Krabbameinslyfjameðferð

Krabbameinslyf og meðferð með þeim vísar til ákveðinnar tegundar lyfja sem deyða krabbameinsfrumur. Læknir þinn kann að mæla með lyfjameðferð virðist hætta á að krabbameinið sái sér út fyrir brjóstið eða þú ert nú þegar með krabbamein víðar en í brjóstinu. Krabbameinslyfjameðferð er ekki beitt, sé lítil hætta talin á að krabbameinið sái sér til annarra hluta líkamans.


Þú gætir þurft að fara í (krabbameins)lyfjameðferð ef:


  • Meinið er meira en einn sentímeter að stærð.


  • Krabbameinsfrumur fundust í eitlum í holhönd.


  • Krabbameinsfrumur virðast hafa tilhneigingu til að fjölga sér hratt. Þessari tegund krabbameinsfrumna er venjulega lýst í meinafræðiskýrslu sem:

  • Mjög afbrigðilegum í útliti,


  • ífarandi í sogæðar,


  • ífarandi í blóðæðar,


  • án hormónaviðtaka,


  • hraðvaxandi,


  • með HER2 viðtökum.

Greinist karlmenn með krabbamein með hormónaviðtökum er venjulega valin andhormónameðferð. Taki brjóstakrabbameinið sig upp eða heldur áfram að vaxa þrátt fyrir andhormónameðferð, er hugsanlega bætt við krabbameinslyfjameðferð.


Krabbameinslyf má gefa sem töflur eða í æð. Hugsanlega vill læknir þinn láta setja í þig lyfjabrunn. Lyfjabrunnur er lítil plastskífa sem komið er fyrir undir bringunni ofanverðri eða í upphandlegg og liggur inn í stóra æð. Í lyfjabrunninn má stinga nál, bæði til að gefa krabbameinslyf og eins til að taka blóðsýni.


Krabbameinslyf eru hugsanlega gefin í nokkra daga og síðan veitt hvíld í vikutíma eða meira áður en næsti skammtur er gefinn. Þetta er endurtekið þar til meðferð er lokið þannig að á skiptast lyfjagjöf og hvíld á víxl. Hve langan tíma meðferð tekur fer eftir því hvaða lyf verða fyrir valinu og getur hún varað allt frá þremur vikum upp í hálft ár.


Iðulega eru notuð tvö eða fleiri lyf samtímis eða þau gefin hvert á eftir öðru. Það eykur líkur á að deyða mismunandi tegundir brjóstakrabbameinsfrumna úr sama meini. Þessi mismunandi samsetning lyfja er kennd við upphafsstafina í hverju lyfi fyrir sig.


Hér á eftir fylgja nöfn helstu samsetninga krabbameinslyfja:


  • AC +/- T: Adriamycin (efnafræðiheiti: doxorubicin) ásamt Cytoxan (efnafræðiheiti: cyclosphosphamíd), með eða án Taxol (efnafræðiheiti: paclitaxel) eða Taxotere (efnafræðiheiti: docetaxel).


  • TAC: Sömu lyf og að ofan en í annarri röð.


  • AT: Adriamycin með Taxoli eða Taxoteri.


  • CMF: Cytoxan, methotresat og fluorouracil (líka kallað 5-FU eða 5-fluorouracil).


  • CAF: Cytoxan, Adriamycin og Fluorouracil.


  • CEF: Cytoxan, Ellence (efnafræðiheiti: epirubicin) og Fluorouracil.


  • FAC eða CAF: Fluorouracil, Adriamycin og Cytoxan; lyfin eru gefin í mismunandi röð.


Önnur krabbameinslyf sem unnt er að gefa ein og sér eða í samsetningum eru til dæmis:


  • Capecitabine (Xeloda®). Tafla sem er tekin inn til að meðhöndla langt gengið (dreift) brjóstakrabbamein.


  • Gemicitabine (Gemzar®): Gefið ásamt Taxoli eða eitt og sér til að meðhöndla langt gengið brjóstakrabbamein.


  • Vinorelbine (Navelbine®) krabbameinslyf sem gefið er í æð og ætlað sjúklingum með meinvarpskrabbamein út frá brjóstakrabbameini. Navelbine hefur verið samþykkt sem (annars stigs) lyf sem nota má eftir að upphafleg (fyrsta stigs) lyfjagöf hefur verið veitt og er hætt að virka.


  • Paclitaxel (Abraxane®)  - prótínbundnar öreindir í svifefnablöndu sem gefin er í æð (albumin-bundnar)): Lyfið er notað til að meðhöndla meinvarpskrabbamein og hefur verið samþykkt til notkunar sem annars stigs lyf. *Þetta lyf er ekki notað hér á landi, a.m.k. enn sem komið er.


Læknir þinn mun segja þér hvaða lyfjasamsetning er líklegust til að gera mest gagn.


Krabbameinslyf ráðast á allar hraðvaxandi frumur líkamans. Yfirleitt eru krabbameinsfrumur þess konar frumur – en það á einnig við um frumur í munni, nefi og blóði. Frumur í höfuðleðri sem framleiða hár vaxa einnig hratt og sama má segja um frumur ónæmiskerfis og meltingarfæra.


Þegar áhrif krabbameinslyfja fara að segja til sín og verka á heilbrigðar frumur getur það haft í för með sér ýmsar hliðarverkanir, þar á meðal:


  • Ógleði,


  • uppköst og niðurgang,


  • sár í munnholi,


  • slen og þreytu,


  • aukna sýkingarhættu,


  • hármissi,

  • verki og óþægindi,


  • breytingu á lyktar- og bragðskyni,


  • áhrif á hjarta,


  • doða í fingrum og tám.


Með lyfjum má losna við eða minnka flestar aukaverkanir. Við sumum þeirra geturðu strax fengið lyf á undan eða eftir hverri lyfjagjöf. Flestar aukaverkanir hverfa á fáeinum vikum eða mánuðum þegar meðferð með krabbameinslyfjum er lokið.


Krabbameinslyf má gefa eitt í senn eða með öðrum krabbameinslyfjum. Krabbameinslyf eru hins vegar yfirleitt ekki gefin á sama tíma og andhormónameðferð stendur yfir. Krabbameinslyf má einnig gefa ásamt herseptíni (Herceptin®) sem er marksækið lyf sem gagnast fólki þegar HER2-viðtakar eru fyrir hendi.


*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

 ÞB