Áhættuþættir brjóstakrabbameins karla

Mikilvægt er að átta sig á áhættuþáttum brjóstakrabbameins karla – einkum vegna þess að karlmenn fara ekki reglulega í krabbameinsskoðun á leitarstöð og dettur ekki í hug að þeir geti fengið sjúkdóminn. Þess vegna er brjóstakrabbamein yfirleitt lengra gengið hjá körlum en konum þegar það uppgötvast.

Ýmsir þættir geta aukið líkur karlmanns á að fá krabbamein í brjóstin:

  • Að eldast: Þetta er stærsti áhættuþátturinn. Rétt eins og hjá konum aukast líkur með aldrinum. Meðalaldur karla sem greinast með brjóstakrabbamein er um það bil 67 ár. Það þýðir að helmingur þeirra karla sem greinast er yngri og helmingurinn eldri en 67 ára.

  • Mikið estrógenmagn: Vöxtur brjóstafrumna – bæði eðlilegur og óeðlilegur – örvast af estrógeni. Karlmaður getur verið með mikið af estrógeni sem afleiðingu af:

  • Að taka inn hormónalyf.

  • Að vera of þungur því að það eykur framleiðslu estrógens.

  • Að vera óvarinn fyrir estrógeni úr umhverfi. Þar má nefna estrógen og fleiri hormóna sem gefnir eru nautgripum til að fita þá og ýmis efni sem myndast þegar skordýraeitrið DDT brotnar niður og geta líkt eftir áhrifum estrógens á líkamann.

  • Að neyta mikils áfengis því að það getur dregið úr hæfileikum lifrarinnar til að takmarka estrógenmagn í blóði.

  • Að vera með lifrarsjúkdóm sem yfirleitt leiðir til minna magns karlhormóna (andrógens) og meira magns kvenhormóna (estrógens). Við það aukast líkur á að fá kvenlegt karlbrjóst (gynecomastia = vöxtur brjóstvefjar án krabbameins) svo og brjóstakrabbamein.

  • Kleinfelter heilkenni: Karlmenn með Kleinfelter heilkenni hafa minna magn af karlhormónum (andrógeni) og meira magn af kvenhormónum (estrógeni) en eðlilegt er talið. Því er meiri hætta á að þeir myndi kvenlegt karlbrjóst (gynecomastia = vöxtur brjóstvefjar án krabbameins) og brjóstakrabbamein. Kleinefelter heilkenni er fyrir hendi við fæðingu og finnst hjá um það bil einum karlmanni af hverjum 1.000. Yfirleitt eru karlmenn með einn X-litning og einn Y-litning. Karlmenn með Kleinfelter heilkenni hafa fleiri en einn X-litning (stundum allt að fjórum). Einkenni Kleinfelter heilkennis eru lengri fótleggir, hærri rödd og þynnra skegg en gerist og gengur hjá öðrum karlmönnum, eistu eru eðlileg en minni að vöxtum en gerist og gengur og þeir eru ófrjóir vegna þess að eistun framleiða ekki sæði.

  • Dæmi um brjóstakrabbamein í nánustu fjölskyldu eða genafrávik: Fjölskyldusaga getur bent til aukinnar hættu á krabbameini karla – einkum ef karlmenn í fjölskyldunni hafa greinst með brjóstakrabbamein. Líkur aukast einnig finnist erfðavísir (gen) brjóstakrabbameins í fjölskyldunni. Líkur karla sem erfa afbrigðilegt gen brjóstakrabbameins, BRCA1 eða BRCA2 (BR eru fyrstu stafirnir í BReast – brjóst – og CA fyrstu stafirnir í CAncer – krabbamein) eru einnig meiri en annarra á að fá brjóstakrabbamein. Ævilíkur eru um það bil 6%. Það er um það bil 80 sinnum meiri líkur en karla sem ekki eru með afbrigðilegt BRCA1 eða BRCA2 gen. Þó er það svo að langflest tilfelli brjóstakrabbameins karla greinast hjá karlmönnum sem hvorki eiga sér fjölskyldusögu um brjóstakrabbamein né hafa fæðst með hina afbrigðilegu erfðavísa brjóstakrabbameins.

  • Að verða fyrir geislun: Að þurfa að fara í geislameðferð áður en þrítugsaldri er náð, einkum gerist það á unglingsárum, getur aukið líkur á að fá brjóstakrabbamein. Þetta hefur sést hjá ungu fólki sem hefur fengið geislameðferð við Hodgkins sjúkdómnum. (Þetta á EKKI við um geislameðferð sem fengin er við brjóstakrabbameini.)

 ÞB