur en nokkur önnur tækni. Aðferðin er hins vegar kostnaðarsöm og við hana er notast við afar háþróuð og sérhæfð tæki og vel þjálfaða sérfræðinga.

Jafnvel þegar best lætur gefur segulómun margar ótryggar niðurstöður. Bandarískir geislafræðingar kalla þessi fyrirbæri UBOs, (Unidentified Bright Objects), þ.e.a.s. ljósleit fyrirbæri sem ekki verða borin kennsl á. Ekki er heldur hægt að greina kalkhópa með segulómun. Loks má geta þess að segulómun getur raskað ákveðnum málmhlutum í fólki eins og gangráðum.

Hverjir ættu að fara í segulómskoðun?

Ekki er mælt með því að segulómskoðun sé notuð við venjubundna leit að brjóstakrabbameini (hópleit), heldur einungis í þeim tilfellum þar sem líkur á brjóstakrabbameini eru yfir meðallagi. Það á t.d. við ungar konur sem mikil hætta er á að fái brjóstakrabbamein vegna sterkrar ættarsögu (mörg tilfelli brjóstakrabbameins hjá nánustu skyldmennum) eða vegna þess að þær eru með þekkt meingen (stökkbreyttan arfbera) brjóstakrabbameins (BRCA1 og BRCA2). Einnig má gera ráð fyrir að tæknin komi að góðu gagni við:

  • Að meta ástand konu með áþreifanlegan þrymil sem hvorki kemur fram á brjóstamynd né við ómskoðun.

  • Að meta vefjaóreglu í þéttum kirtilvef ungra kvenna.

  • Til að kanna ástand hins brjóstsins eftir greiningu brjóstakrabbameins í öðru hvoru brjóstinu skv. meðmælum Bandaríska krabbameinsfélagsins (the American Cancer Society).

*Árið 2005 var tekið í notkun fullkomið tæki á röntgendeild Landspítala-Háskólasjúkrahúss við Hringbraut í stað hins gamla. Hafa flestar konur með brjóstakrabbameinsgreiningu frá Röntgendeild Krabbameinsfélagsins farið í slíka rannsókn fyrir aðgerð frá haustinu 2006 og hefur hún þegar sannað gildi sitt hér sem annars staðar; fleiri krabbamein finnast stundum í sama brjósti og í nokkrum tilvikum í hinu brjóstinu.


Fleiri kostir segulómunar

  • Segulómun er stundum beitt með góður árangri á konur sem greinast með brjóstakrabbameinsfrumur í eitlum í holhönd en eru ekki með hnút í brjósti sem læknum tekst að þreifa eða greina á röntgenmynd af brjóstinu. Í slíkum tilfellum, þegar læknar myndu í flestum eða öllum tilfellum mæla með að brjóstið yrði fjarlægt, gæti segulómun gert það kleift að finna nákvæma staðsetningu meinsins í brjóstinu. Sé unnt að staðsetja frumæxlið af nákvæmni kann það að fjölga þeim kostum sem konan á í stöðunni. Í stað þess að brjóstið sé allt tekið nægir hugsanlega fleygskurður (aðeins hluti brjóstsins fjarlægður) og eftirfarandi geislameðferð.

  • Með segulómun er hægt að ganga úr skugga um hvort krabbamein er bundið við eitt ákveðið svæði í brjóstinu eða er víðar að finna (margmiðja). Sú vitneskja hefur áhrif á mögulegar meðferðarleiðir. Sé sjúkdómurinn margmiðja, er brjóstnám óhjákvæmilegt. Vitneskjan er einkar mikilvæg þegar konur eru með ífarandi krabbamein frá mjólkurkirtli (bleðilkrabbamein) því að það hefur tilhneigingu til að dreifast um brjóstið og vera margmiðja.

  • Segulómun er gagnleg þegar fylgst er með örvef. Með henni er hægt að leita að marktækum breytingum á fleygskurðarsvæði sem gætu bent til þess að brjóstakrabbameinið hefði tekið sig upp.

  • Með segulómun er hægt að greina leka úr ígræddum púðum með sílíkonfyllingu því aðferðin greinir auðveldlega sílíkonhlaup frá aðliggjandi eðlilegum brjóst- og bringuvef.

  • Þegar um fjarmeinvörp brjóstakrabbameins er að ræða er hægt að meta ástandið með segulómun. Konu með bakverk sem sífellt ágerist eða finnur til máttleysis eða doða í handlegg og fótlegg (ekki bara í höndum og fótum) er hægt að rannsaka með segulómun af bakinu. Segulómun getur gert það mögulegt að greina alvarlega sjúkdóma eins og æxli við mænu eða í heila.


 

mri_m[2]

Stækka mynd

Segulómmyndir sem sýna tvö aðskilin grunsamleg svæði


 

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB