Eitlanám

Miklu skiptir að fá vitneskju um það sem er að gerast í holhandareitlum. Eitlarnir veita upplýsingar um ástand og horfur og gera læknum kleift að ákveða hvers konar meðferð muni reynast áhrifaríkust við brjóstakrabbameininu. Eitlar líkamans hafa það hlutverk að vera síur í sogæðakerfinu og eru hluti af eins konar fráveitukerfi. Því er líklegt að eitlar grípi eða síi burt krabbameinsfrumur sem eru á sveimi í líkamsvökva sem hreinsast út frá frá því svæði brjóstsins þar sem krabbameinið á upptök sín.


Skurðlæknir sprautar bláum lit og geislavirku efni (sporefni) í meinið eða í húðina yfir meininu. Fyrsti eitillinn sem tekur til sín sporefnið og blánar er s.k. “varðeitill” (sem fer fyrir öðrum). Eitillinn eða eitlarnir sem lituðust eru fjarlægðir með skurðaðgerð og sendir í rannsókn þar sem meinafræðingur kannar hvort þeir innihalda krabbameinsfrumur. Finnist engar krabbameinsfrumur eru ekki fjarlægðir fleiri eitlar.


Finnist krabbameinsfrumur í varðeitlum, þarf yfirleitt að fjarlægja alla eitla - venjulega kallað eitlanám í holhönd. Eitlarnir eru flokkaðir í þrennt eftir því hvar þeir eru staðsettir:


  • Eitlar á svæði I liggja næst brjóstinu.


  • Eitlar á svæði II liggja undir stóra brjóstvöðvanum sem liggur í gegnum holhöndina (pectoralis major).


  • Eitlar á svæði III liggja ofan á stóra brjóstvöðvanum (pectoralis major).

Við hefðbundið eitlanám eru eitlar á svæði I og II fjarlægðir. Líti eitlarnir óeðlilega út fyrir skurðaðgerð eða reynist óeðlilegir viðkomu, er yfirleitt gripið til hefðbundins eitlanáms úr holhöndinni. Eftir sem áður kann skurðlæknir að halda áfram með sporefni til að tryggja að borin hafi verið kennsl á alla eitla með krabbameinsfrumum og þeir fjarlægðir.


Eitlanám úr holhönd kann að hafa í för með sér sogæðabólgu. Þá safnast sogæðavökvi fyrir í mjúkum vefjum handleggjarins og hann bólgnar. Sogæðabólgu er hægt að hugsa sér sem eins konar bilun í frárennslislögn. Æðar og sogæðar eru eins og frárennslislagnir sem ráða við að flytja burtu eðlilegt magn af sogæðavökva. Þegar eitlar og sogæðar hafa verið fjarlægðar kann að vanta lagnir til að koma öllum úrgangi í burtu og handleggurinn bólgnar.


Sogæðabólga getur látið á sér kræla fáeinum vikum eftir eitlanám eða jafnvel einhverjum árum eftir aðgerð. Ýmislegt getur framkallað sogæðabólgu:


  • Meiðsli á vöðva eða húð á handleggnum sem geta leitt til sýkingar. Þar á meðal eru rispur, skordýrabit, sólbruni, eldhúsbruni, skrámur og skurðir af völdum garðáhalda, plönturispur (til dæmis af völdum brenninetlu), sprungin húð af völdum þurrks eða húðin rifnar af því að togað er í hana eða kroppað (kækir).


  • Að þyngjast mikið eftir meðferð við brjóstakrabbameini. Rétt eins og það hefur áhrif að vera of þungur fyrir aðgerð getur það aukið hættu á að handleggurinn bólgni að bæta á sig aukakílóum.


  • Hiti. Hiti víkkar út æðar og eykur blóðrás í handleggnum. Það verður til þess að umfram vökvi getur dropað út í vefi í handleggnum. Frárennslislagnir í handleggnum (sogæðarnar) ráða hugsanlega ekki við þetta viðbótarálag og því bólgnar hann. Mikill hiti (í sól) eða að sitja í heitum potti getur framkallað sogæðabólgu.


  • Blóðkökkur. Fyrir kemur að blóðkökkur myndast í slagæðinni í holhöndinni sem verður til þess að vökvi safnast fyrir í handleggnum.


  • Langar flugferðir. Þótt það sé óalgengt að langar flugferðir verði til þess að framkalla sogæðabólgu hafi hennar ekki áður orðið vart, getur löng flugferð orðið til þess að ástandið versnar vegna breytinga á loftþrýstingi, sé sogæðabólga þegar fyrir hendi.


  • Krabbamein í eitlum. Þetta er afar sjaldgæf orsök sogæðabólgu en getur átt sér stað hafi krabbameinsfrumur lagt undir sig eitla sem hindra frítt flæði sogæðavökva sem leitast við að renna í gegnum þá.


Sértu laus við sogæðabólgu þýðir það að ekkert hindrar frítt flæði sogæðavökva í gegnum eitlana. Einnig er hugsanlegt að líkaminn hafi þegar lært að beina sogæðavökva í nýjan farveg. Því miður er það svo að þegar fólk er á annað borð komið með sogæðabólgu verður erfiðara að draga úr bólgu í handleggnum eftir því sem lengri tími líður og bólgan verður þrálátari og meiri.


Hugsanlega þarf að fylgja eitlanáminu eftir til þess að losna örugglega við allar krabbameinsfrumur. Viðbótarmeðferð getur ýmist falist í geislameðferð, andhormónameðferð, lyfjameðferð og/eða marksækinni meðferð.

 ÞB