Bólgukrabbamein í brjósti er sjaldgæft en finnst orðið oftar en áður

K.W.Hance og fleiri, Journal of the National Cancer Institute, 6. júlí 2005


Er þetta eitthvað fyrir mig? Þú gætir haft áhuga á að lesa þessa grein ef þú hefur greinst með bólgukrabbamein í brjósti eða hefur áhyggjur af því að brjóstin hafa bólgnað, eru heit viðkomu og roði í þeim.


Bakgrunnur og mikilvægi rannsóknarinnar: Bólgukrabbamein í brjósti er tiltölulega sjaldgæf en mjög alvarleg og ágeng tegund af brjóstakrabbameini á stigi IIIB. Helsta einkenni bólgukrabbameins er roði á hluta eða öllu brjóstinu. Í roðanum er jafnframt hiti. Stundum kemur roðinn og fer. Hugsanlega sérðu bólgumerki í húðinni sem líkist þá berki af appelsínu (“appelsínuhúð”), jafnvel rákir eins og eftir svipuhögg eða upphlaup og útbrot. Hluti af brjóstinu eða brjóstið allt getur hafa stækkað og er hart viðkomu. Hnúður eða klumpur finnst hjá um helmingi kvenna, en það getur verið erfitt að finna hann við þreifingu vegna þess að brjóstið er iðulega stærra og harðara viðkomu en eðlilegt er. Stundum er bólgukrabbamein í brjósti ranglega greint sem sýking.


Það ER erfitt að greina bólgukrabbamein í brjósti. Vegna þess hve sjaldgæfur sjúkdómurinn er þá hafa margir læknar aldrei kynnst honum. Hann hefur heldur ekki verið rannsakaður jafn ítarlega og aðrar tegundir brjóstakrabbameins. Sýking er mun algengari orsök bólgu og roða í brjóstum – og því er það sú greining sem læknum kemur fyrst í hug.


Mat á því hversu algengt bólgukrabbamein í brjósti er, liggur á bilinu 1% til 10% af öllum tilfellum brjóstakrabbameins. Sú stóra rannsókn sem hér er til umfjöllunar var gerð í því skyni að komast að því hversu oft bólgukrabbamein finnst og fá betri vitneskju um einkenni sjúkdómsins.


Efniviður og aðgerðir: Rannsakendur við George Washington University og National Cancer Institute (Krabbameinsstofnun Bandaríkjanna) skoðuðu gögn um 180.224 tilfelli brjóstakrabbameins sem greind voru á árunum 1988 til 1999. Upplýsingarnar fengust úr SEER-skránni (Surveillance, Epidemiologi, and End Results), en þar er skráð hve margt fólk í Bandaríkjunum fær krabbamein á hverju ári (nýgengi) og hversu lengi það lifir (lifun). Skráin er í umsjón krabbameinsstofnunarinnar.


Rannsakendur tóku fram gögn um öll þau tilfelli sem skráð voru um konur með bólgukrabbamein í brjósti á umræddu árabili. Í hverju tilfelli var safnað saman upplýsingum um lifun, aldur við greiningu og kynþátt.


Niðurstöður: Rannsakendur komust að því að af 180.224 tilfellum brjóstakrabbameins sem greindist voru 3.648 (2) bólgukrabbamein. Á árunum 1988 til 1999 fjölgaði tilfellum bólgukrabbameins í brjósti úr 2 af hverjum 100.000 konum upp í 2,5 af hverjum 100.000. Hins vegar hafði öðrum tilfellum brjóstakrabbameins samanlagt fækkað á sama tímabili, úr 108 tilfellum á hver hundrað þúsund niður í 101 tilfelli af hundrað þúsund konum.


Meðalaldur kvenna sem greindust með bólgukrabbamein í brjóstum var 59 ár – um það bil 3 til 7 árum lægri en meðalaldur kvenna sem greindust með aðrar tegundir brjóstakrabbameins. Hjá konum af afrískum uppruna fundust fleiri tilfelli bólgukrabbameins í brjóstum (3,1 tilfelli hjá hverjum 100.000 konum) heldur en hjá konum af hvítum kynstofni (2,2 tilfelli hjá hverjum 100.000 konum).


Konur með bólgukrabbamein brjósti lifðu að meðaltali í þrjú ár eftir að þær greindust, miðað við 6 til 10 ár hjá konum sem greindust með aðrar tegundir brjóstakrabbameins. Konur af afrískum uppruna með bólgukrabbamein í brjósti lifðu skemur en hvítar konur – í tvö ár eftir greiningu, samborið við þrjú ár hvítra kvenna. Þó má segja að almennt lifa konur sem greinst hafa með bólgukrabbamein í brjostum eilítið lengur nú en á umræddu árabili.


Ályktanir: Rannsakendur ályktuðu sem svo að bólgukrabbamein í brjósti sé enn sem fyrr tiltölulega sjaldgæft. En á árunum 1988 til 1999 fjölgaði tilfellunum. Þeir drógu þá ályktun að:


  • Konur sem fá bólgukrabbamein í brjóst lifa skemur en þær sem greinast með aðrar tegundir, en lífslíkur höfðu þó lagast örlítið á tímabilinu sem rannsóknin náði til.


  • Konur sem greinast með bólgukrabbamein í brjósti eru yfirliett yngri en þær sem greinast með annars konar brjóstakrabbamein.


  • Blökkukonur eru líklegri til að greinast með bólgukrabbamein í brjósti en hvítar konur og lifa yfirleitt skemur eftir greiningu.


Lærdómur sem draga má: Bólgukrabbamein í brjósti er mjög alvarleg og afar ágeng tegund krabbameins. Sjúkdómurinn er hins vegar sjaldgæfur og finnst aðeins hjá 2,5 konum af hverjum eitt hundrað þúsund. Rannsóknin er mikilvæg vegna þess að hún veitir innsýn inn í fleiri atriði í tengslum við bólgukrabbamein í brjósti en áður voru þekkt og hvernig aldur og kynþáttur kunna að hafa áhrif á líkur á að fá sjúkdóminn.


Ef brjóst þitt er rautt, hiti í því, það hefur stækkað eða húðin virðist hafa þykknað og líkist appelsínuberki, skaltu hafa samband við lækni eða leitarstöð og láta skoða þig umsvifalaust. Líklegast er að þú sért með sýkingu í brjóstinu og er enn líklegra ef þú ert einnig með hita og eymsli. Hiti af völdum sýkingar kallar á tafarlaus viðbrögð. Ef um sýkingu er að ræða ættu flest einkenni að hverfa áður en vika er liðin ef þú færð sýklalyf. Stundum geta verið sýkingarblettir í brjóstinu, til dæmis á stað þar sem hefur verið tekið vefjarsýni. Ef um ígerð eða graftarbólgu er að ræða getur tekið lengri tíma að losna við hana. Þú gætir jafnvel þurft að fara í aðgerð til að hreinsa út ígerðina.


Fleira getur komið brjósti til að roðna og þrútna. Eitt af því er að fá geislameðferð á brjóst. Þegar geislameðferð er um það bil hálfnuð byrjar húðin á brjóstinu venjulega að roðna, hún bólgnar og brjóstið verður aumt viðkomu (en þó enginn hiti). Þetta ástand getur staðið í nokkra mánuði frá því að meðferðinni lýkur. Roði getur einnig komið fram af völdum húðsjúkdóma sem ekki eru krabbamein eins og til dæmis sóríasis, exems og herpes.


Ef brjóstið heldur áfram að vera rautt og þrútið eftir að þú ert búin að fara á sýklalyfjakúr og þú kannast ekki við að vera með neinn af ofangreindum húðsjúkdómum, þá ættir þú að fara og láta taka úr þér vefjarsýni til að fullvissa þig um að þetta sé ekki bólgukrabbamein í brjósti. Hugsanlega finnast merki um krabbamein í sýninu. Stundum gerist það líka að í niðurstöðu úr rannsókn á sýni segja að það sé “hreint”, jafnvel þótt roðinn og bólgan séu að versna. Þá þarftu að láta taka annað sýni.


Bólgukrabbamein í brjósti finnst aðallega við skoðun hjá lækni og er síðan staðfest með vefjarsýni. Það getur verið erfitt að greina meinið. Það getur valdið ruglingi að ekki finnst neinn hnúður eða klumpur, að ekki sé talað um ef í niðurstöðum rannsókna á sýni segir að það sé “hreint”. Ef þú hefur áhyggjur af að vera hugsanlega með bólgukrabbamein í brjósti er áríðandi að þú talir við lækni sem er sérfræðingur í brjóstakrabbameini (t.d. á leitarstöð) og hefur reynslu af að greina og meðhöndla bólgukrabbamein í brjósti.


Meðferð sem þarf að beita á bólgukrabbamein í brjósti er harkaleg. Bestu fáanlegu lyf, skurðaðgerð og geislameðferð eru notuð samtímis eða hvert á eftir öðru samkvæmt meðferðaráætlun sem er sniðin að þínum þörfum. Fyrsta meðferð við bólgukrabbameini í brjósti er meðferð með krabbameinslyfjum. Herseptín (efnafræðiheiti: trastuzumab) gegnir yfirleitt mikilvægu hlutverki samtímis meðferð með krabbameinslyfjum eða að henni lokinni, ef krabbameinið er HER2- jákvætt. Þegar meðferð með lyfjum hefur minnkað meinið eru notaðar staðbundar meðferðarleiðir: skurðaðgerð og geislameðferð. Þú munt einnig verða sett í andhormónameðferð ef krabbameinið er með hormónaviðtaka. Yfirleitt er ráðið frá því að byggja upp nýtt brjost fyrr en eftir að öllum meðferðum er lokið og ekkert bendur lengur til þess að krabbamein sé til staðar eða að það muni taka sig upp á ný.


Tegundir meðferða og í hvaða röð þú ferð í þær ræðst af ástandi þínu og aðstæðum. Láttu þér ekki koma á óvart þótt meðferðaráætlun verði breytt nokkrum sinnum á meðan á meðferðum stendur. Læknir þinn mun vilja sjá hvernig krabbameinið bregst við meðferð og gera nauðsynlegar breytingar eftir því.

ÞB