Greining brjóstakrabbameins karla

Þegar eitthvað óeðlilegt hefur fundist í brjóstinu eru gerðar rannsóknir til að ganga úr skugga um hvort um krabbamein sé að ræða. Hugsanlega verða framkvæmdar eftirfarandi rannsóknir, ein eða fleiri – jafnvel allar:

  • Brjóstamyndun: Brjóstamyndataka er röntgenmyndataka af brjóstum. Hérlendis fer hún fram á Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands og á röntgendeild Sjúkrahússins á Akureyri (FSA). Að minnsta kosti tvær myndir eru teknar af brjóstinu þegar búið er að klemma það milli tveggja plastplatna. Önnur myndin er tekin ofanfrá en hin á ská. Einnig eru teknar myndir af hinu brjóstinu til samanburðar. Röntgenlæknir skoðar myndirnar og gengur úr skugga um hvort eitthvað óeðlilegt er að sjá á þeim. Hann kann í framhaldi af því að ákveða að fá fleiri myndir af ákveðnum, afmörkuðum svæðum og eru þær þá eins konar stækkanir.

  • Ómskoðun: Við ómskoðun eru sendar hátíðnihljóðbylgjur inn í brjóstið. Tækið breytir síðan endurköstuðum bylgjum í mynd á þar til gerðum skjá. Yfirleitt er stuðst við þannig skoðun jafnfram öðrum rannsóknum. Hafi eitthvað afbrigðilegt sést á brjóstamyndum eða fundist við læknisskoðun (þreifingu), er ómskoðun besta leiðin til að komast að því hvort þétting er þéttur hnútur (t.d. góðkynja netjukirtilæxli eða krabbamein) eða vökvafylltur (t.d. belgmein). Með ómskoðun er ekki unnt að ganga úr skugga um hvort þéttur hnútur er krabbamein.

  • Rannsókn á vessa úr geirvörtu: Vætli úr geirvörtu má nota vessann sem sýni og rannsaka í smásjá til að kanna hvort þar er krabbameinsfrumur að finna.

  • Vefjasýni: Vefjasýni er nauðsynlegt til að greina eðlilegan vef frá krabbameinsvef. Sé krabbamein fyrir hendi getur vefjasýnið einnig hjálpað læknum til að átta sig á stærð, gerð og tegund brjóstakrabbameinsins. Vefjasýni eru tekin úr hvers kyns þéttingu sem læknirinn getur þreifað eða virðist grunsamleg útlits. (Vegna þess að flest tilfelli brjóstakrabbameins karla finnast við þreifingu er afar fátítt að eitthvað uppgötvist við brjóstamyndatöku eða annars konar myndgreiningu.) Ýmsar aðferðir eru notaðar til að taka vefjasýni og líklegast að sá sem framkvæmir sýnatökuna (venjulega læknir) muni nota þá aðferð sem hefur minnst inngrip í för með sér en tryggir jafnframt að nægilegt magn vefjasýnis náist til að fá skilmerkilega og örugga greiningu.

  • Fínnálarsýni úr áþreifanlegri þéttingu í vef (eitthvað sem finnst fyrir með þreifingu) er sú sýnataka sem hefur minnst inngrip í för með sér. Sýni má taka á læknisstofu. Venjulega tekur um tvo virka daga að fá niðurstöður hérlendis. Langri, mjórri og holri nál er stungið inn í meinið og frumusýnið dregið út í gegnum nálina, strokið út á gler og sett í hendur frumumeinafræðings til greiningar. Sé ekki unnt að þreifa meinið og það sést aðeins á brjóstamyndum eða í ómskoðun þarf læknirinn að nota þær aðferðir til að koma nálinni á réttan stað. Með röntgenmynd eða ómtæki er hægt að staðreyna að afbrigðilega svæðið sem sást á upprunalegum röntgenmyndum sé sama svæðið og nálinni er stungið í. Með þessari aðferð við sýnistöku er viss hætta á að svarið verði rangt – þ.e. að sýnið verði úrskurðað “eðlilegt” (neikvætt) og engar krabbameinsfrumur finnist, jafnvel þótt krabbamein sé fyrir hendi. Orsökin er yfirleitt sú að sýnið er of lítið; nálin lendir ekki á krabbameinsfrumum.

  • Grófnálarsýni. Með þessari aðferð fást mörg heil sýni úr vefnum (vefjasýni). Sé ekki unnt að finna staðinn með þreifingu er nálinni beint að réttu svæði með brjóstamyndun eða ómskoðun. Hafi krabbamein ekki fundist nema með segulómskoðun (MRI) er hægt að nota þá tækni til að stýra nálinni á réttan stað. (*Þetta er enn ekki unnt að gera hérlendis þar sem nothæfan stýribúnað vantar við tækið á LSH/Aths. BFS). Hugsanlegt er að lítilli málmklemmu sé komið fyrir í brjóstinu til að merkja sýnatökustaðinn til öryggis, finnist í sýninu krabbameinsfrumur sem gera frekari skurðaðgerð nauðsynlega. Þar sem flestir karlmenn sem greinast með brjóstakrabbamein fara í brjóstnám (allur brjóstvefurinn fjarlægður) er yfirleitt talið óþarft að setja inn klemmu.

  • Hlutaskurðsýni: Með skurðaðgerð eru fjarlægðir stærri hlutar vefjar en hægt er að gera með stungusýni. Þetta er oft gert þegar nálarsýni gefur ekki ótvíræð svör eða þéttingin er of stór til að hægt sé að fjarlægja hana auðveldlega. Tilgangur aðgerðarinnar er að fá greiningu. Þar sem aðeins er fjarlægður hluti meinsins telst þetta ekki meðferð. Þegar brjóstakrabbamein hefur á annað borð greinst hjá karlmönnum er yfirleitt allt brjóstið fjarlægt (brjóstnám).

  • Heilt skurðarsýni: Oft bara nefnt skurðsýni, er sú sýnistaka sem hefur í för með sér mest inngrip. Þá er reynt að fjarlægja heilan, grunsamlegan hnút úr brjóstvefnum. Þetta er öruggasta leiðin til að fá staðfesta greiningu án hættu á að fara á mis við krabbameinsfrumur (og fá þannig rangt neikvætt svar). Að fjarlægja allan hnútinn gæti einnig orðið til þess að róa þig eitthvað þar til endanleg meðferðaráætlun hefur verið sett saman. Bæði heilt skurðsýni og hlutaskurðsýni má taka á skurðstofum eða sjúkrahúsum og er notuð staðdeyfing við sýnistökuna. Tilgangur sýnistökunnar er að fá greiningu. Jafnvel þótt með fleygskurði (hluti af brjóstinu fjarlægður) takist að fjarlægja allt æxlið úr brjóstinu og skurðurinn sé hreinn (hreinar skurðbrúnir), er það svo að greinist krabbamein á annað borð, er allur brjóstvefurinn fjarlægður (brjóstnám).

Finnist krabbameinsfrumur í sýni, kann læknirinn að vilja láta gera frekari rannsóknir. Segulómskoðun getur til dæmis sýnt betur en brjóstamyndun og ómskoðun hve mikið krabbamein er í hinu sýkta brjósti samanborið við eðlilegan, aðliggjandi vef. Þær upplýsingar geta hjálpað skurðlækni að ákvarða hversu víðtæk aðgerðin á að verða. Segulómskoðun getur líka gert það kleift að ákvarða hvort hitt brjóstið sé í lagi. Aðrar rannsóknir svo sem blóðprufur, röntgenmyndir af bringusvæði, beinaskann o.fl. má gera til að kanna hvort krabbamein hefur dreift sér.

*Málsgrein merkt stjörnu er athugasemd Baldurs F. Sigfússonar, yfirlæknis röntgendeildar Krabbameinsfélags Íslands, sem góðfúslega las yfir þennan texta.

 ÞB