Sameindabrjóstamyndataka (MBI)

Sameindabrjóstamyndataka (MBI= Molecular Breast Imaging) er aðferð við að leita að brjóstakrabbameini sem nú er verið að reyna. Þessi aðferð er einnig kölluð miraluma.  Við sameindamyndatöku er notað nýtt efni til að greina (ísótóbarannsókn) virkar brjóstakrabbameinsfrumur í brjósti og annars staðar í líkamanum. Efnið „lýsir upp" krabbameinssvæði í brjóstinu.  Þegar slík rannsókn fer fram er geislavirku efni sem nefnist technetium 99 sprautað í æð. Efnið gefur frá sér lága geislun og sest á æxli þannig að röntgenlæknar geta greint það á filmum því að krabbameinsfrumur taka upp geislavirk efni í mun ríkara mæli en eðlilegar frumur. Með sérstakri myndavél er brjóstið skannað og leitað að svæðum þar sem geislavirka efnið hefur safnast fyrir.

Enn er verið að prófa þessa aðferð en hún gefur fyrirheit um að hægt verði að greina brjóstakrabbamein hjá konum sem miklar líkur eða meira en í meðallagi eru á að fá sjúkdóminn og eru með þéttan brjóstvef. Hjá konum með þétt brjóst getur verið erfitt að koma auga á æxli á hefðbundnum brjóstamyndum. Á hefðbundnum brjóstamyndum birtist fituvefur sem dökkur flötur en þéttur brjóstavefur sem ljós flötur, eins og gerist með æxli, þannig að ljósi flöturinn getur hulið krabbamein sem kann að vera fyrir hendi.

Í rannsókn sem gerð var á Mayo Clinic (*einni fremstu krabbameinsstofnun Bandaríkjanna) á 940 konum með þétt brjóst sem miklar líkur voru á að fengju brjóstakrabbamein, skilaði MBI betri árangri en venjulegar brjóstamyndatökur í að finna æxli í brjósti. Galli við aðferðina er að mun stærri skammt af geislum þarf við hana en röntgenmyndir af brjóstum. Ný rannsókn er í uppsiglingu þar sem ætlunin er að bera saman sameindabrjóstamyndatöku (MBI) og segulómun (MRI) sem oft er beitt til að finna krabbamein hjá konum með þétt brjóst og miklar líkur á brjóstakrabbameini.

Séu líkur þínar á að fá brjóstakrabbamein nærri meðallagi og brjóstin ekki þétt, er venjuleg röntgenmynd af brjóstunum rétta aðferðin til krabbameinsleitar. Margir læknar telja að fyrir flestar konur sé hefðbundin brjóstamyndataka betri en MBI við leit að hnútum í brjóstum eða æxlum á meðan þau enn eru smávaxin og auðveldara að meðhöndla þau.

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.
ÞB