Lyfjameðferðir: Frumudrepandi lyf, andhormónalyf, marksækin lyf
Ólíkt staðbundnum meðferðum sem beinast að svæði, einu eða fleiri, þar sem ífarandi krabbamein hefur fundist, hafa lyf áhrif á allan líkamann. Meðferðir sem felast í að gefa krabbameinslyf, andhormónalyf eða marksækin lyfin eru til þess að eyða krabbameinsfrumum sem kunna að hafa orðið eftir þegar frumæxlið var fjarlægt, svo og að draga úr hættu á að krabbameinið taki sig upp.
Frumudrepandi lyf
Meðferð með krabbameinslyfjum felst í að gefin eru frumudrepandi lyf, ýmist í æð eða um munn ef þau eru í pilluformi. Oft eru tvö eða fleiri krabbameinslyf gefin samtímis. Lyfið berst með blóðrásinni til allra líkamshluta. Krabbameinslyf eyðileggja krabbameinsfrumur, en þau geta einnig eyðilagt sumar af heilbrigðum frumum líkamans og þá má gera ráð fyrir aukaverkunum.
Sé ífarandi brjóstakrabbameinsæxli frá mjólkurgangi stærra en 1 sentímeter í þvermál og/eða hefur sáð sér í holhandareitla, er yfirleitt mælt með krabbameinslyfjameðferð. Þegar krabbameinslyf eru gefin eftir skurðaðgerð kallast meðferðin stuðnings- eða viðbótarmeðferð. Í þeim tilfellum þar sem æxlið er stórt eða krabbameinsfrumur hafa sáð sér í marga holhandareitla eða til annarra hluta líkamans, eru krabbameinslyf stundum gefin fyrir skurðaðgerð til að minnka æxlið eða sem formeðferð. Hvort heldur sem er, eru lyfin gefin í s.k. lyfjarhringjum sem þýðir að lyf eru gefin í einn eða fleiri daga samfellt og síðan fer hvíldartímabil á eftir. Nákvæm stundaskrá getur verið breytileg eftir því hvaða lyf er notað, eitt eða fleiri. Yfirleitt tekur meðferð með krabbameinslyfjum í allt um það bil þrjá til sex mánuði.
Sem dæmi um krabbameinslyf sem geta komið til greina þegar meðhöndla þarf ífarandi mein frá mjólkurgangi má nefna:
-
doxorubicin (Adriamycin®)
-
epirubicin (Ellence®)
-
cyclophosphamide (Cytoxan®)
-
docetaxel (Taxotere®)
-
paclitaxel (Taxol®)
-
capecitabine (Xeloda®)
-
ixabepilone (Ixempra®)
-
methotrexate
-
fluroauracil (líka kallað 5-FU eða 5 fluorouracil)
Í samráði við þig ákveður læknir þinn hvers konar lyfjameðferð er vænlegust til árangurs í þínu tilfelli. Það kann að fara eftir einkennum meinsins og öðrum atriðum sem snerta heilsufar þitt. Hafir þú einhvern tíma strítt við hjartakvilla eða ert með einhverja áhættuþætti hjartveiki, viljið þið sjálfsagt bæði forðast lyf sem geta haft áhrif á hjartað. Einnig hefur áhrif á ákvörðunina hvort meinið hefur reynst HER2-viðtaka-jákvætt, þ.e.a.s. hvort á krabbameinsfrumum er að finna óeðlilegan fjölda HER2-viðtaka. Sum krabbameinslyf eins og Taxol® og Cytoxan®, eru notuð oftar en önnur með lyfinu Herceptin® þegar meðhöndla á HER2-jákvætt brjóstakrabbamein.
Rannsóknir til að kanna þörf á krabbameinslyfjum
Sértu með lítið æxli á byrjunarstigi ífarandi meins frá mjólkurgangi sem ekki hefur sáð sér í holhandareitla og meiningin að þú takir inn andhormónalyf (sjá neðar), er ekki óeðlilegt að þú spyrjir hvort virkilega sé nauðsynlegt að fara einnig í meðferð með krabbameinslyfjum. Þið læknir þinn þurfið að ræða hvort meðferð með frumudrepandi lyfjum sé hið rétta í þínu tilfelli. Farið er að bjóða upp á tvenns konar rannsóknir (*ekki þó hérlendis enn sem komið er). Með þeim eru kannaðar líkur á að meinið taki sig upp aftur. Þetta eru s.k. genamengisrannsóknir, önnur kallast Oncotype DX, hin MammaPrint. Ákveðnir erfðavísar sem finnast í æxlinu eru rannsakaðir til að meta líkur á að mein taki sig upp. Bendi niðurstöður til að líkurnar séu miklar telst það gild ástæða til að fara í meðferð með krabbameinslyfjum.
-
Oncotype DX er meira notað en MammaPrint í Bandaríkjunum. Tekið er sýni úr æxlinu til að greina starfsemi ákveðinna erfðavísa, 21 að tölu. Rannsóknin gefur til kynna líkur á að mein taki sig upp á næstu tíu árum á kvarðanum 0 til 100. Niðurstaðan 17 eða minna er talin sýna litlar líkur á að mein taki sig upp. Sýni niðurstaðan 31 eða hærra bendir það til að líkurnar séu meiri. Að fá að vita þetta getur hjálpað sumum að ákveða hvort meðferð með krabbameinslyfjum sé næsta skref. Á bilinu 18-31 er líkurnar taldar í meðallagi og þá er það eitthvað sem fólk þarf að finna út úr með lækni sínum. Hægt er að framkvæma Oncotype DX-rannsókn á sýni úr vef sem tekið var úr brjóstinu, ýmist sem fyrsta grófnálarsýni eða við skurðmeðferð.
-
MammaPrint er rannsókn sem verður æ algengari í Evrópu. Með henni er könnuð starfsemi 70 erfðavísa í RNA-sýni (ríbósakjarnsýru) sem tekið er úr æxlisvef. Með rannsókninni er búið til líkan sem lýsir líkum á að mein taki sig upp sem litlum, miðlungs eða miklum, ýmist eftir 5 ár eða 10 frá því að rannsóknin er gerð. Ólíkt Oncotype DX þarf að meðhöndla vefjarsýnið á sérstakan hátt um leið og það er tekið.
Unnið er að klínískum rannsóknum á báðum þessum aðferðum. Stærsta Oncotype DX-rannsóknin nær til um tíu þúsund kvenna í Bandaríkjunum og Kanada og markmiðið að komast að því hvort konur með niðurstöður í á bilinu 11 til 25 - sem eru litlar eða miðlungslíkur – hafi gagn af því að fá krabbameinslyf til viðbótar við andhormónalyf.
Andhormónalyf
Sé að finna hormónaviðtaka á krabbameinsfrumum eru miklar líkur á að krabbameinslæknirinn mæli með andhormónameðferð. Í sumum tilfellum þar sem ífarandi mein frá mjólkurgangi er langt gengið, eru andhormónalyf gefin áður en gripið er til skurðmeðferðar í því skyni að minnka æxli. Yfirleitt hefst andhormónameðferð þó fyrst eftir að öðrum meðferðum líkur, svo sem með krabbameinslyfjum eða geislum, nema þeirra sé ekki talin þörf.
Hormónaviðtakar eru sérstök prótín sem finnast á yfirborði ákveðinna frumna um allan líkamann, þar á meðal brjóstafrumna. Þessi viðtakaprótín eru „augu” og „eyru” frumnanna. Þau taka við boðum frá hormónum sem berast með blóðrásinni og gefa fyrirmæli um hvað frumum beri að gera. Með öðrum orðum eru viðtakar eins og rofi á frumum sem ýmist er kveikt á eða slökkt. Berist rétta efnið sem passar á viðtakann – eins og lykill sem gengur að skrá – fer ákveðin starfsemi í frumunni í gang. Þegar brjóstafrumur eru með hormónaviðtaka geta hormónarnir estrógen og/eða prógesterón fest sig á viðtakana og sagt frumunni að vaxa og skipta sér. Margar brjóstakrabbameinsfrumur eru með mikinn fjölda viðtaka fyrir estrógen, prógesterón eða hvort tveggja. Það þýðir að séu þessir hormónar á staðnum, taka frumurnar við mjög ákveðnum skilaboðum um að vaxa og skipta sér – og þannig verða fleiri krabbameinsfrumur til. Séu hormónarnir fjarlægðir eða lokað fyrir þá, missa krabbameinsfrumurnar þessa vaxtarhvatningu og líkurnar minnka á að þær geti lifað.
Andhormónameðferð sem einnig kallast and-estrógen-meðferð, byggist á því að minnka magn estrógens í líkamanum eða koma í veg fyrir að estrógen geti sent vaxtarboð til brjóstakrabbameinsfrumna. Þið læknir þinn ákveðið í sameiningu hvaða andhormónameðferð muni koma þér að mestu gagni miðað við aðstæður þínar. Tvær tegundir andhormónalyfja eru algengastar:
-
SERM-lyf (upphafsstafirnir í orðunum Selective Estrogen-Receptor Response Modulators): Þekktasta SERM-lyfið er tamoxifen. Tamoxifen „þykist” vera estrógen og tekur sæti estrógens á viðtökunum. Þar af leiðandi berast frumunum engin vaxtarboð. Önnur SERM-lyf eru til dæmis raloxifene (Evista®) og toremifene (Fareston®). Yfirleitt er mælt með tamoxifeni við konur sem ekki eru komnar úr barneign þótt konur sem komnar eru yfir tíðahvörf geti einnig notað það.
-
Aromatase-hemlar: Þessi lyf - en meðal þeirra eru anastrozole (Arimidex®), exemestane (Aromasin®) og letrozole (Femara®) – minnka magn estrógens sem verður til í kvenlíkamanum eftir tíðahvörf. Helsta uppspretta estrógens hjá konum komnum úr barneign eru nýrnahetturnar og fituvefur, ekki eggjastokkarnir.
Meðal annarra andhormónameðferða eru:
-
ERD-lyf (upphafsstafirnir í Estrogen-Receptor Downregulators). Þessi lyf eyðileggja estrógenviðtakana á frumunum og þar með komast engin vaxtarboð til þeirra. Fulvestrant (Faslodex®) er ERD-lyf sem gefið er konum komnum úr barneign með brjóstakrabbamein á síðari stigum.
-
Að loka fyrir starfsemi eggjastokka eða fjarlægja þá: Eggjastokkarnir eru aðaluppspretta estrógens í líkama kvenna á meðan þær eru í barneign. Að stöðva starfsemi þeirra um stundarsakir eða jafnvel fyrir fullt og allt getur dregið úr estrógenmagni í líkamanum. Aðferðir við það eru m.a.:
-
-
Að gefa lyf eins og goserelin (Zoladex®) og leuprolide (Lubron®). Þau eru gefin með sprautu einu sinni í mánuði í nokkra mánuði til að stöðva estrógenframleiðslu eggjastokkanna.
-
Að nema brott eggjastokkana með skurðaðgerð.
-
HER2-marksækin lyf
Þegar ífarandi mein frá mjólkurgangi greinist HER2-jákvætt þýðir það að frumurnar framleiða of mikið af prótíni sem kallast HER2 og að jafnframt eru of margir HER2-viðtakar á yfirborði þeirra. Þar sem viðtakarnir eru of margir, nema brjóstakrabbameinsfrumurnar of mörg vaxtarboð og taka að vaxa úr hófi og of hratt. Ein leið til að hægja á eða stöðva vöxt krabbameinsfrumnanna er að loka fyrir viðtakana á yfirborði þeirra þannig að þeim berist ekki öll þessi vaxtarboð. Það er unnt að gera með lyfinu trastuzumab (Herceptin®). Herceptin® verkar á yfirborði krabbameinsfrumna þannig að það lokast fyrir efnaboð sem geta örvað hömlulausan frumuvöxt. Herseptín er hægt að nota til meðferðar í 1 af hverjum 4 tilfellum brjóstakrabbameins sem eru HER2-jákvæð. Lyfin eru yfirleitt gefin um æð einu sinni í viku í eitt ár eftir skurðmeðferð. Í sumum tilfellum þar sem ífarandi mein frá mjólkurgangi er langt gengið, má gefa herseptín fyrir skurðmeðferð til að minnka æxli. Herseptín kann að valda hjartaskaða og því er ekki mælt með því í tilfellum þar sem hjartakvillar eru fyrir hendi eða áhættuþættir hjartveiki. Yfirleitt er herseptín ekki heldur gefið með frumudrepandi lyfjum sem geta haft áhrif á hjartað. Lyfið lapatinib (Tyverb®) er nýlegri tegund and-HER2-lyfs sem verkar inni í frumunni en ekki á yfirborði hennar eins og herseptín. Inni í HER2-jákvæðum brjóstakrabbameinsfrumum, nota HER2-viðtakar prótínboð, s.k. kínasa, til að fá frumuna til að vaxa og skipta sér óeðlilega. Kínasar stjórna því hve mikla orku frumurnar fá til að vaxa og skipta sér. Brjóstakrabbameinsfrumur með yfirtjáningu HER2 geta haft of mikla virkni kínasa, þannig að frumurnar vaxta úr hófi og of hratt. Tyverb® virkar þannig að það truflar HER2-tengdu kínasana inni í frumunni og takmarkar orkumagnið sem berst til frumunnar. Þannig hefur lyfið áhrif á vaxtarmátt og viðgang hennar. Tyverb® er tekið um munn og yfirleitt ekki gefið um æð. Sem stendur má nota Tyverb® ásamt frumudrepandi lyfinu capecitabine (Xeloda®) til að meðhöndla langt gengið HER2-jákvætt brjóstakrabbamein þar sem meðferð með öðrum frumudrepandi lyfjum og herseptíni er hætt að virka.
Önnur marksækin lyf
Eins og af andhormónalyfjum og HER2-marksæknu lyfi, eru til fleiri gerðir marksækinna lyfja sem þjóna þeim tilgangi að trufla ákveðna starfsemi brjóstakrabbameinsfrumna sem þær þarfnast sér til vaxtar og viðgangs. Dæmi um slíkt lyf er bevacizumab (Avastin®), lyf sem ræðst á prótín sem kallast VEGF (upphafsstafirnir í ensku orðunum Vascular Endothelial Growth Factor). Hlutverk þessa vaxtarþáttar er að örva krabbameinsfrumur til að mynda nýjar æðar (nýmyndun æða). Krabbameinsfrumur þurfa að mynda nýjar æðar til þess að þeim berist súrefni og þau næringarefni sem þær þarfnast sér til vaxtar og viðgangs. Avastin® virkar þannig að það hengir sig á VEGF prótínið og getur þannig komið í veg fyrir að myndun og vöxtur nýrra æða örvist. Unnt er að nota Avastin® ásamt frumudrepandi lyfi sem heitir paclitaxel (Taxol®) til að meðhöndla langt gengið brjóstakrabbamein. Enn er verið er að vinna að klínískum rannsóknum á þessu og fleiri marksæknum lyfjum. Meiri fróðleik má finna í Marksækin meðferð.
ÞB