LCIS (staðbundið mein í mjólkurkirtli) tengist auknum líkum á ífarandi brjóstakrabbameini

P. Chuba o.fl.


Journal of Clinical Oncology, 20. ágúst 2005


Er þetta eitthvað fyrir mig? Þú kannt að hafa áhuga á að lesa þessa grein ef þú hefur greinst með staðbundið krabbamein í mjólkurkirtli (LCIS=lobular carcinoma in situ).


Baksvið og mikilvægi rannsóknarinnar: Staðbundið mein í mjólkurkirtli eða LCIS er venjulega talið vera forstig krabbameins. Frumur sem minna á krabbameinsfrumur er að finna og halda sig inni í mjólkurkirtlum (kirtlum sem framleiða brjóstamjólk). Mein er hvers kyns krabbamein sem á upptök sín í vefjum sem hylja eða fóðra líkama þinn, eins og til dæmis brjóstvefinn eða líkamann að utanverðu (hörundið) In situ (er latína og þýðir “staðbundið”). Það merkir að frumur hafa ekki sáð sér í aðliggjandi vef.


Rannsóknir hafa sýnt að LCIS, staðbundið mein, eykur líkur á að fá ífarandi brjóstakrabbamein. Hins vegar er óljóst hversu MIKIÐ líkurnar aukast. Að þekkja þínar eigin líkur getur hjálpað þér að ákveða hvað þú gerir til að draga úr þeim og vernda sjálfa þig. Ákvarðanir þínar geta verið allt frá því að láta lækni þinn fylgjast náið með þér og sérhverju merki um brjóstakrabbamein yfir í það að taka inn tamoxifen eða fara í fyrirbyggjandi skurðaðgerð.


Rannsóknin sem hér er til umfjöllunar skoðaði niðurstöður frá mörgum konum til að reyna að ákvarða hversu mikið LCIS (staðbundið/góðkynja mein í mjólkurgangi) eykur líkurnar á að seinna meir myndist ífarandi brjóstakrabbamein.


Efniviður og aðferðir: Rannsakendur frá Michigan og Karliforníu notuðu gagnabanka sem inniheldur upplýsingar um krabbamein um öll Bandaríkin. Skráin er kölluð Surveillance, Epidemiology, and End Results (SEER-skrá) og er markmið hennar að safna upplýsingum um eftirlit, útbreiðslu og árangur. Hún er risastór og upplýsingarnar vandlega flokkaðar um hversu margt fólk í Bandaríkjunum fær krabbamein á hverju ári (nýgengi) og hversu lengi það fólk lifir (lifun). Umsjón með skránni hefur Krabbameinsstofnun Bandaríkjanna (The National Cancer Institute).


Til að átta sig á hversu mikið LCIS eykur líkurnar á ífarandi brjóstakrabbameini báru rannsakendur saman tvo hópa kvenna í SEER-skránni. Fyrst fundu þeir allar konur sem höfðu greinst með LCIS á árunum 1973 til 1998. Síðan fundu þeir hversu margar af þessum konum höfðu greinst með ífarandi brjóstakrabbamein ári eða meira eftir að þær greindust með staðbundna meinið. Þeir fundu síðan allar konur í SEER-skránni sem greindust með ífarandi brjóstakrabbamein á sama árabili (1973 til 1998) sem EKKI höfðu áður greinst með staðbundið mein í mjólkurkirtli (LCIS), en það telst vera forstig ífarandi brjóstakrabbameins.


Þegar rannsakendur báru saman þessa tvo hópa kvenna með illkynja brjóstakrabbamein könnuðu þeir:


 • hvar í brjóstinu meinið fannst,


 • í hvoru brjóstinu meinið fannst (vinstra eða hægra), • kynþátt kvennanna.


Hjá konunum sem höfðu fyrst greinst með staðbundið mein áður en þær fengu illkynja mein, könnuðu þeir:


 • aldur þegar staðbundna meinið fannst,


 • árið sem staðbundna meinið fannst,


 • tegund skurðaðgerðar vegna meinsins, og


 • árafjöldann sem leið milli þess að staðbundna meinið fannst og þær síðan greindust með ífarandi mein (illkynja mein).


Niðurstöður: Rannsakendur komust að því að á árunum 1973 til 1998:


 • greindust 4.853 konur með staðbundið mein (LCIS). Af þessum konum greindust 350 með ífarandi (illkynja) brjóstakrabbamein ári eða meira síðar.


 • greindust 255.114 konur með frumstig ífarandi brjóstakrabbameins.


Þetta þýðir að líkur kvenna sem höfðu greinst með staðbundið krabbamein voru 2,4 sinnum meiri á að fá illkynja krabbamein en annarra. Auk þess var krabbameinið á nýrra stigi sem fannst hjá konum sem áður höfðu greinst með LCIS en krabbamein sem greindist í fyrsta sinn og reyndist þá ífarandi brjóstakrabbamein. Fleiri konur sem áður höfðu greinst með LCIS voru með krabbamein án sýkingar í eitlum.


Að sumu leyti var enginn mismunur á konunum sem höfðu fyrst greinst með LCIS og hinum sem greindust með ífarandi krabbamein án undangengins staðbundins meins:


 • Staðsetning hins ífarandi krabbameins í brjóstinu var nokkurn veginn sú sama í báðum hópunum.


 • Um það bil sami fjöldi meina var í hægra og vinstra brjósti í báðum hópum.


Að meðaltali greindust 7,1% kvennanna sem áður höfðu greinst með LCIS, með ífarandi brjóstakrabbamein innan 10 ára. Líkurnar á að fá ífarandi brjóstakrabbamein jókst með aldrinum:Aldur við greiningu LCIS

% greindra með ífarandi brjóstakrabbamein 10 árum síðar

40 og yngri

5.6

41–49

4.7

50–59

7.5

60–69

10.4

70 ára og eldri

13.9

Kynþáttur kvennanna hafði engin áhrif á það hvort þær fengu ífarandi brjóstakrabbamein eftir að hafa fengið LCIS (staðbundið / góðkynja) mein. Einnig fannst nokkurn veginn sami fjöldi tilfella ífarandi brjóstakrabbameins í hægra brjósti og í því vinstra. Það þýðir að það virtist ekki skipti máli í hvoru brjóstinu staðbundna meinið hafði fundist á sínum tíma og hafði ekki áhrif á í hvoru brjóstinu ífarandi meinið fannst.


Rannsakendur veltu því fyrir sér hvort það hefði áhrif á líkur á ífarandi brjóstakrabbameini hvað ár greiningin á staðbundna krabbameininu átti sér stað. (Þeir vildu kanna hvort framfarir í greiningu hefðu haft einhver áhrif.) Í þessu skyni báru þeir konurnar sem greindust með staðbundið mein á árunum 1973 til 1985 (1.293 konur) saman við þær sem greindust með staðbundið mein á árunum 1986 til 1998 (3.560 konur):
Tímabil þegar staðbundið mein greindis (LCIS)

% greindra með ífarandi brjóstakrabbamein fimm arum síðar

1973–1985

2.9

1986–1998

4.7

Mismunurinn hélt áfram að vera óbreyttur í 10 og 15 ár eftir greiningu LCIS.


Meirihluti kvennanna sem höfðu greinst með staðbundið mein (68%) höfðu gengist undir fleygskurð eða einhvers konar skurðaðgerð sem gerði þeim kleift að halda brjóstinu, 28% höfðu farið í brjóstnám og því allt brjóstið tekið og um það bil 4% höfðu gengist undir vefjarsýnistöku af einhverju tagi.


Tíu árum eftir að staðbundna meinið greindist höfðu:


 • 8,8% kvennanna sem höfðu farið í skurðaðgerð vegna LCIS og haldið brjóstinu síðar fengið ífarandi brjóstakrabbamein. Engu skipti í hvoru brjóstinu staðbundna meinið hafði fundist, ífarandi krabbameinið fannst jafn oft í vinstra brjósti og því hægra.


 • 5,7% kvennanna sem höfðu gengist undir brjóstnám vegna staðbundins meins, og brjóstið því allt verið fjarlægt, greindust síðar með ífarandi brjóstakrabbamein. Þar sem brjóstið hafði verið fjarlægt til að komast fyrir staðbundna meinið fannst nýja, ífarandi meinið, langoftast í hinu brjóstinu.


Þessi litli munur á líkunum á ífarandi krabbameini var sá sami 15, 20 og 25 árum eftir að staðbundna meinið fannst.


Niðurstöður: Rannsakendur komust að þeirri niðurstöðu að staðbundið brjóstakrabbamein (LCIS) tengist auknum líkum á ífarandi brjóstakrabbameini. Engu máli skiptir í hvoru brjóstinu staðbundna meinið greinist, auknu líkurnar á ífarandi meini eru þær sömu fyrir bæði brjóstin. Ef marka má þessa rannsókn má gera ráð fyrir að eftir að hafa greinst með staðbundið brjóstakrabbamein muni um 7% kvenna greinast með ífarandi brjóstakrabbamein.


Lærdómur sem draga má: Þessi umfangsmikla rannsókn sýnir að staðbundið mein í mjólkurkirtli – LCIS – tengist auknum líkum á því að fá illkynja mein í annað hvort brjóstið.


LCIS er engan veginn lífshættulegt þó að orðið mein eða “krabbamein” komi fyrir í því. Læknar hafa litlar áhyggjur af LCIS í sjálfu sér. Hins vegar eru auknar líkur á ífarandi krabbameini áhyggjuefni vegna þess að LCIS er einkenni eða merki um að líkur konunnar á að fá ífarandi brjóstakrabbamein í annað hvort brjóstið aukist við það. Oftast er það þó ekki staðbundna meinið sem verður að illkynja krabbameini.


Ef þú greinist með staðbundið mein í mjólkurkirtli þá munu læknar þínir einbeita sér að því að draga úr líkunum á ífarandi brjóstakrabbameini síðar meir. Þannig að jafnvel þótt svæðið þar sem staðbundna meinið fannst sé fjarlægt, er mikilvægt að fylgjast vel með báðum brjóstunum og gera ráðstafanir til að draga úr líkum á því að fá ífarandi brjóstakrabbamein.


Svona getur þú til dæmis sett upp áætlun um að finna hugsanlegt mein eins snemma og mögulegt er, með brjóstamyndatöku, með ómskoðun og með segulómun.


Mjög mikilvægt er fyrir þig að láta fylgjast vel með ástandi og heilsu brjóstanna og láta skoða þau vandlega að minnsta kosti einu sinni á ári. Mælt er með brjóstamyndatöku á leitarstöð einu sinni á ári eftir fertugt. Það er ástæða fyrir þig að fara reglulega í brjóstamyndatöku þótt þú sért ekki orðin fertug ef:


 • þú greindist með staðbundið mein í mjólkurkirtli (LCIS) fyrir fertugt,


 • ef í fjölskyldu þinni er dæmi um brjóstakrabbamein hjá konu/m yngri en fertugum eðaEf þú ert með einhvern af þessum stóru áhættuþáttum gæti verið ráð fyrir þig að fá segulsneiðmyndun á brjóstunum og láta rannsaka þig oftar en einu sinni ári. Læknir þinn gæti til dæmis mælt með því að þú létir rannsaka brjóstin tvisvar á ári – t.d. með brjóstamyndatöku í janúar og segulsneiðmyndun í júlí. Síðan er mikilvægt að láta lækni skoða á þér brjóstin með þreifingu tvisvar á ári.


Þú þarft einnig að ræða við lækni þinn um að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir til að draga úr líkum þínum á að fá brjóstakrabbamein. Þessar ráðstafanir fela í sér að breyta lifnaðarháttum og hugsanlega að fá eitthvert lyf eins og tamoxifen. Sumar konur sem greinst hafa með staðbundið krabbamein í mjólkurkirtli (LCIS) og eiga auk þess mikla fjölskyldusögu um brjóstakrabbamein og/eða eru með ættgengan arfbera brjóstakrabbameins gætu íhugað róttækari leiðir eins og þá að gangast undir fyrirbyggjandi brottnám brjóstanna.


Talaðu við lækni þinn um sérstöðu þína. Ákvarðanir tengdar LCIS þarf ekki að taka í neinum flýti. Þú getur gefið þér allan þann tíma sem þú þarft til að komast að niðurstöðu um hvað sé best fyrir ÞIG að gera.

ÞB