Rannsóknir til að ákvarða stig IDC
Stigun er aðferð til að finna út hve langt ífarandi mein frá mjólkurgangi kann að hafa dreifst frá upprunastað. Stig krabbameins er ákvarðað út frá upplýsingum um þrjá þætti:
-
Stærð æxlis,
-
hvort krabbamein hefur sáð sér í eitla og þá hve marga,
-
hvort krabbamein hefur dreifst til annarra hluta líkamans.
Ífarandi brjóstakrabbameini frá mjólkurgangi er lýst á kvarða frá stigi I (byrjunarstig) til stigs IV (langt gengið). Unnt er að lesa meira um stigun krabbameins á síðunni Hin ýmsu stig brjóstakrabbameins.
Út frá læknisskoðun og greiningarmyndum hefur læknir þinn einhverja hugmynd um hvort krabbameinið hefur sáð sér í eitla. Hins vegar mun hann vilja fá það staðfest svo óyggjandi sé hvort krabbamein hefur sáð sér í eitla með því að láta taka einn eða fleiri eitla og láta rannsaka þá.
Þegar hér er komið mun læknirinn leita vísbendinga um hvort ífarandi krabbameinsfrumur hafa sáð sér í aðra hluta líkamans. Ákveðnar rannsóknir verða gerðar á blóði og lifur og leitað að efni í blóði sem kallast alkalískur fosfatasi. Magnið kann að mælast meira en eðlilegt er hjá fólki sem er með krabbamein í lifur eða beinum. Útkoman úr þessum rannsóknum, læknisskoðun og einkennum sem þú kannt að hafa frá að segja ræður því hvort farið er út í að gera fleiri rannsóknir til að kann ástand líkamans. Yfirleitt er tekin röntgenmynd til að kanna ástand lungna. Aðrar rannsóknir eru háðar hverju einstöku tilfelli. Meðal þess sem kann að verða beðið um er:
-
Beinaskann. Þá er tekin mynd af beinum eftir að sprautað er örlitlu af geislavirku efni í líkamann.
-
Tölvusneiðmynd (CT), ómskoðun eða segulómun eru aðferðir til að mynda kviðarhol og önnur svæði líkamans.
-
PET/CT skann er ný tækni sem myndar starfsemi frumna og getur því skorið úr um hvort grunsamlegur blettur er t.d. örvefur (dauðar frumur) eða lifandi, starfsamar frumur og kannað með því hvort brjóstakrabbamein hefur dreift sér í aðra hluta líkamans. *Þessi tækni er ekki fyrir hendi hérlendis enn sem komið er.
Rannsóknir sem þessar þjóna því aðeins tilgangi að grunur leiki á að brjóstakrabbamein kunni að hafa sáð sér í aðra hluta líkamans. Algengustu líffæri eða líkamshlutar sem IDC dreifist í eru bein, lifur, lungu og/eða heili.
*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.
ÞB