Andhormónameðferð

Þegar gefin eru lyf sem er ætlað að hafa áhrif á hormónaviðtaka á brjóstakrabbameinsfrumum er yfirleitt talað um andhormónameðferð. Þessi tegund meðferðar getur reynst afar áhrifarík séu hormónaviðtakar fyrir hendi í brjóstakrabbameininu – hvort heldur það eru estrógen- eða prógesterónviðtakar. Í flestum tilfellum brjóstakrabbameins karla eru krabbameinsfrumur með hormónaviðtökum.


Sams konar andhormónameðferð og konur fá getur einnig gagnast körlum með brjóstakrabbamein. Lyfið sem lengst hefur verið notað heitir tamoxifen, en það er lyf sem tilheyra svo kölluðum SERM-lyfjum (Selective Estrogen Receptor Modulator). Lyfin hafa þau áhrif að loka fyrir estrógenviðtaka og hindra það að hormón (estrógen) komist að hormónaviðtökum til að örva vöxt krabbameinsfrumna því það er einmitt það sem estrógen gerir – “skrúfar frá” vexti. Önnur tegund andhormónameðferðar eru svo kallaðir arómatasetálmar. Lyfin sem notuð eru heita t.d. Arimidex® (efnafræðiheiti: anastrozole), Femara® (efnafræðiheiti: letrozole) og Aromasin® (efnafræðiheiti: exemestane).


Vegna þess hve brjóstakrabbamein karla er fátítt liggja ekki fyrir niðurstöður læknisfræðilegra rannsókna á karlmönnum sem geti sýnt fram á hvaða lyf hentar best við ákveðnar aðstæður. Lyfja- og matvælastofnun Bandaríkjanna (The U.S. Food and Drug Administration – FDA) hefur ekki samþykkt notkun ofangreindra lyfja þegar karlmenn eiga í hlut heldur aðeins konur. Engu að síður hafa lyfin verið notuð og reynst afar áhrifarík við meðhöndlun við brjóstakrabbameini karla þegar krabbameinsfrumur eru með hormónaviðtaka. Mikill og góður árangur hjá miklum fjölda kvenna sem hafa fengið andhormónameðferð gefur vísbendingu um að hjá karlmönnum með sama sjúkdóm skili þau einnig tilætluðum árangri.


Séu karlar með krabbamein á fyrstu stigum, hormónaviðtakar eru fyrir hendi og mikil hætta á að meinið taki sig upp, er yfirleitt ákveðið að gefa andhormónalyf í fimm ár. Læknir þinn kann að mæla með tamoxifeni eða aromatasetálmum (anastrazole, letrozole eða exemestene). Í ljósi þess árangurs sem náðst hefur hjá konum sem fengið hafa langtíma andhormónameðferð gætu karlmenn íhugað hvort ekki sé rétt að taka inn aromatasetálma í fimm ár þegar fimm ára meðferð með tamoxifeni lýkur.


Sama andhormónameðferð gagnast körlum með meinvörp brjóstakrabbameins, séu hormónaviðtakar fyrir hendi. Hjá körlum með dreift krabbamein er andhormónameðferð yfirleitt haldið áfram eins lengi og hún ber einhvern árangur. Sé andhormónameðferðin hætt að virka og sjúkdómurinn sýnir merki um að hafa sótt í sig veðrið, má íhuga andhormónameðferð með t.d. Faslodex®, (efnafræðiheiti: fulvestrant). Geti tiltækar andhormónameðferðir ekki lengur haldið krabbameininu í skefjum er venjulega næsta skref að athuga með krabbameinslyfjameðferð.


Þar sem ekki eru tiltækar niðurstöður úr rannsóknum á lyfjum þessum og áhrifum þeirra á brjóstakrabbamein karla er erfitt að fullyrða hverjar hliðar- eða aukaverkanir kunna að vera. Þó er vitað um karla sem hafa greint frá eftirfarandi einkennum á meðan þeir voru í andhormónameðferð:


  • Kynlöngun hverfur,

  • risvandamál,

  • þyngdaraukning,

  • hitakóf,

  • geðsveiflur.Þú skalt umfram allt ræða þessar hliðarverkanir við lækni þinn þannig að hann geti leitað með þér lausna sem hugsanlega má finna við vandanum.

 ÞB