Einkenni brjóstakrabbameins karla
Ein rannsókn hefur verið gerð sem sýndi að brjóstakrabbamein karla fer vaxandi. Aukingin var 25% á 25 árum, frá 1973 til 1988. Engu að síður er sjúkdómurinn enn sjaldgæfur. Óljóst er hvort þessi skráða aukning táknar að sjúkdómurinn er smám saman að verða algengari eða hvort einkennin eru betur þekkt og skráð en áður sem leiðir til þess að greindum tilfellum fjölgar, tilfellum sem menn áttuðu sig ekki á hér áður fyrr.
Verðir þú var við breytingar á brjósti sem ekki hverfa innan tíðar, ættir þú að hafa samband við heimilis- eða heilsugæslulækni. Hér eru nokkur atriði sem rétt er að gefa gaum að:
-
hnútur sem þreifast í brjósti,
-
verkur í geirvörtu,
-
geirvarta snýr inn en ekki út,
-
útferð úr geirvörtu (glær eða blóðlituð),
-
sár á geirvörtu og svæðinu umhverfis (á vörtubaug),
-
stækkandi eitlar í holhönd.
Rétt er að gera sér grein fyrir að stækki bæði brjóstin jafnt (ekki bara annað brjóstið), er krabbamein yfirleitt EKKI á ferðinni. Læknisfræðiheitið á þessu fyrirbæri er gyneomastia. Stundum geta brjóstin orðið talsvert stór. Brjóstin geta stækkað af ýmsum ástæðum, t.d. vegna lyfja, mikillar áfengisneyslu, þyngdaraukningar eða marijuananeyslu.
Í rannsókn á brjóstakrabbameini karla kom í ljós að yfirleitt liðu um það bil 19 mánuðir frá því að fyrstu einkenni komu í ljós þar til sjúkdómurinn greindist - meira en eitt og hálft ár. Það er langur tími! Trúlega er það vegna þess að fólk býst ekki við því að karlmenn fái brjóstakrabbamein. Yfirleitt greinist því sjúkdómurinn alls ekki á fyrstu stigum.
Greindist sjúkdómurinn fyrr gæti það gert gæfumun. Með frekari rannsóknum og þekkingu almennings munu karlar átta sig á að að þeir – rétt eins og konur – þurfa að leita læknis um leið og þeir verða varir við breytingar á brjóstunum sem ekki hverfa á skömmum tíma.
ÞB