Meinafræðiskýrslan

Í hvert sinn sem vefur er fjarlægður úr líkamanum í því skyni að leita að krabbameini er gerð skýrsla, s.k. meinafræðiskýrsla. Hver skýrsla greinir frá niðurstöðum rannsókna sem gerðar voru á vefjarsýnunum. Þær upplýsingar gera lækni þínum kleift að ákveða hvaða meðferð hentar þér best (í samráði við þig). Meinafræðiskýrslan svarar eftirfarandi spurningum:


  • Hefur krabbamein borist í eitla?


Hvaða tegund af brjóstakrabbameini er þetta?


Flest tilfelli krabbameins sem greinist hjá karlmönnum eru af þeirri tegund sem á uppruna sinn í mjólkurgöngum (ductal). Sú tegund krabbameins er yfirleitt ífarandi (illkynja). Krabbameinsfrumur fjölga sér til að byrja með inni í mjólkurgöngum en brjóta sér síðan leið út úr gangaveggnum og taka að vaxa inn í aðliggjandi, heilbrigðan brjóstvef. Staðbundið brjóstakrabbamein sem venjulega er skammstafað DCIS (ductal carcinoma in situ) er mjög óalgengt hjá körlum. Þannig krabbamein á einnig upptök sín í mjólkurgöngum en heldur sig þar. Karlar fá afar sjaldan brjóstakrabbamein út frá mjólkurkirtlum vegna þess að kirtlar í brjóstavef karla eru ekki fullþroska.


Á hvaða stigi er brjóstakrabbameinið?

Krabbameinsstig segir læknum hver útbreiðsla þess er í brjóstinu og hvert það kann að hafa dreift sér. Ýmsar rannsóknir og athuganir eiga hlut að því að ákvarða á hvaða stigi krabbamein er. Meinafræðiskýrslan gefur upplýsingar um stærð æxlis og hvort það hefur haft áhrif á hörundið framan á bringunni eða á vöðva og/eða bringu undir brjóstinu. Í skýrslunni er einnig tekið fram hvort krabbameinsfrumur er að finna í eitlum og þá hve mörgum. Auk þess er tekið fram hvort frumurnar bundnar við eitla eða hvort þær hafa sáð sér þaðan í aðliggjandi vef utan þeirra (utanáliggjandi).


Mismunandi stig brjóstakrabbameins eru:


  • Stig O: Þetta stig er notað til að lýsa staðbundnu brjóstakrabbameini. Ekkert bendir til að krabbameinsfrumur hafi brotið sér leið úr þeim hluta brjóstsins þar sem þær eiga upptök sín eða séu á leið inn í aðliggjandi eðlilegan vef. LCIS og DCIS eru dæmi um stig 0 (staðbundin mein í mjólkurgangi eða mjólkurkirtli), s.k. forstig.


  • Stig I(1): Þetta stig lýsir ífarandi brjóstakrabbameini. Krabbameinsfrumur eru á leið úr upprunalegum stað og inn í eðlilegan aðliggjandi vef. Æxlið er allt að tveir sentimetrar á stærð en eitlar hreinir.


  • Stig IIA (2A): Þetta stig lýsir ífarandi brjóstakrabbameini þar sem ekkert æxli hefur fundist í brjóstinu en krabbameinsfrumur finnast í holhandareitlum EÐA æxlið er minnst tveir en mest fimm sentímetrar að stærð en krabbamein hefur ekki sáð sér í eitla í holhönd EÐA æxlið er 2 sentímetrar eða minna og krabbameinsfrumur hafa sáð sér í eitla í holhönd.

  • Stig IIB (2B) Þetta stig lýsir ífarandi brjóstakrabbameini þar sem æxlið er stærra en 2 sentímetrar en minna en 5 sentímetrar og hefur sáð sér í holhandareitla EÐA æxlið er stærra en 5 sentímetrar en hefur aftur á móti ekki dreift sér í holhandareitla.


  • Stig IIIA (3A): Þetta stig lýsir ífarandi brjóstakrabbameini þar sem ekkert æxli finnst í brjóstinu en krabbameinsfrumur hafa sáð sér í holhandareitla sem hafa klasað sig saman eða eru fastir hver við annan eða aðliggjandi vef eða krabbamein hefur sáð sér í eitla nærri bringubeini EÐA meinið er fimm sentímetrar eða minna og hefur sáð sér í eitla í holhönd sem hafa klasað sig saman eða eru fastir hver við annan eða aðliggjandi vef EÐA æxlið er stærra en 5 sentímetrar og hefur sáð sér í eitla í holhandareitla sem hafa klasað sig saman eða eru fastir hver við annan eða aðliggjandi vef.


  • Stig IIIB (3B): Þetta stig lýsir ífarandi brjóstakrabbameini þar sem æxli af hvaða stærð sem vera skal hefur sáð sér í hörundið á brjóstinu og/eða í bringuna OG krabbameinsfrumur hafa sáð sér í holhandareitla sem hafa klasað sig saman eða eru fastir hver við annan eða aðliggjandi vef eða krabbamein hefur sáð sér í eitla við bringubein. Bólgukrabbamein telst vera að minnsta kosti á stigi IIIB.

  • Stig IIIC (3C) Þetta stig lýsir ífarandi brjóstakrabbameini þar sem engin merki finnast hugsanleg um krabbamein í brjóstinu. Sé æxli þar að finna getur það verið af hvaða stærð sem vera skal. Krabbamein hefur sáð sér í hörund á brjóstinu og/eða í bringuna OG það hefur einnig sáð sér í eitla fyrir ofan eðan neðan viðbein OG kann að hafa sáð sér í holhandareitla eða eitla nærri bringubeini.


  • Stig IV (4): Þetta stig lýsir ífarandi brjóstakrabbameini þar krabbamein hefur sáð sér út fyrir brjóst, holhönd og brjósteitla og hugsanlega í viðbeinseitla, lungu, lifur, bein eða heila. Að krabbamein sé „fjarmeinvörp við greiningu” þýðir að brjóstakrabbamein hefur verið til staðar í brjóstinu og náð að dreifa sér þaðan í aðliggjandi eitla eða vefi þótt það hafi ekki fundist fyrr og þetta sé fyrsta sjúkdómsgreining. Krabbameinið byrjaði í brjóstinu en uppgötvaðist ekki á meðan það var aðeins þar. Fjarmeinvörp tákna að krabbameinið er á IV. stigi.

Læknirinn kann að láta gera ýtarlegar rannsóknir til að kanna hvort krabbamein hefur dreift sér í aðra hluta líkamans (svo sem í lifur, lungu, heila eða bein), þar á meðal með:


  • Blóðsýni – yfirleitt alltaf gert,

  • röntgenmynd af lungum,


  • beinaskanni,


  • tölvusneiðmynd,


  • segulómskoðun,


  • PET-skanni (*tækjakostur ekki fyrir hendi hérlendis).


Hvort þessar rannsóknir eru gerðar kann að vera háð ýmsum þáttum, þar á meðal:


  • Útbreiðslu krabbameins í brjósti og eitlum: Því stærra sem meinið er og því fleiri eitla sem það hefur sáð sér í, þeim mun meiri hætta er á að krabbameinið hafi dreift sér og þar með þarf að gera fleiri rannsóknir.


  • Teikn og einkenni: Finnir þú fyrir versnandi höfuðverk eða bakverk er hugsanlega talið nauðsynlegt að láta „skanna” þessi svæði. Höfuðverkur og bakverkur eru algengir kvillar og geta hitt hvern sem er fyrir, en hafir þú nýlega greinst með krabbamein kann þetta að valda þér áhyggjum. Oft leiða slíkar rannsóknir í ljós að engin hætta er á ferðum og kvíðinn því óþarfur.


  • Mat læknis. Sumir læknar kjósa að láta gera allar hugsanlegar rannsóknir, en yfirleitt er fylgt fyrirfram ákveðnu ferli og ekki mælt með því að senda sjúkling í rannsóknir ef engar vísbendingar finnast um að þær séu nauðsynlegar.


  • Óskir sjúklings. *Hérlendis er það svo að krabbameinslæknir ræður ferðinni varðandi rannsóknir í samræmi við læknisfræðilegar ábendingar og klínískar leiðbeiningar út frá hverri sjúkdómsgreiningu. Finnist þér þú þurfa að ræða eðli og umfang rannsókna við lækni þinn, skaltu óhikað gera það. Í löndum þar sem sjúklingur þarf að greiða allan kostnað af rannsóknum (eða tryggingarfélag hans) þurfa sjúklingur og læknir að hafa mun meira samráð en hér.


  • Þegar þú ert þátttakandi í ferlirannsókn (t.d. á vegum Íslenskrar erfðagreiningar eða Hjartaverndar) er eðlilegt að gerðar séu á þér ítarlegar rannsóknir þegar rannsóknir vegna krabbameins hefjast og síðan reglulega eftir það.

Aftur upp


Hversu ólíkar eru krabbameinsfrumur eðlilegum frumum? (Sérhæfing)


Meinafræðingur skoðar æxlið í smásjá til að athuga og bera saman útlit krabbameinsfrumna við útlit aðliggjandi heilbrigðra frumna. Hversu líkar eða frábrugðnar krabbameinsfrumur eru eðlilegum frumur ákvarðar hvernig þær eru flokkaðar. Krabbameinsfrumur í fyrsta flokki líkjast eðlilegum frumum og vaxa hægast. Krabbameinsfrumur í þriðja flokki eru óskipulegri og óreglulegri en eðlilegar frumur og vaxa hraðast. Þótt krabbameinsfrumur þriðja flokks geti verið ágengari en aðrar frumur er auðveldara að ráða niðurlögum þeirra með lyfjagjöf og geislum en annarra krabbameinsfrumna.

Aftur upp


Hve stórt er æxlið?


Stærð æxlis hefur mikið að segja um það hvers konar meðferð verður fyrir valinu. Hún er einnig notuð til að ákvarða á hvaða stigi meinið er. Stærðin segir þó ekki alla sögu. Ástand eitla er einnig mjög mikilvægt. Lítið æxli kann að vaxa mjög hratt en stórt mein getur verið „meinlaus risi”.

Aftur upp


Hefur krabbamein borist í eitla?

Sumar tegundir brjóstakrabbameins dreifa sér í eitla í holhönd. Þegar krabbameinsfrumur finnast í eitlum er talað um að þeir séu jákvæðir. Þegar eitlar eru hreinir – og lausir við krabbamein – er sagt að þeir séu neikvæðir. Læknar munu þreifa þig og láta rannsaka sýni úr eitlum í smásjá til að ákvarða hvort krabbameinsfrumur hafa sáð sér í þá.


Í stórri læknisfræðirannsókn sem gerð var bentu niðurstöður til að samband væri á milli þess í hve marga eitla krabbamein hafði borist og þess hve ágengt krabbameinið reyndist vera. Að vita í hve mörgum eitlum fannst krabbameini er aðferð til að finna viðeigandi meðferð við krabbameininu.


Þegar læknir ákvarðar ástand eitils við skoðun setur hann hvern einstakan í eitil í einn af eftirfarandi þremur flokkum:


  • Minni háttar (sést aðeins í smásjá): Aðeins hefur fundist lítill fjöldi krabbameinsfrumna í eitlinum.


  • Töluverður (sést með berum augum): Krabbamein hefur borist í ákveðinn eitil eða eitlaklasa. Oftast er hægt að finna þetta með þreifingu eða sjá með berum augum.


  • Utanvefjardreifing: Brjóstakrabbamein hefur lagt undir sig allan eitilinn og borist út fyrir hann í aðliggjandi fituvef.


Það á við karla jafnt sem konur að í því fleiri eitla sem krabbameinið hefur sáð sér þeim mun ágengara er það. Á hvaða stigi hver einstakur eitill er skiptir minna máli en heildarfjöldi eitla sem krabbamein hefur sáð sér í. Því fleiri eitlar sem krabbamein hefur borist í þeim mun alvarlegra getur krabbameinið reynst.

 

Aftur upp


Eru hormónaviðtakar á krabbameinsfrumum?


Gerð er rannsókn í því skyni að greina hve næmar krabbameinsfrumurnar eru fyrir hormónunum estrógen og prógesterón. Séu hormónaviðtakar fyrir hendi sýnir prófið „jákvæða” niðurstöðu. Séu þeir ekki fyrir hendi er niðurstaðan „neikvæð”. Þegar estrógen er fyrir hendi og hefur komið sér fyrir á estrógenviðtökum er „skrúfað frá” frumuvexti. Í flestum tilfellum brjóstakrabbameins hjá körlum eru estrógen- og prógesterón viðtakar fyrir hendi. Séu hormónaviðtakar fyrir hendi kann það að tákna betri batahorfur en ella og möguleika á að beita andhormónameðferð.

 

Aftur upp

 

Eru HER2-viðtakar á krabbameinsfrumunum?


Krabbameinsvefurinn sem tekinn var er rannsakaður með tilliti til þess hvort þar er að finna HER2 prótín. HER2 er erfðavísir (gen) sem á þátt í að stjórna frumuvexti, hvernig þær skipta sér og gera við sjálfar sig. HER2 genið stjórnar tjáningu ákveðinna viðtaka á krabbameinsfrumum sem kallast HER2-viðtakar. Þegar magn HER2 gena eða prótína er mikið, telst meinið HER2 jákvætt. (Minna en 25% tilfella brjóstakrabbameins eru HER2-jákvæð.) Krabbamein með HER2 viðtökum hefur tilhneigingu til að vera ágengara en aðrar tegundir. Hins vegar er nú til lyf, notað í marksækinni meðferð, sem heitir trastuzumab (Herceptin®) og hefur það gefið góða raun við meðhöndlun á þessari tegund krabbameins.

 

Aftur upp

 

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda og ábyrgðarmanns.

 ÞB