Frekari rannsóknir á ILC
Frekari rannsóknir eru gerðar á æxlisvef til að afla upplýsinga um hvernig líklegt er að krabbameinið muni haga sér og hvaða meðferðir muni skila bestum árangri. Dæmi um slíkt er m.a.:
-
Gráða: Meinafræðingur skoðar krabbameinsfrumur í smásjá til að kanna í hve miklum mæli þær víkja frá heilbrigðum frumum í útliti og hegðun. Því lægri sem gráðan er, þeim mun meira líkjast krabbameinsfrumum eðlilegum frumum, þær vaxa hægar og minni líkur eru á að þær dreifi sér. Ífarandi krabbamein frá mjólkurgangi getur verið af þremur mismunandi gráðum: lágri (gráðu 1), miðlungs (gráðu 2) eða hárri (gráðu 3).
Stundum er sagt að ífarandi krabbameinsfrumur frá mjólkurgangi af lágri gráðu (1) séu „vel sérhæfðar" og í útliti líkjast þær nokkuð heilbrigðum brjóstafrumum. Á sama hátt er sagt að 3. gráðu frumur séu „lítt eða illa sérhæfðar". Þær eru mun óeðlilegri í útliti og hegðun.
-
Skurðbrúnir: Þegar krabbameinsfrumur eru fjarlægðar úr brjóstinu reynir skurðlæknirinn að ná öllu æxlinu ásamt viðbótarrönd - „spássíu" - af heilbrigðum vef. Er það gert til þess að öruggt sé að krabbameinið hafi allt verið fjarlægt. Skurðbrúnir eru rannsakaðar vandlega til að ganga úr skugga um hvort í þeim finnist krabbameinsfrumur.
Meinafræðingur mælir einnig fjarlægð á milli krabbameinsfrumna og ystu randar á fjarlægðum vef. Skurðbrúninni - spássíunni - má lýsa á þrjá mismunandi vegu:
Neikvæð: Engar krabbameinsfrumur eru sjáanlegar í ystu brún. Yfirleitt er ekki þörf á frekari skuðaðgerð.
Jákvæð: Krabbameinsfrumur ná alveg út að ystu brún vefjar. Nauðsynlegt verður að skera aftur.
Tæp: Krabbameinsfrumur eru mjög nærri ystu brún, en ekki í brúninni sjálfri. Nauðsynlegt getur reynst að skera á ný.
Hvað kallast „neikvæð" (eða „hrein" skurðbrún) kann að vera mismunandi frá einu sjúkrahúsi til annars. Sums staðar vilja læknar sjá að minnsta kosti tveggja millimetra rönd af heilbrigðum vef meðfram æxlinu. Annars staðar kunna læknar að skilgreina „hreina skurðbrún" ýmist sem minna eða meira en 2 mm. Þú skalt spyrja lækni þinn um þetta atriði ef þig langar til að vita hvernig þessu er háttað í þínu tilfelli.
-
Hormónaviðtaka rannsókn: Með því að rannsaka vefjarsýni er unnt að sjá hvort á krabbameinsfrumum eru viðtakar fyrir hormónana estrógen og prógesterón. Jákvæð niðurstaða þýðir að estrógen og/eða prógesterón getur örvað vöxt krabbameinsfrumna. Séu hormónaviðtakar fyrir hendi (meinið er hormónaviðtaka-jákvætt) er líklegast að læknir mæli með andhormónameðferð til að draga úr áhrifum estrógens eða minnka magn þess í líkamanum. Meðal þannig lyfja eru tamoxifen og aromatase-hemlar. Sértu enn í barneign kunna aðrir möguleikar að verða ræddir, svo sem lyfjagjöf til að stöðva starfsemi eggjastokka tímabundið eða láta jafnvel fjarlægja þá. Eggjastokkarnir eru sá staður í líkama kvenna sem framleiðir mest estrógen fyrir tíðahvörf.
-
HER2-viðtaka staða: Annars konar rannsókn er gerð til að komast að því hvort brjóstakrabbameinsfrumur framleiða of mikið af prótíni sem kallast HER2 (Human Epidermal Growth Factor Receptor 2). Ef svo er, þá eru einnig of margir HER2 viðtakar á yfirborði frumna. Þegar viðtakar eru of margir fá brjóstakrabbameinsfrumur of mörg vaxtarboð og taka að vaxa og skipta sér óeðlilega hratt. Ein leið til að hægja á eða stöðva vöxt krabbameinsfrumna er að loka á viðtakana þannig að þeim berist ekki vaxtarboð. Þannig virkar lyfið trasuzumab (Herceptin®). Um það bil eitt af hverjum 4 krabbameinstilfellum telst HER2-jákvætt og hægt að veita meðferð við því með herseptíni.
HER2-jákvæð krabbamein má einnig meðhöndla með lyfinu lapatinib (Tyverb®), lyfi sem truflar starfsemi HER2 innan úr frumunni. Lapatinib takmarkar orkuna sem brjóstakrabbameinsfrumur hafa til að vaxa og fjölga sér.
Ofangreindar rannsóknir eru gerðar á vef sem fjarlægður er með skurðsýni eða grófnálarsýni, eða eftir skurðaðgerð þegar skurðbrúnir eru kannaðar. Meiri upplýsingar um þessar og fleiri rannsóknir og niðurstöður þeirra er að finna inni á Greiningin á krabbameini þínu.
ÞB
