Staðbundnar meðferðir: Skurðmeðferð og geislameðferð

Þegar ífarandi brjóstakrabbamein greinist er skurðaðgerð óhjákvæmileg, ekki aðeins til að fjarlægja æxlið sjálft heldur einnig til að fá staðfest hvort krabbamein hefur sáð sér í eitla eða ekki. Læknir ákveður í samráði við þig hvers konar skurðmeðferð er heppilegust miðað við stig og gráðu meinsins og önnur atriði sem taka þarf tillit til í þínu tilfelli. Yfirleitt er skurðaðgerð fyrsta meðferð við ífarandi meini frá mjólkurgangi. Hitt er annað mál, að sé æxlið stórt eða krabbameinsfrumur sáð sér í marga eitla eða aðra líkamshluta, er hugsanlega gripið til annarra meðferða svo sem með krabbameinslyfjum eða móthormónalyfjum til að minnka æxlið áður en til skurðaðgerðar kemur.

Skurðmeðferð

Skurðmeðferðir eru mismunandi:

 • Fleygskurður: Skurðlæknir fjarlægir aðeins æxlið („hnútinn”) og svolítið af heilbrigðum aðliggjandi vef. Stundum eru einnig fjarlægðir eitlar úr holhönd til rannsóknar.

 • Brjóstnám:

  • Sneiðskurður (fjórðungsskurður): Þá fjarlægir skurðlæknir þann hluta eða þá sneið úr brjóstinu þar sem æxlið er að finna. Í sumum tilfellum þarf að taka allt að fjórðung brjóstsins. Einhverjir eitlar kunna að verða fjarlægðir í leiðinni.

  • Einfalt (fullt) brjóstnám: Eingöngu er fjarlægður brjóstvefur, án þess að fjarlægja eitla eða vöðvavefinn undir brjóstvefnum.

  • Breytt róttækt brjóstnám: Brjóstið er allt fjarlægt, himna bringuvöðva og holhandareitlar, fleiri eða færri.

Til er önnur tegund brjóstnáms sem kallast róttækt brjóstnám. Þá er allur vöðvavefur undir brjóstinu fjarlægður. Þannig aðgerðir eru mjög sjaldan gerðar nú orðið því að aðrar skurðmeðferðir eru taldar jafn árangursríkar.

Sértu á leið í brjóstnám er mögulegt að þú ákveðir að láta einnig byggja upp brjóstið. Það er gert með sérstakri skurðaðgerð. Oft má búa til nýtt brjóst um leið og brjóstnámið er framkæmt, en það má einnig gera síðar. Þetta er eitthvað sem þið læknir þinn þurfið að ræða.

Skurðlæknir þinn mun ræða við þig um hvort fjarlægja þurfi einn eða flerii af eitlum í holhönd til að komast að því hvort krabbameinið hafi dreift sér. Sé svo, eru meiri líkur á að krabbameinsfrumur hafi sáð sér til annarra líkamshluta. Eitlarnir eru hluti af hreinsikerfi líkamans. Þeir fjarlægja bakteríur og óæskileg efni úr líkamanum. Brjóstakrabbameinsfrumur geta brotið sér leið út í holhandareitla og þar með fundið sér farveg annað með sogæðavökva. Því er afar mikilvægt að vita hvort einhverjar brjóstakrabbameinsfrumur er að finna í eitlum þegar velja á bestu hugsanlega meðferð.

Í þeim tilfellum þar sem æxlið er mjög smávaxið og önnur einkenni ekki fyrir hendi þannig að læknirinn er sannfærður um að meinið hafi ekki dreift sér, er því sleppt að kanna ástand eitla í holhönd. Að öðrum kosti verður að gera ráð fyrir eftirfarandi sem hluta af skurðmeðferðinni:

 • Varðeitlagreining (sýnistaka): Skurðlæknir leitar að eitlinum sem liggur næst brjóstinu – „varðeitlinum” – sem síar sogæðavökva úr brjóstinu þar sem krabbamein er að finna. Finnist krabbameinsfrumur sem greina sig frá æxlinu og sá sér útfyrir brjóstið um sogæðakerfið, er varðeitillinn líklegri til að innihalda krabbameinsfrumur en aðrir eitlar í holhöndinni. Skurðlæknar nota sérstakt litunarefni (örlítið geislavirkt) eða sporefni til að koma auga á fremsta eitilinn og næstu eitla sem efnið fer í gegnum. Eitlarnir eru fjarlægðir og sendir í rannsókn. Úrskurði meinafræðingur að engar krabbameinsfrumur sé að finna í eitlum, er frekari skurðmeðferð óþörf. Finnst krabbameinsfrumur þarf að taka fleiri eitla úr holhöndinni, ýmist strax eða síðar.

Varðeitlasýnistaka er tiltölulega ný aðferð og því nauðsynlegt að skurðteymið hafi reynslu af henni. Þessi aðferð kann að vera sú rétta í þínu tilfelli, hafi skurðlæknir (eða krabbameinslæknir) ástæðu til að ætla að krabbamein hafi ekki náð að berast í eitlana eða a.m.k. aðeins örfáa.

 • Eitlanám. Skurðlæknir fjarlægir klasa af eitlum úr holhönd og lætur rannsaka þá. Eftir skurðaðgerðina verður þér sagt hvort fundist hafa krabbameinsfrumur í eitlum og þá hve mörgum og hve mikið í hverjum eitli.

Eitlanámi fylgir hætta á sogæðabólgu í handleggnum. Með varðeitlagreiningu minnka líkur á sogæðabólgu. Margar leiðir eru færar í því skyni að minnka hættu á sogæðabólgu eða ráða við hana, ef til hennar kemur.

Geislameðferð

Við geislameðferð er sterkum geislum beint að brjósti, bringu, holhond, og eða viðbeinssvæði í því skyni að tortíma ífarandi krabbameinsfrumum sem kunna að hafa orðið eftir þegar æxli var fjarlægt. Meðferðin minnkar ennfremur líkur á að meinið taki sig upp (endurkoma krabbameins). Oftast er mælt með geislameðferð eftir skurðaðgerðir þar sem heilbrigður vefur er látinn óáreittur, eins og við fleygskurð eða sneiðskurð (fjórðungsskurð). Einnig má mæla með geislameðferð eftir brjóstnám, einkum hafi æxlið reynst stórvaxið (meira en 5 sentímetrar) og/eða krabbameinsfrumur hafa fundist í eitlum. Geislameðferð getur verið af ýmsu tagi:

 • Útvortis geislun. Notað er tæki, s.k. línuhraðall, sem skammtar meðferðargeislana. Meðferðinni er beint að öllu brjóstinu eftir fleygskurð, að hörundi og vöðvavef þar sem brjóstnám var framkvæmt og hugsanlega einnig að hverju því eitlasvæði þar sem krabbameinsfrumur hafa fundist. Útvortis geislar eru gefnir alla virka daga í 5 til 7 vikur.

 • Innvortis geislun á hluta brjóst eða stuttgeislun felst í að koma fyrir um stundarsakir litlu hylki með geislavirku efni þar sem æxlið var að finna, áður en það var fjarlægt, eða í nánd við þann stað.

 • Útvortis geislun á hluta brjósts felst í að beina geislum eingöngu að því svæði þar sem æxlið var. Þar er mest hætta á að meinið taki sig upp. Að geisla aðeins hluta brjóstsins tekur aðeins 5 til 10 daga, en að geisla allt brjóstið tekur 5 til 7 vikur.

Rannsakendur eru að kanna árangur af því að geisla aðeins hluta brjóstsins eftir fleygskurð og bera saman við árangur af að geisla allt brjóstið sem er hin viðtekna aðferð. Þar sem enn er verið að kanna aðferðina er henni óvíða beitt.

Hvernig geislameðferð þú færð er eitthvað sem þú ættir að geta rætt við lækni þinn.

ÞB