Geislameðferð

Heilræði um húðvernd

  • Farðu ekki í heita sturtu eða kerlaug - tempraðu hitann.

  • Forðastu sterkar sápur og notaðu þess í stað ilmlausar sápur með mýkingarefni eða náttúrulega sápu.

  • Berðu rakagefandi krem á húðina eftir hverja meðferð eins og Eucerin, Aquapor eða AloeVera. Berðu ríkulega á húðina fyrir háttinn og farðu í gamlan bol til að fá ekki áburð í rúmfötin.

  • Finnir þú fyrir vægum kláða eða sviða skaltu bera aloe vera áburð á húðina eða 1% hydrokortíson krem (fæst án lyfseðils í lyfjabúðum). Berðu áburðinn þunnt á húðina þrisvar á dag.
  • Flagni húðin þannig að vessi úr henni eða myndist blöðrur, skaltu láta þær eiga sig! Blöðrur halda svæðinu hreinu á meðan nýtt hörund er að gróa undir þeim. Springi blaðra getur verkjað í húðlausa svæðið. Reyndu að halda því þokkalega þurru og hreinsaðu það eingöngu með ylvolgu vatni. Þerraðu það varlega og settu síðan á það límlausan plástur eða "second skin" sem er til af ýmsum gerðum í lyfjabúðum.

Geislameðferð er afar hnitmiðuð og áhrifarík leið til að eyða krabbameinsfrumum sem kunna að vera til staðar eftir skurðmeðferð og draga úr líkum á að sjúkdómurinn taki sig upp aftur.


Geislameðferð er yfirleitt beitt eftir brjóstnám karla ef og þegar:


  • Æxlið er stórt (fimm sentímetrar eða stærra).


  • Skurðbrúnir brottnáms eru jákvæðar (þá finnast krabbameinsfrumur mjög nálægt eða í skurðbrún vefjarins sem var fjarlægður).


  • Krabbameinsfrumur finnast í æðum eða sogæðum á umtalsverðu svæði í nánd við meinið.


  • Krabbamein hefur sáð sér í umtalsverðan fjölda eitla (finnist krabbameinsfrumur í fjórum til fimm eitlum telst það umtalsvert).


Eftir brjóstnám er svæðið yfirleitt geislað alla virka daga í um það bil fimm vikur.


Geislameðferð er einnig beitt til að draga úr einkennum eða koma í veg fyrir frekari vandamál sem gætu komið upp í tengslum við ákveðin svæði sem krabbamein hefur borist í þegar krabbamein er langt gengið og hefur dreift sér til annarra líkamshluta (fjarmeinvörp). Til dæmis getur geislameðferð linað verki þegar krabbamein hefur dreift sér í bein, dregið úr hættu á að bein brotni sem hefur veiklast af krabbameini, minnkað blæðingu þar sem krabbamein er komið í húð og dregið úr einkennum frá taugakerfi þrýsti meinið á taugar eða mænu.


Helstu hliðarverkanir geislameðferðar eru:


Erting í húð. Húð sem verður fyrir geislun getur þornað og orðið sár og aum viðkomu. Húðin tekur að flagna eða það koma á hana vökvablöðrur. Viðbrögð húðar kunna að versna sé ekki hugað að hinu geislaða svæði og í það getur komið sýking. Geislafræðingurinn getur aðstoðað þig við að fylgjast með þessum einkennum. Til allrar hamingju er erting í húð af völdum geislunar aðeins tímabundin. Áhrif á húðina kunna að halda áfram að versna í um vikutíma eftir að meðferð líkur en síðan fer hún að jafna sig. Djúpur roði og eymsl ættu að hverfa á fyrstu vikum eftir meðferð, en húðin þarf dálítið lengri tíma til að jafna sig til fulls og verða eðlileg á lit. Hjá fólki með hvítan hörundslit verður svæðið eins og sólbrúnt eða bleikt í allt að hálft ár eftir geislameðferð. Sjaldgæft er að húð þeldökks fólks roðni því að yfirleitt dökknar hún og getur orðið næstum svört.


Þreyta. Þreyta sem fylgir geislameðferð er annars konar þreyta en sú sem fólk finnur fyrir þegar það hefur reynt mikið á sig og hverfur fái það góðan nætursvefn. Þreyta sem fylgir meðferð er eins konar allsherjar orkuskortur sem leggst á allan líkamann. Til þess að draga úr þreytu er nauðsynlegt að fá alla þá hvíld sem möguleg er. Reglulegir stuttir dúrar að deginum geta gefið orku og gert þér kleift að safna kröftum fyrir það sem er mikilvægast fyrir þig að koma í verk yfir daginn. Reyndu líka að hreyfa þig svolítið úti við. Komist þú í gönguferð eða sund er ekki ólíklegt að þér takist að auka orkuna svolítið. Gættu þess bara að ofreyna þig ekki!


Áhrif á bringu. Bæði á meðan á geislun stendur og fljótlega eftir hverja meðferð kanntu að finna fyrir skammvinnum verkjasting – eins og rafstraumur skjótist í gegnum bringuna. Hugsanlega fannstu fyrir sams konar verk eftir skurðaðgerðina. Þessir verkir stafa að bólgu og ertingu í vefjum og úr þeim er hægt að draga með því að taka bólgueyðandi lyf. Þegar meðferðinni er lokið líður ekki á löngu þar til þeir hverfa af sjálfum sér. Til lengri tíma litið gætirðu fundið fyrir vöðvastirðleika á bringusvæðinu við líkamlega áreynslu við að þvo bílinn eða leysa af hendi ýmis heimilisstörf. Líklegast er að þú finnir fyrir stirðleikanum í brjóstvöðvanum (pectoralis major) – þann sem tengir framhlið axlarinnar við bringuna. Stirðleikanum veldur örvefur (afleiðing af geislameðferðinni) sem gerir vöðvann stífari en áður. Yfirleitt er þetta ekki mikið vandamál, þetta kemur og fer og hægt að draga úr áhrifunum með einföldum verkjalyfjum sem fást afgreidd án lyfseðils.


Óþægindi í holhönd. Þegar geislameðferð bætist við skurðaðgerð í holhönd gæti þér farið að líða enn verr í henni eftir þrjár til fjórar vikur í geislum.  Ekki bætir úr skák að handleggurinn vill stöðugt nuddast utan í svæðið og getur ert húðina í holhöndinni enn frekar. Sviti eykur einnig núning. Notaðu maíssterkju (maízenamjöl) í stað svitaeyðis til að draga úr núningi.


Áhrif á lungu. Þótt nútímatæki séu afar fáguð og nákvæm verður engu að síður svolítill hluti lungnanna fyrir geislun beint undir bringunn. Örvefur kann að myndast í lungum á þessum stað eftir að meðferð lýkur, rétt eins og örvefur kann að myndast fáir þú lungnabólgu. Þetta er þér skaðlaust en þú þarft að vita af þessu. Ástæðan er m.a. sú að hafi örvefur myndast, sést hann yfirleitt á röntgenmyndum sem kunna að verða teknar af óskyldum ástæðum. Læknir sem skoðar röntgenmyndina kynni að draga þá ályktun að þú værir með lungnabólgu eða krabbamein hefði tekið sig upp. Ákveðin einkenni eru afar sjaldgæf eins og til dæmis þurr hósti sem ekki fylgir neitt slím eða mæði. Hverfi einkennin ekki af sjálfu sér, hverfa þau yfirleitt ef teknar eru steratöflur í stuttan tíma.

 ÞB