Litningafjöldi, HER2-gildi og æxlisvísar

Hafa krabbameinsfrumur eðlilegan fjölda litninga?

 Litningar (krómósóm) eru þráðlaga líffæri í frumukjarnanum. Þeir koma í ljós við frumuskiptingu og bera í sér erfðavísana/genin. Læknar nota s.k. litnun til að mæla fjölda litninga í krabbameinsfrumum til þess að ákvarða hversu hratt æxlið vex.

     ·         Tvílitna (diploid) krabbameinsfrumur hafa eðlilegan fjölda litninga.

    ·         Ójafnlitna (aneuploid) krabbameinsfrumur hafa fleiri litninga en eðlilegt er af því að þær vaxa hraðar en eðlilegar fumur og þurfa á aukalegu erfðaefni að halda handa nýju frumunum sem þær eru að búa til.

    ·         Betur gengur að ráða við tvílitna krabbameinsfrumur en þær sem eru ójafnlitna. Litningafjöldinn er hins vegar aðeins einn af mörgum þáttum sem einkenna hvert krabbamein. Þetta atriði eitt og sér hefur ekki mikið að segja um heildarútkomuna

    
  Hversu hratt skipta krabbameinsfrumurnar sér?

 Hlutfall krabbameinsfrumna sem vaxa og búa til nýjar frumur er breytilegt frá einu æxli til annars – og getur stuðlað að því að segja fyrir um hversu ágengt krabbameinið er. Myndi meira en 6% til 10% af frumunum nýjar frumur er hraði vaxtarins yfirleitt talinn mikill. Læknir þinn kann að biðja um sérstaka rannsókn sem kallast S-fasa hlutfall eða Ki-67 rannsókn, í því skyni að mæla hversu hratt frumur skipta sér. Mælingar á vaxtarhraða geta verið óáreiðanlegar. Læknir þinn kann að líta á niðurstöðu mælinga af þessu tagi en byggja ákvarðanir sínar um meðferð á öðrum og áreiðanlegri einkennum meinsins.

 HER-2 gildi

 HER-2 jákvætt brjóstakrabbamein er jákvætt í þartilgerðum prófunum (sem kallast IHC og FISH), fyrir próteini sem kallað er “human epidermal growth factor receptor 2 (HER-2)” og stýrir eða kemur að vexti krabbameinsfruma.

   Í u.þ.b. 1/5 af brjóstakrabbameinstilfellum ( á Íslandi <15%) framleiða brjóstakrabbameinsfrumur of mikið af HER-2 próteini og er þá talað um ofurtjáningu á því. Þessi ofurtjáning á sér stað vegna stökkbreytinga og á hún sér stað í krabbameinsfrumunni sjálfri og er því ekki meðal þeirra stökkbreytinga sem erfast frá foreldrum til barna.

   HER-2 jákvætt brjóstakrabbamein hefur tilhneigingu til að vera illvígara en aðrar tegundir brjóstakrabbameins. Það er einnig líklegara til að svara ekki andhormónameðferð. En aftur á móti þá svarar það oft vel meðferð sem beitt er gegn þessu tiltekna próteini.  Sjá marksækin meðferð: Herceptin® og Tykerb®.

Er krabbameinið afleiðing af ofvirkni æxlisvísa?

Læknarnir munu vilja láta mæla það magn prótína sem brjóstakrabbameinsfrumurnar framleiða. Þeir leita þá að merkjum um ofvirkni æxlsvísa. Æxlisvísar eru upplýsingarkjarni innan í frumum líkamans sem undir venjulegum kringumstæðum hafa það hlutverk að verja líkamann krabbameini með því að hafa stjórn á frumuvexti.

Ofvirkni æxlisvísa á sér stað þegar æxlisvísir (eins og sá sem kallast HER2/neu) hættir að starfa rétt og verður „ofvirkur” ( þ.e. fer að æpa í stað þess að tala, svo notuð sé einföld mynd) og gerir það með því að búa til meira af eðlilegum eða óeðlilegum prótínum og viðtökum en eðlilegt er. Það getur framkallað krabbamein. Krabbamein sem er afleiðing ofvirkra æxlisvísa eins og HER2/neu hefur tilhneigingu til að vera ágengara og líklegra til að stinga aftur upp kollinum en aðrar tegundir krabbameins. Aðrar meðferðarleiðir kunna sömuleiðis að virka á það en á aðrar tegundir brjóstakrabbameins.

Vitað er um ýmsar tegundir afbrigðilegra æxlisvísa sem geta valdið brjóstakrabbameini, þar á meðal eru HER2/neu, EGFR og p53 (sem getur verið arfgengur).

Að vita að krabbamein kunni að stafa af ofvirkum æxlisvísi getur hjálpað lækni þínum til að velja áhrifaríkari meðferð fyrir þig en ella. Finnist til dæmis hjá þér umframmagn HER2/neu prótíns eða viðtaka er hugsanlegt:

  • Að reikna megi með góðum árangri af notkun trastuzumab (Herceptin®), sérhæfðu lyfi sem notað er til að meðhöndla HER2/neu prótín í s.k. marksækinni meðferð.

  • Að CMF lyfjameðferð og Tamoxifen® skili litlum árangri.

  • Gera þurfi ráð fyrir stærri skammti af CAF lyfjameðferð til þess að ná sem bestum árangri.

*Á krabbameinsdeild LSH er orðið alvanalegt að kanna hvort æxlisvísar eru ofvirkir, en víða er það ekki hluti af venjulegum rannsóknum. Margar nýlegar rannsóknir benda til þess að upplýsingar sem fást með þessu móti geti reynst afar mikilsverðar.

Meira um:


*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB