Sýni til frumu- og vefjagreiningar

Myndgreining svo sem brjóstamyndataka og segulómskoðun auk læknisskoðunar getur leitt til þess að grunur vakni um brjóstakrabbamein. Sjúkdómsgreininguna krabbamein þarf að styðja með staðfestingu á að krabbameinsfrumur hafi sést í smásjá. Þess vegna er nauðsynlegt að taka sýni til frumu- og vefjagreiningar. Sóttar eru frumur eða vefur í þann stað líkamans sem talið er að krabbamein kunni að finnast og sýnið skoðað í smásjá.

Sýni gerir læknum kleift að meta stærð, frumugerð og tegund brjóstakrabbameins. Sýni eru tekin úr hverjum þeim stað sem vekur grunsemdir læknis við þreifingu eða af myndum. Yfirleitt er þetta mjög einföld aðgerð. Í Bandaríkjunum eru aðeins um 26% kvenna sem tekið hefur verið úr skurðsýni með krabbamein. Í Svíþjóð aftur á móti, þar sem kostnaðareftirlit er meira, eru aðeins tekin skurðsýni úr allra grunsamlegustu hnútum og reynast um 80% þeirra vera krabbamein (illkynja).

*Þessi háa tala í Svíþjóð, sem hérlendis er 60-70%, byggist á því að áður hefur verið gerð nálarsýnistaka og þannig flokkaður frá fjöldi góðkynja meinsemda.Aðferðir við sýnatöku

Ýmsum aðferðum er beitt til að nálgast sýni úr vef til nánari skoðunar. Gera má ráð fyrir að sú aðferð sé valin sem hefur minnstu mögulegu inngrip í för með sér. Vefur sem fjarlægður hefur verið með þeim aðferðum sem lýst er hér að neðan, er skoðaður í smásjá og leitað að krabbameinsfrumum. Til að fræðast betur um þennan hluta getur þú lesið meira í Að skilja heildarmyndina.

  • Fínnálarsýni úr áþreifanlegum hnútum til frumugreiningar hefur minnst inngrip í för með sér. Fínnálarsýni má taka á læknastofu en reglan er þó sú hérlendis að það sé gert á leitarstöð. Með ástungu eru sóttar frumur með nál sem er hol að innan til greiningar í smásjá. Niðurstöður fást yfirleitt mjög fljótt.

  • Röntgenstýrð ástunga getur verið hvort heldur er með fín- eða grófnál og hefur tíðkast hérlendis frá því um miðjan níunda áratuginn. Með henni urðu nálarsýni áreiðanlegri en verið hafði. Sérstakt stýritæki á röntgentækinu vísar þá leiðina að meini sem finnst ekki með þreifingu (er óáþreifanlegt) en hefur komið fram á brjóstamynd. *Við ómstýrða ástungu er aðferðin sú sama nema notuð er ómsjá í stað röntgentækis. Hérlendis eru nær 99% ástungna á óáþreifanlegum breytingum ómstýrðar.

Langri, mjórri nál er komið fyrir í hnút eða þykkildi með aðstoð röntgentækis sem sýnir hvert nálinni er beint. Frumur eru dregnar út í gegnum holrými í nálinni. Með röntgenmynd er gengið úr skugga um að grunsamlega svæðið sem sást á upprunalegu brjóstamyndunum sé sama svæðið og nálinni var stungið í. Þessari aðferð við sýnatöku fylgja mestu líkurnar á „röngu, neikvæðu svari”, þ.e.a.s sýnið gefur til kynna að allt sé eðlilegt þótt krabbamein reynist vera fyrir hendi. Ástæðan fyrir þessu er líklega sú að nálin hefur ekki náð að krækja í krabbameinsfrumur.

  • Grófnálarsýni fjarlægir heilan vef úr hnút eða þéttingu („pylsu”). Finnist hnúturinn ekki með þreifingu, er hægt að beina nálinni á réttan stað með röntgentæki eða ómtæki. Sjáist meinsemd aðeins við segulómun, er unnt að nota þá tækni til að beina nálinni á réttan stað. Stundum er lítilli málmklemmu komið fyrir í brjóstinu til að merkja staðinn þar sem sýnið var tekið, kynni smásjárrannsókn að leiða í ljós krabbamein og frekari skurðaðgerðar vera þörf.

  • Skurðsýnistaka er meira í ætt við einfalda skurðaðgerð en nálarsýnitaka. Hún hefur í för með sér að fjarlægður er hluti vefjar til sneiðingar og rannsóknar. Oft eru skurðsýni tekin þegar nálarsýni skila ekki óyggjandi niðurstöðum, breytingum á brjóstamyndum ber ekki saman eða hnútur eða grunsamleg útbrot eru of umfangsmikil eða útbreidd til að unnt að fjarlæga þau með einföldum hætti. Mögulegt er að fá falska neikvæða niðurstöðu (ekkert krabbamein) bæði úr nálarsýnum og skurðsýnum. Kosturinn við þessar sýnatökur er hins vegar sá hve fljótt niðurstöður berast. *Skurðsýnistaka er ekki algeng hérlendis en reynist stundum nauðsynleg.

  • Brottnámssýni er flóknasta sýnistakan og sú langalgengasta hérlendis. Með þeirri aðgerð er reynt að fjarlægja allan grunsamlegan vef úr brjóstinu (yfirleitt kallast þetta skurðsýni). Þetta er áreiðanlegasta aðferðin til að fá örugga greiningu og eiga ekki á hættu að fá rangt neikvætt svar. Það veitir líka nokkra hugarró að vita að hnúturinn hefur allur verið fjarlægður. Bæði skurðsýni og brottnámssýni eru tekin á sjúkrahúsi. *Hérlendis einnig á skurðstofu í Domus Medica og konan er staðdeyfð á meðan eða svæfð, en það er algengast hér á landi.

 

*Hérlendis er yfirleitt byrjað á að taka stungusýni, oftast frumusýni með fínni nál en sjaldnar vefjasýni með grófri nál. Ekki er gripið til þess að taka skurðsýni nema óvissa sé enn fyrir hendi eftir sýnatökur með ástungu. Þetta á einkum við ef hnútur kemur ekki fram á myndum en finnst engu að síður við þreifingu (er áþreifanlegur). Hér á landi er mun algengara að tekin séu fínnálarsýni en í Bandaríkjunum og mun það stafa á skorti á frumumeinafræðingum og hugsanlega einnig á sterkri stöðu skurðlækna.


Áður en farið er í sýnatöku

Yfirleitt falla sýnatökur ekki undir bráðaaðgerðir og því hægt að framkvæma þær á tíma sem hentar þér. Flestar konur kjósa þó helst að láta taka sýnin strax eða „helst í gær” til að líða betur andlega. Áður en til sýnatöku kemur er hugsanlegt að læknir fari yfir brjóstamyndirnar með þér, sýni þér grunsamlega svæðið og útskýri hvernig og hvers vegna þarf að taka sýni. *Víða erlendis þarf að undirrita samþykki fyrir sýnatökunni en þannig er því ekki háttað hér á landi.

 

*Málsgreinar merktar stjörnu eru innskot þýðanda byggð á ábendingum yfirlesara.

 ÞB