Vaxtarhraði og sérhæfing (gráðun) krabbameinsfrumna

Með smásjá leitar meinafræðingur að vísbendingum sem geta orðið til þess að gefa mynd af því hvernig krabbameinið vex, þar á meðal:


  • Hve hratt krabbameinsfrumur skipta sér: Hlutfall krabbameinsfrumna sem vaxa og búa til nýjar frumur er breytilegt frá einu æxli til annars – og getur stuðlað að því að segja fyrir um hversu ágengt krabbameinið er. Myndi meira en 6% til 10% af frumunum nýjar frumur er hraði vaxtarins yfirleitt talinn mikill. Læknir þinn kann að biðja um sérstaka rannsókn sem kallast S-fasa hlutfall eða Ki-67 rannsókn, í því skyni að mæla hversu hratt frumur skipta sér. Mælingar á vaxtarhraða geta verið óáreiðanlegar. Læknir þinn kann að líta á niðurstöðu mælinga af þessu tagi en byggja ákvarðanir sínar um meðferð á öðrum og áreiðanlegri einkennum meinsins.


  • Sérhæfing (gráðun) krabbameinsfrumna: Frumuvöxturinn er flokkaður eftir sérhæfingu frá 1 upp í 3. Stundum er talað um litla, miðlungs eða mikla sérhæfingu í staðinn fyrir 1. 2. og 3. gráðu. Hægur, vel skipulagður vöxtur með fáum frumum að skipta sér telst vera fyrsta gráða. Óskipulagður og óreglulegur vöxtur þar sem margar frumur eru í óða önn að skipta sér og búa til nýjar frumur telst þriðja gráða. Því lægri sem gráðan er þeim mun vænlegri má búast við að útkoman verði. Þó má segja að því hærri sem gráðan er, þeim mun viðkvæmari séu krabbameinsfrumurnar fyrir meðferðum eins og krabbameinslyfjameðferð og geislameðferð. Því geta konur með sérhæfingu krabbameinsfrumna á þriðja stigi einnig verið vongóðar um áhrif meðferðar.


  • Dauðar frumur í æxlinu: Freistandi getur verið að hugsa sem svo að eina krabbameinsfruman sem hægt sé að sætta sig við sé dauð krabbameinsfruma. Samt er það þannig að frumudauði (necrosis) er eitt af mörgum merkjum um óeðlilegan frumuvöxt og æxlismyndun. Frumudauðinn táknar að æxlið vex svo hratt að sumar æxlisfrumurnar visna og deyja af því að ekki er nægilegt blóðflæði til að sjá þeim öllum fyrir næringu. Þetta er minniháttar þáttur í sambandi við krabbamein en samt óhagstæður vegna þess að hann sýnir hve vöxturinn er ör.

ÞB