Aldur,  endurkoma, heildarrannsókn

Hve gömul varstu þegar þú greindist?

Almennt má segja að brjóstakrabbamein sem greinist hjá konum yngri en 40 ára hafi oftast tilhneigingu til að vera ágengara en það sem greinist hjá eldri konum. Aldur skiptir því einhverju máli en segir samt lítið til um hve alvarlegt hvert einstakt tilfelli brjóstakrabbameins reynist vera.

Er brjóstakrabbamein að taka sig upp (endurkoma)?

Finni læknir þinn krabbamein í þeim hluta brjósts eða bringu sem er algjörlega aðskilinn frá þeim stað þar sem upphaflegt krabbamein fannst, er líklegt að um nýtt krabbamein sé að ræða fremur en að gamla meinið sé að taka sig upp á nýtt. Þetta á einkum við ef liðin eru fleiri en fimm ár frá því að þú greindist fyrst. Að greinast með nýtt krabbamein er yfirleitt, en ekki alltaf, æskilegra en að mein taki sig upp aftur. Segi læknir þinn að krabbameinið sé að taka sig upp aftur á sama stað eða á aðliggjandi svæði, mun hann meta stöðu þína með hliðsjón af öllum þeim þáttum sem hér er fjallað um, auk ýmissa annarra atriða.

Hve nákvæmlega læknir þinn lætur rannsaka þig og leita að ummerkjum víðar í líkamanum fer eftir því hversu mikil hætta er á að krabbameinið hafi sáð sér. Greinist þú með staðbundið brjóstakrabbamein getur verið óþarfi að rannsaka það betur vegna þess að þú ert ekki með þá tegund brjóstakrabbameins sem líklegt er að sái sér til annarra hluta líkamans. Sé minnsta hætta á fjarmeinvörpum verður blóðið rannsakað til að fá hugmynd um ástand lifrar, beina og nýrna. Séu miklar líkur á að þú veikist af fjarmeinvörpum verður allur líkaminn rannsakaður vandlega, með röntgenmyndatöku, sneiðmyndatöku og hugsanlega einhverju fleira.

ÞB