Eru hormónaviðtakar á krabbameinsfrumunum?

Í stuttu máli

Ef í skýrslunni stendur aðeins “neikvætt” biddu þá lækni þinn eða meinafræðinginn að gefa þér upp töluna. Það skiptir máli vegna þess að stundum er lág tala kölluð “neikvæð”. En krabbamein, jafnvel þótt talan yfir hormónaviðtakana sé lág, gæti engu að síður svarað vel meðferð með andhormónum.

Hormónaviðtakar eru eins og eyru á brjóstafrumum sem hlera merki frá hormónum. Þessi merki “kveikja á” vexti brjóstafrumna sem eru með hormónaviðtaka.

Sagt er að krabbamein sé ER-jákvætt hafi það viðtaka fyrir hormóninn estrógen. Sagt er að það sé PR-jákvætt hafi það viðtaka fyrir hormóninn progesterón. Brjóstafrumur sem ekki hafa viðtaka af þessu tagi er sagðar hormóna-“neikvæðar”.

Krabbamein sem er annað hvort ER-jákvætt eða PR-jákvætt, nema hvort tveggja sé, svarar andhormónameðferð yfirleitt mjög vel.

Krabbamein af þessu tagi er hægt að meðhöndla með lyfjum sem minnka estrógenmagn líkamans. Það má einnig meðhöndla með lyfjum sem hindra það að estrógen komist að hormónaviðtökum.

Sé krabbamein án hormónaviðtaka, eru engu að síður til áhrifaríkar leiðir til að meðhöndla það.

Niðurstöður úr rannsókn á hormónaviðtökum eru yfirleitt skráðar á þessa leið (þrír möguleikar):

 1. Fjöldi frumna með viðtaka af hverjum 100 frumum sem voru kannaðar (prósentutala). Tölurnar geta verið á bilinu 0% (engir viðtakar) upp í 100% (allar frumur með hormónaviðtaka).

 2. Tala á bilinu 0 til 3. Þá getur talan verið:

  • 0 (engar frumur með hormónaviðtaka)

  • 1+ (fáar frumur með hormónaviðtaka)

  • 2+ (meðlfjöldi frumna með hormónaviðtaka)

  • 3+ (margar frumur með hormónaviðtaka).

 3. Orðin "jákvætt" þýða að hormónaviðtakar eru fyrir hendi og "neikvætt" að engir hormónaviðtakar séu fyrir hendi.

ÞB