Ífarandi mein frá mjólkurgangi - IDC

(Invasive Ductal Carcinoma)

Ífarandi mein frá mjólkurgangi (IDC) er algengasta tegund brjóstakrabbameins. Um það bil 80% allra brjóstakrabbameina eru af þessari tegund. Ífarandi táknar að meinið sáir sér eða dreifir í aðliggjandi vefi. Meinið á upptök sín í mjólkurgangi (ductal), leiðslu sem flytur mjólk úr mjólkurkirtlum í geirvörtuna. Carcinoma er sérstakt orð yfir krabbamein sem á upptök sín í húð eða þekjuvef sem liggur að innri líffærum - eins og í brjóstavef. Heitið „ífarandi mein frá mjólkurgangi” vísar þá til þess að krabbameinsfrumur hafa brotið sér leið í gegnum vegg mjólkurganga og sáð sér í brjóstvef. Með tímanum getur krabbamein af þessu tagi dreift sér til eitla og hugsanlega í aðra líkamshluta.

Samkvæmt krabbameinsskrá bandaríska krabbameinsfélagsins, American Cancer Society, greinast rúmlega 180.000 bandarískar konur með ífarandi brjóstakrabbamein á hverju ári. Flest tilfellin greinast sem ífarandi mein frá mjólkurgangi.

Þótt ífarandi krabbamein frá mjólkurgangi kunni að greinast hjá konum á öllum aldri, verður það æ algengara eftir því sem aldurinn hækkar. Samkvæmt sömu heimild eru um tveir þriðju kvenna í þessum hópi 55 ára og eldri þegar þær greinast. Þessi tegund brjóstakrabbameins finnst einnig hjá körlum.

ÞB