Stafræn tölvusneiðmyndun
Með stafrænni tölvusneiðmynd (Digital Tomosynthesis) er hægt að fá fram þrívíða mynd af brjóstinu með röntgengeislum. Sem stendur er þessi aðferð einungis notuð við rannsóknir.
Stafræn tölvusneiðmynd af brjóstinu er ólík venjulegri brjóstamynd á sama hátt og tölvusneiðmynd (CAT) er ólík venjulegri röntgenmynd af brjósti eða lungum. Mismunurinn er af sama tagi og munurinn á bolta og teiknuðum hring. Boltinn er þrívíður, hringurinn flatur.
Við brjóstamyndatöku eru við hópleit hérlendis alltaf teknar tvær röntgenmyndir af hvoru brjósti frá mismunandi sjónarhorni: fallstefnumynd og skámynd. Við klíníska myndatöku er auk þess alltaf tekin hliðarmynd. Það á einnig við ef kona er kölluð aftur inn í frekari rannsókn eftir hópleit. Við myndatökuna er brjóstið teygt út frá líkamanum, því þrýst saman og haldið föstu á milli tveggja platna til að tryggja að allt brjóstið sjáist. Við venjulega brjóstamyndatöku eru myndirnar teknar á filmu, en við stafræna myndatöku skráist myndin í tölvu. Síðan les röntgenlæknir úr myndunum. Brjóstakrabbamein er þéttara í sér en megnið af aðliggjandi heilbrigðum brjóstvef og birtist sem óreglulegt hvítt svæði.
Hefðbundnar brjóstamyndir eru afar gagnlegar en þær hafa engu að síður vissar takmarkanir sem geta skipt máli:
-
Þrýstingurinn á brjóstið sem nauðsynlegur er til að taka brjóstamynd er óþægilegur. Konum er illa við hann og verður það oft til þess að þær láta undir höfuð leggjast að fara í brjóstamyndatöku.
-
Brjóstvefir leggjast hver yfir annan, minna þó en væri ef brjóstið væri ekki pressað. Brjóstakrabbamein getur dulist inn á milli þessara laga og ekki komið fram á brjóstamynd. Þrýstingur fletur brjóstið út og greiðir vefi sundur þótt ekki sjáist mikill munur nema á litlum sérmyndum.
-
Við brjóstamynd eru aðeins teknar tvær myndir, önnur þvert yfir allt brjóstið úr tveimur áttum: ofan frá og niður úr og hin á ská. Það er svipað og að standa í skógarjaðri og svipast um eftir fugli inni í skóginum. Til að finna fuglinn er vænlegra til árangurs að ganga nokkur skref inn í skóginn og líta í kringum sig við hvert fótmál.
Stafræn tölvusneiðmyndun er ný tegund rannsóknar sem leitast við að útiloka þessi þrjú atriði: óþægindi af klemmunni sem brjóstin eru sett í, krabbamein sem getur dulist milli vefjalaga og fá sjónarhorn (takmarkað „útsýni”).
Með stafrænni tölvusneiðmyndun eru teknar margar röntgenmyndir af hvoru brjósti frá mörgum sjónarhornum. Brjóstinu er hagrætt á sama hátt og við venjulega brjóstamyndatöku en aðeins beitt lítilsháttar þrýstingi – rétt nægilega miklum til að halda brjóstinu kyrru meðan á myndatöku stendur. Röntgenlampinn flyst í sveig umhverfis brjóstið og tekur 11 myndir á 7 sekúndum. Upplýsingarnar flytjast í tölvu þar sem þær eru settar saman til að fá fram skýra og afar nákvæmar þrívíðar myndir af öllu brjóstinu.
Fyrstu niðurstöður tilrauna með stafræna tölvusneiðmyndun lofa mjög góðu. Vísindamenn telja að þessi nýja tækni við myndgreiningu muni auðvelda það að finna brjóstakrabbamein í þéttum brjóstvef og gera krabbameinsleit þægilegri en nú er.
*Að mati yfirlesara þarf þessi tækni sennilega að þróast mun meira til að verða nothæf í almennri leit.
*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.
ÞB