Hin ýmsu stig brjóstakrabbameins

Stig krabbameins er ákvarðað út frá stærð æxlis, hvort meinið er ífarandi eða staðbundið, hvort það hefur sáð sér í eitla og hvort krabbamein hefur dreift sér út fyrir brjóstið. Tilgangurinn með því að flokka brjóstakrabbamein í mismunandi stig er er að koma skipulagi á mismunandi þætti og sum séreinkenni krabbameinsins. Þá er auðveldara að:

  • Átta sig á batahorfum.

  • Taka ákvörðun um meðferð því að rannsóknir á hinum ýmsu meðferðarleiðum sýna að þegar þú og læknir þinn takið ákvörðunina ræðst það að hluta af stigunarkerfinu.

  • Finna almenna aðferð til að lýsa umfangi brjóstakrabbameins þannig að hægt sé að bera saman og skilja árangur af mismunandi krabbameinsmeðferðum víðs vegar um heiminn.

3-4-12

Stækka mynd

Stærð meina:

Þrír hringir 1 cm, 3cm og 5cm að stærð. Mynd af AA rafhlöðu til viðmiðunar.

Stig 0

Þessu stigi er lýst sem afmörkuðu setmeini sem ekki getur dreift sér (ekki ífarandi/góðkynja) meini. Engin merki eru um að krabbameinsfrumur hafi borist úr þeim hluta brjóstsins þar sem þær eiga upptök sín eða hafi farið inn í aðliggjandi eðlilegan vef. LCIS og DCIS eru dæmi um krabbamein á 0-stigi.



Stig I

Þetta stig er algengast og lýsir ífarandi brjóstakrabbameini (krabbameinsfrumur eru á leið í gegnum eða hafa borist inn í aðliggjandi heilbrigðan vef).


  • Meinið mælist allt að tveimur sentimetrum að stærð OG

  • Það hefur ekki sáð sér í eitla.



Stig II

Þessu stigi er skipt í flokkana IIA og IIB.

Á stigi IIA telst ífarandi brjóstakrabbamein þar sem:

  • Ekkert æxli finnst í brjóstinu en krabbameinsfrumur finnast í eitlum í holhönd.

  • Æxlið er 2 sentímetrar eða minna að stærð og hefur sáð sér í holhandareitla.

  • Æxlið er stærra en 2 sentímetrar en minna en 5 sentímetrar og hefur ekki sáð sér í holhandaraeitla.

Á stigi IIB telst ífarandi brjóstakrabbamein þar sem:

  • Æxlið er stærra en 2 en minna en 5 sentímetrar og hefur sáð sér í holhandareitla.

  • Æxlið er stærra en 5 sentímetrar en hefur ekki sáð sér í holhandareitla.


Stig III

Þessu stigi er skipt í þrjá undirflokka, IIIA, IIIB og IIIC.

Á stigi IIIA telst ífarandi brjóstakrabbamein þar sem eitthvað af þessu á við:

  • Ekkert æxli finnst í brjóstinu. Krabbamein finnst í holhandareitlum sem hafa klasað sig saman eða eru fastir hver við annan eða aðliggjandi vef eða krabbamein hefur sáð sér í eitla nærri bringubeini.

  • Æxlið er 5 sentímetrar eða minna og krabbameinsfrumur hafa sáð sér í holhandareitla sem hafa klasað sig saman eða eru fastir hver við annan eða aðliggjandi vef.

  • Æxlið er stærra en 5 sentímetrar og hefur sáð sér í eitla í holhönd sem hafa klasað sig saman eða eru fastir hver við annan eða aðliggjandi vef.

Á stigi IIIB telst ífarandi brjóstakrabbamein þar sem:

  • Æxlið er af hvaða stærð sem er en meinið hefur sáð sér í bringu og/eða hörund brjóstsins.

  • Meinið kann að hafa sáð sér í holhandareitla sem hafa klasað sig saman eða eru fastir hver við annan eða aðliggjandi vef eða meinið hefur dreift sér til eitla nærri bringubeini.

  • Um er að ræða bólgukrabbamein sem yfirleitt telst að minnsta kosti á stigi IIIB.

Á stigi IIIC telst ífarandi brjóstakrabbamein þar sem:

  • Engin merki eru um æxli í brjóstinu eða, sé æxli  fyrir hendi, þá getur það verið af hvaða stærð sem vera kann en hefur dreift sér í bringubein og/eða hörund á brjósti OG

  • krabbamein hefur sáð sér í eitla yfir eða undir viðbeini, OG

  • krabbamein kann að hafa sáð sér í holhandareitla eða eitla nærri bringubeini.

 

Stig IV

Á stigi IV telst ífarandi brjóstakrabbamein þar sem:


  • Krabbamein hefur sáð sér í önnur líffæri - yfirleitt í lungu, lifur, bein eða heila. 

Að krabbamein sé „meinvarp við greiningu” þýðir að brjóstakrabbamein hefur verið til staðar í brjóstinu og náð að dreifa sér þaðan í aðliggjandi eitla eða vefi þótt það hafi ekki fundist fyrr og þetta sé fyrsta sjúkdómsgreining. Krabbameinið byrjaði í brjóstinu en uppgötvaðist ekki á meðan það var aðeins þar. Dreift krabbamein/fjarmeinvörp eru krabbamein á IV. stigi.



Aðrar flokkanir:


Talað er um „fyrstu stig”, „byrjunarstig”, „síðari stig” eða „fjarmeinvörp" brjóstakrabbameins. Þessi orð eru ekki mjög nákvæm læknisfræðilega (og læknar kunna að nota þau á mismunandi hátt). Lýsingin sem hér fer á eftir gefur þó hugmynd um hvernig þau eru yfirleitt notuð í opinberu eða fræðilegu samhengi:


Fyrstu stig:


  • Stig 0

  • Stig I

  • Stig II

  • Sumt á stigi III


Síðari stig eða langt gengið:


  • Annað á stigi III.

  • Stig IV

Læknar nota stigakerfið til að ákvarða hve langt krabbamein er gengið. Algengasta kerfið er s.k. TNM stigunarkerfi. Krabbameini er oft lýst út frá þremur megineinkennum:


 

  • Stærð æxlis (æxli =T).


  • Hvort eitlar eru hreinir eða krabbamein hefur sáð sér í eitla (eitill = N).


  • Hvort meinið hefur sáð sér til líffæra (fjarmeinvörp = M).


Með T (stærð) er frumæxlinu lýst:


  • TX (T=TUMOR), ekki hægt að mæla eða finna æxli.


  • T0, engin merki um frumæxli.


  • Tis, þýðir að meinið er staðbundið (is=in situ) og hefur ekki sáð sér í nærliggjandi brjóstvef. 


  • Tölur frá T1 upp í T4 lýsa stærð og/eða hversu langt meinið hefur vaxið inn í brjóstavefinn. Því hærri sem T-talan er, þeim mun stærra er æxlið og/eða því lengra kann það að hafa vaxið inn í brjóstavef.


Þegar ástandi eitla er lýst er það gert þannig:


  • NX þýðir að ekki er unnt að finna aðliggjandi eitla í holhönd.


  • N0 þýðir að krabbamein hefur ekki borist í aðlæga eitla.


  • Tölur frá N1 upp í N3 lýsa stærð, staðsetningu og/eða þeim fjölda eitla sem krabbamein hefur sáð sér í. Því hærri sem N-talan er, í þeim mun fleiri eitlum finnst krabbamein.


Þegar lýst er hvort mein hefur dreift sér eða ekki í aðra hluta líkamans er það gert þannig (M=METASTASIS)


  • MX þýðir að ekki er hægt að finna eða mæla meinvörp.


  • M0 þýðir að engin fjarmeinvörp eru til staðar.


  • M1 þýðir að fjarmeinvörp eru til staðar.


Þegar meinafræðingurinn veit hver einkenni þín eru með tilliti til T, N og M og þeim er raðað saman, fæst lýsing á meininu eins og það lítur út.


Úr lýsingu sem segir að krabbameinið sé T1, N0, M0 yrði þá lesið svona:


  • Æxlið er minna en tveir sentímetrar að þvermáli (T1),


  • Ekki finnast eitlar sem krabbamein hefur sáð sér í (N0),


  • Krabbamein hefur ekki sáð sér í fjarlæga hluta líkamans (M0).


Svona krabbamein yrði flokkað sem krabbamein á stigi I.

ÞB