Að skoða brjóstin sjálf

Ummæli læknis:

„Mesti misskilningurinn í sambandi við brjóstamyndir er sá að með þeim sé hægt að finna öll tilfelli brjóstakrabbameins. Staðreyndin er sú að um 10% krabbameina sem gefa einkenni koma ekki fram á röntgenmynd. Finnirðu fyrir hnút í brjóstinu sem sést ekki á brjóstamynd skaltu tala um það við lækni þinn og fá úr þessu skorið."

—Susan Greenstein Orel, M.D.

Skoðaðu myndir af því hvernig best er að skoða brjóstin.

Að skoða brjóstin sjálf er mikilvægur liður í að finna brjóstakrabbamein snemma og þá eru mestar líkur á að hægt sé að lækna það. Ekki er hægt að finna allar tegundir krabbameins með þessu móti en þetta er engu að síður mjög mikilvægur þáttur í heilsugæslu og umhirðu brjóstanna, eitthvað sem þú getur og ættir að gera. Mörgum konum er meinilla við að skoða sjálfar brjóstin og finnst það til einskis og eiginlega bara pirrandi. Þær finna kannski fyrir einhverju en vita samt ekki hvað það þýðir. Engu að síður er staðreynd að því oftar og betur sem þú skoðar brjóstin, þeim mun betur kynnist þú þeim og með tímanum getur þú auðveldlega fundið hvort eitthvað er öðruvísi en venjulega. Að skoða brjóstin sjálf er mikilvægur þáttur í að vernda heilsuna.

Rannsóknir sýna að með því að konur skoði brjóstin sjálfar og fari árlega í skoðun hjá lækni aukast líkur á að krabbamein finnist snemma. *(Þetta eru tilmæli til bandarískra kvenna.) 

Reyndu að gera þér það að reglu að skoða brjóstin sjálf einu sinni í mánuði til að vita hvernig brjóstin líta út og hvernig þau eru viðkomu öllu jafna. Skoðaðu þau nokkrum dögum eftir blæðingar þegar minnstar líkur eru á að brjóstin séu þrútin og aum. Fáir þú ekki lengur blæðingar, skaltu velja dag sem auðvelt er að muna, t.d. fyrsta eða síðasta dag hvers mánaðar.

Ekki verða miður þín þótt þú teljir þig finna fyrir hnút. Flestar konur eru að jafnaði með nokkra hnúta eða þrymla í brjóstunum. Átta af hverjum tíu hnútum sem eru fjarlægðir úr brjóstum reynast góðkynja og án krabbameins.

Yfirleitt hafa ákveðin svæði sín eigin einkenni: Efst og utanvert á brjóstunum – nálægt holhöndinni – er oft að finna þá hnúta eða þrymla sem eru mest áberandi. Brjóstin neðanverð geta verið viðkomu eins og þar undir sé sandur eða smásteinar. Svæðið undir geirvörtunni getur verið eins og svolítið safn af stórum grjónum eða korni. Annars staðar kunna brjóstin að vera viðkomu eins og þau séu kekkjótt.

Það sem skiptir máli er að kynnast því hvernig ÞÍN eigin brjóst eru viðkomu á mismunandi svæðum. Er eitthvað sem virðist skera sig úr landslaginu (eins og hnullungur eða steinvala á sandströnd)? Hefur eitthvað breyst? Láttu lækni þinn vita af öllum breytingum í brjóstinu sem:

  • Ekki hafa horfið að heilum mánuði (tíðahring) liðnum.

  • Virðast ágerast eða verða meira áberandi.

Vitir þú hvernig brjóstin líta venjulega út og hvernig þau eru viðkomu, getur það komið í veg fyrir að þú þurfir að fara í ónauðsynlega sýnatöku.  Þá fjarlægir læknir lítið sýni úr brjóstvefnum og skoðar eða lætur skoða það í smásjá.

Dagbók getur komið að góðu gagni

Sumum konum finnst gagn að því að skrifa hjá sér þegar þær skoða brjóstin sjálfar. Það má til dæmis gera með því að búa til lítla mynd eða „landakort” af brjóstunum og færa inn á það hvar er að finna þrymla eða ójöfnur. Þessi aðferð getur verið sérlega gagnleg í byrjun og hjálpað þér að muna frá einum mánuði til annars hvernig brjóstin eru venjulega – það sem er „eðlilegt” hjá þér. Ekki er óalgengt að á vissum tíma mánaðarins skjóti einhverjir hnútar upp kollinum og hverfi síðan aftur eftir því sem tíðahringnum vindur fram. Þú þarft þá ekki að láta lækni skoða aðrar breytingar en þær sem vara lengur en heilan tíðahring eða virðast stækka og verða meira áberandi á einhvern hátt.

Læknisskoðun á brjóstum

Sumar konur spyrja sig af hverju þær þurfi að láta lækni skoða á sér brjóstin úr því að þær skoða brjóstin sjálfar reglulega. Rétt er það að konur finna sjálfar flesta hnúta í brjóstunum, en læknir getur fundið hnúta sem konur hafa ekki tekið eftir. Stundum er svo erfitt að finna eitthvað óeðlilegt í brjóstinu með því að þreifa það, að vana manneskju þarf til að átta sig á því. Hnútar, þykkildi, þrymlar, óregluleg lögun – breytingar í brjóstunum sem þú tekur hugsanlega ekki eftir eða heldur að séu „eðlilegar” – geta aðrir fundið sem eru vanir því að skoða alls konar brjóst.

Rannsóknir sýna að regluleg sjálfskoðun brjósta ásamt árlegri skoðun hjá lækni eykur líkur á að brjóstakrabbamein finnist á fyrstu stigum þess.

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

 ÞB