Eru óeðlilegir erfðavísar í meininu?

HER-2 staða krabbameinsfrumna

HER-2 er erfðavísir (gen) sem á þátt í að stjórna því hvernig frumur vaxa, skipta sér og gera við sjálfar sig. Um það bil eitt af hverjum fjórum tilfellum brjóstakrabbameins sýnir of mörg eintök af HER-2. HER-2 genið stjórnar framleiðslu ákveðins prótíns, sem í brjóstakrabbameinsfrumum kallast HER2-viðtaki. Lestu (á ensku) um niðurstöður nýlegra rannsókna á konum sem hafa greinst með HER2-jákvætt krabbamein á byrjunarstigi.

Krabbamein með of mörg eintök af HER2 geni eða of marga HER2 viðtaka hafa tilhneigingu til að vaxa hratt. Einnig er talin meiri hætta á að meinið dreifi sér. Það svarar hins vegar vel meðferð sem vinnur gegn HER2. Þannig meðferð er kölluð HER2-mótefnameðferð.

Til eru tvær aðferðir til að kanna HER2 stöðuna:

  1. IHC rannsókn (IHC er skammtöfun úr ImmunoHistoChemistry= mótefnalitun vefja) sem felst í að greina vaka í vefjasneiðum með notkun ensímtengdra mótefna og litlausra hvarfefna sem falla út og mynda lit í návist ensímsins.

    • IHC rannsókn leiðir í ljós hvort of mikið er af HER-2 viðtakaprótíni í krabbameinsfrumum.

    • Niðurstöður úr IHC rannsókn geta verið 0 (neikvæð), 1+ (neikvæð), 2+ (á mörkunum) eða 3+ (jákvæð).

  1. FISH rannsókn (FISH eru upphafsstafir í orðunum Fluorescence In Situ Hybridization – staðbundin þáttapörun).

    • FISH rannsókn sýnir hvort of mörg eintök eru af HER-2 erfðavísi í krabbameinsfrumum.

    • Niðurstöður úr FISH rannsókn geta verið “jákvæðar” (of mörg eintök) eða “neikvæðar” (eðlilegur fjöldi eintaka).

Fáðu að vita hvaða aðferð var notuð til að kanna HER-2 stöðuna. Þetta skiptir máli. Aðeins það krabbamein sem reynist með IHC-rannsókn vera “3+” eða “jákvætt” með FISH-rannsókn mun svara vel meðferð sem beinist að HER-2. Niðurstaða úr IHC rannsókn sem gefur 2+ er talin vera á mörkunum. Sé niðurstaða þín úr slíkri rannsókn 2+, ættirðu að biðja um að sýnin verði rannsökuð með FISH aðferð.

ÞB