Rannsóknir til greiningar á IDC


3-8

Stækka mynd

Ífarandi krabbamein frá mjólkurgangi (IDC) og stækkað þversnið af mjólkurgangi.

Þversnið brjósts:
A Mjólkurgangur
B Mjólkurkirtill
C Víkkaður mjólkurgangur fyrir mjólk
D Geirvarta
E Fita
F Stóri brjóstvöðvinn
G Bringa/rifjahylki

Stækkun
A Eðlileg fruma í mjólkurgangi
B Krabbameinsfruma í mjólkurgangi að brjóta sér leið út úr grunnhimnunni.
C Grunnhimna (þekjuvefur)


Til að greina ífarandi mein frá mjólkurgangi er yfirleitt stuðst við nokkrar rannsóknir, þar á meðal læknisskoðun (þreifingu) og greiningarmyndatökur:

 • Læknisskoðun (þreifing) á brjóstum. Hugsanlega finnur læknir þinn lítinn hnút í brjóstinu við skoðun. Hann þreifar einnig eitlana í holhöndinni og hálsinn fyrir ofan viðbein til að athuga hvort bólgu verður vart eða óvenjulegra breytinga.

 • Brjóstamyndataka: Yfirleitt finnst ífarandi mein frá mjólkurgangi með brjóstamyndatöku, en þá er tekin röntgenmynd af brjóstinu. Brjóstamyndatökur eru einnig notaðar til að leita að snemmbúnum merkjum um brjóstakrabbamein hjá konum sem virðast heilbrigðar (hópleit á leitarstöð). Eitt af aðaleinkennunum eru oddmjóar totur sem koma fram á filmunni og birtast sem afbrigðilegur blettur með totum út úr sem minna á fingur. Þessar totur sýna íferð krabbameins í aðra vefi.

  Komi í ljós grunsamlegir blettir eru oft teknar fleiri myndir af svæðinu til að afla frekari gagna. Bæði brjóstin eru mynduð.

 • Ómskoðun. Með ómskoðun, þar sem hljóðbylgjum er varpað af brjóstinu, má fá frekari mynd af vefnum og er hún iðulega framkvæmd í framhaldi af brjóstamyndatöku.

 • Segulómun (MRI). Segulsvæði, útvarpsbylgjur og tölva eru notuð til að fá myndir af vefjum inni í líkamanum. Í sumum tilfellum fer læknir fram á segulómun brjóstsins til að fá nánari upplýsingar um grunsamlegan blett í brjóstinu.

 • Sýni til frumu- eða vefjargreiningar. Sýni brjóstamyndir eða aðrar greiningarmyndir eitthvað grunsamlegt, verður að öllum líkindum tekið sýni. Með sýnatöku er tekinn hluti eða allur hinn grunsamlegi blettur og hann rannsakaður af meinafræðingi undir smásjá.

Verði því við komið mun læknirinn taka sýni á fljótvirkasta hátt sem einnig hefur í för með sér minnst inngrip:

 • Fínnálarsýni. Með ástungu eru sóttar frumur til greiningar í smásjá með nál sem er hol að innan. Niðurstöður fást yfirleitt mjög fljótt.

 • Grófnálarsýni. Með grófari nál er fjarlægður heill vefur úr hnút eða þéttingu („pylsa”). Til að koma nálinni í gegnum húðina þarf að gera örlítinn skurð sem skilur eftir sig lítið ör sem er orðið ósýnilegt eftir nokkrar vikur.

Finnist hnútur ekki með þreifingu má nota stýritæki á röntgentækinu til að vísa leiðina að meininu. Einnig er stuðst við ómstýrða ástungu, en þá er ómsjá notuð í stað röntgentækis. *Hérlendis eru nær 99% ástungna á óáþreifanlegum breytingum ómstýrðar.

Takist ekki að ná frumum eða vef með venjulegri ástungu eða niðurstöðurnar reynast ekki óyggjandi, getur þurft að framkvæma flóknari sýnistöku. Þannig sýnistaka er meira í ætt við einfalda skurðaðgerð en nálarsýnitaka.

 • Skurðsýnistaka: Fjarlægður er hluti vefjar til sneiðingar og rannsóknar.

 • Brottnámssýni: Með þessari aðgerð er reynt að fjarlægja allan grunsamlegan vef úr brjóstinu.

Þessar sýnistökur eru gerðar í því skyni eingöngu að fá fram greiningu. Greinist ífarandi mein í mjólkurgangi þarf að gera frekari skurðaðgerð til að tryggja að allt æxlið hafi verið fjarlægt með „hreinum skurðbrúnum” sem þýðir að rönd af heilbrigðum vef umhverfis æxlið er einnig fjarlægð. Oftast þýðir þetta að tekin er fleygur úr brjóstinu, eða eins og stundum gerist, allt brjóstið er tekið. Til að fá nánari upplýsingar um þessar rannsóknir, geturðu farið inn á Krabbameinsleit og rannsóknir.

ÞB