Skurðmeðferð

Skurðmeðferð er það sem tekur við að rannsóknum loknum, komi í ljós að það sem fannst í brjóstinu var krabbamein. Með skurðaðgerð fást fullkomnar upplýsingar um meinið og er það mikilvægt skref í meðferðinni. Algengasta tegund skurðaðgerðar á karlmönnum er “takmarkað brjóstnám”. Í því felst að geirvartan og dökka svæðið umhverfis hana (vörtubaugurinn) er fjarlægt ásamt öllum brjóstvef. Vöðvar á bringu eru látnir óáreittir. Eitlar eru einnig fjarlægðir. Fleygskurðaðgerð (aðeins tekin sneið úr brjóstvefnum) er yfirleitt ekki gerð á karlmönnum af því að brjóst þeirra eru svo lítil. Þegar æxlið og nálægur vefur hefur verið fjarlægt er nánast enginn brjóstvefur eftir.


Aðgerðin krefst svæfingar og yfirleitt þarf að dvelja eina nótt eða fleiri á sjúkrahúsi. Hugsanlega finnurðu fyrir verk eftir aðgerðina en hann lagast yfirleitt á fáeinum vikum. Skurðaðgerð hefur einnig hugsanlega í för með sér ýmsar hliðarverkanir:


  • Doði í húðinni meðfram skurðinum og væg eða miðlungsmikil eymsli í aðliggjandi svæðum (þar sem taugar voru teknar í sundur). Þetta er algengt.


  • Aukin viðkvæmni fyrir snertingu á skurðsvæðinu. Einnig þetta er af völdum taugaenda sem hafa verið særðir eða ertir. Þetta lagast venjulega þegar taugarnar hafa vaxið aftur.


  • Vökvasöfnun undir örinu. Þarna getur verið margúll (staðbundin fyrirsöfnun blóðs í vef eða holi) eða sermigúll (staðbundin fyrirsöfnun tærs vökva í sárinu). Hvort tveggja lagast yfirleitt með tímanum. Valdi margúllinn eða sermigúllin þér miklum óþægindum, gæti læknir þinn ákveðið að láta fjarlægja uppsafnaðan vökva. Tiltölulega auðvelt er að fjarlægja sermigúl með ástungu. Stundum kemur hann aftur. Þá verður hugsanlega tekin ákvörðun um að láta hann eiga sig þar til líkaminn er þess umkominn að vinna á honum. Afar sjaldan er margúll fjarlægður. Blóðið storknar í þykkan kökk. Þurfi að fjarlægja hann er hugsanlegt að opna þurfi skurðinn til að ná út kekkinum.


  • Sárið grær seint og illa. Þegar brjóstnám er framkvæmt þarf að skera sundur æðar sem flytja blóð í brjóstvefinn. Einstaka sinum geta komið upp vandamál þegar líkaminn leitast við að lækna skurðsvæðið. Sé ekki nægilegt blóðflæði í skurðbrúnirnar, getur hörundið visnað eða skorpnað og þurft að snyrta brúnirnar. Þetta er óalgengt og venjulega ekki mikið mál.


  • Hætta á sýkingu á skurðsvæðinu. Merki um sýkingu eru til dæmis roði eða þroti í húð, eymsli og hiti. Versni sýkingin geturðu fengið hita með tilheyrandi kuldahrolli og svita. Hafðu samstundis samband við lækni þinn ef þú verður var við þessi einkenni. Sýkingar er yfirleitt auðvelt að lækna með sýklalyfjum, einkum ef gripið er til þeirra án tafar. Fylgi margúll sýkingunni gæti bæði þurft að gefa sýklalyf og fjarlægja hann.

 ÞB